Stóru verkefnin skortir

"Ríkisstjórnin hefur vissulega verið að gera eitt og annað en það eru stóru verkefnin sem skipta höfuðmáli sem hafa ekki komist í framkvæmd," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á fréttavef mbl.is aðspurður um viðbrögð fjármálaráðherra við gagnrýni ASÍ á aðgerðaleysi stjórnvalda. "Þá er ég fyrst og fremst að tala um þessar stóru fjárfestingar í atvinnulífinu þar sem öllum hindrunum átti að vera búið að ryðja úr vegi fyrir 1. nóvember á síðasta ári. Og sömuleiðis átti að vera búið að taka ákvörðun fyrir 1. september á síðasta ári um stórar samgönguframkvæmdir þar sem lífeyrissjóðirnir áttu að koma að fjármögnun. Við erum enn þá með óþarflega mikið atvinnuleysi."

Í samtali við mbl.is segir Vilhjálmur ennfremur:

"Málið er að það er margt að ganga betur en við höfðum reiknað með. Það eru fleiri störf í hagkerfinu og minna atvinnuleysi en við gætum verið að horfa á ár þar sem við værum að fá hagvöxt og komast út úr kreppunni."

Alger hægagangur í Helguvík

Steingrímur J. Sigfússon hefur svarað gagnrýni ASÍ og vísað til þess að stjórnvöld fundi reglulega með fulltrúum launþega þar sem farið sé yfir aðgerðir í atvinnumálum. Hann undrast að ASÍ skuli ganga fram með svona málflutning. Hvað viltu segja um þessi viðbrögð? Hvað finnst þér þau segja um afstöðu stjórnvalda til þeirrar samvinnu sem hún hefur átt í með fulltrúum launþega.

"Ég bendi á þá staðreynd að það er alger hægagangur í Helguvík þegar sú framkvæmd hefði átt að vera komin á fullt. Það er ekkert byrjað í Suðvesturlínu en sú framkvæmd hefði þurft að vera komin á fullt. Það er ekki enn þá útséð með hvort Búðarhálsvirkjun fer í gang. Sú framkvæmd hefði þurft að vera komin á fullt.

Það er ekki farið að hreyfa neitt við Reykjanesvirkjun en sú framkvæmd hefði þurft að vera komin á fullt. Það er eitthvað farið að huga að Suðurlands- og Vesturlandsvegi en þær framkvæmdir eru ekki komnar á fullt eins og þyrfti að vera.

Þetta eru staðreyndir sem tala sínu máli og svo geta menn kallað þetta hvað sem er. Þarna eru staðreyndirnar sem tala og það er fullt af störfum sem hefði verið hægt að skapa með því að koma þessum framkvæmdum af stað þar sem verið væri að byggja upp til framtíðarinnar og treysta grundvöll atvinnulífsins til miklu lengri tíma.

Ég tel að þetta snúist ekki um lýsingarorð. Þetta snýst um framkvæmdir."

Sjá nánar:

Frétt mbl.is 25. maí 2010