Stjórnendur 400 stærstu: Viðsnúningur í mati á horfum

Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins sýna vaxandi áhyggjur þeirra af aðstæðum í atvinnulífinu, einkum í útflutningsgreinum, og mikinn viðsnúning í mati þeirra á horfum á næstunni þar sem jafn margir búast við batnandi og versnandi horfum.

Vinnuaflsskortur er töluverður, þar sem tæpur helmingur fyrirtækja finnur fyrir honum, en hefur þó minnkað frá síðustu könnun. Búast má við 1,5% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum.

Stjórnendur í öllum atvinnugreinum og stærðarflokkum fyrirtækja búast við verðbólgu undir markmiði á næstu 12 mánuðum.

Vaxandi áhyggjur af aðstæðum í atvinnulífinu

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er enn mjög há. Langflestir þeirra, 76%, telja aðstæður góðar í atvinnulífinu, en einungis 5% að þær séu slæmar. Munur er þó nokkur frá síðustu könnun, sem gerð var í september sl., en þá töldu 83% aðstæður góðar en einungis 2% slæmar. Sem fyrr sker sjávarútvegurinn sig úr í samanburði atvinnugreina þar sem 18% stjórnenda sjávarútvegsfyrirtækja telja aðstæður slæmar og ugglaust má rekja til mikillar styrkingar gengis krónunnar, en 12% þeirra mátu aðstæður slæmar í síðustu könnun. Þá telja 8% stjórnenda í í flutningum og ferðaþjónustu aðstæður slæmar en í síðustu könnun var enginn þeirra þeirrar skoðunar. Áberandi munur er á mati stjórnenda á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, þar sem 2% stjórnenda á höfuðborgarsvæðinu telja aðstæður slæmar en 13%  á landsbyggðinni. 

Mikill viðsnúningur í mati á horfum

Mikil breyting hefur orðið á mati stjórnenda á horfum í atvinnulífinu á næstunni. Einungis 20% þeirra telja að þær batni, samanborið við 39% í síðustu könnun, 60% að þær verði óbreyttar en 20% að þær versni. Stjórnendur í sjávarútvegi eru nokkuð svartsýnir á horfurnar, þar sem 42% þeirra telja að aðstæður  versni en 7% að þær batni. Stjórnendur í flutningum og ferðaþjónustu eru einnig fremur svartsýnir þar sem 25% þeirra telja aðstæður versna en 17% þær batni og einnig í iðnaði telja fleiri stjórnendur að aðstæður versni en að þær batni. Ekki kemur því á óvart að áhyggjur eru mestar í útflutningsstarfsemi, þar sem 29% stjórnenda telja að aðstæður muni versna en 20% að þær batni, samanborið við 12% og 21% í heimamarkaðsgreinunum.

undefined

Skortur á starfsfólki fer heldur minnkandi
Skortur á starfsfólki hefur minnkað heldur frá síðustu könnun og telja nú 37% stjórnenda skort ríkja á starfsfólki, en 42% þeirra töldu svo síðast. Yfir helmingur stjórnenda í byggingarstarfsemi og iðnaði segja skort vera á starfsfólki, en um eða innan við 40% í öðrum atvinnugreinum. Minnstur skortur á starfsfólki er í fjármálastarfsemi, sjávarútvegi og þjónustugreinum.

Starfsmönnum gæti fjölgað um 1.800 á næstu 6 mánuðum
30 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 35% stjórnenda þeirra sjá fram á fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum, 9% sjá fram á fækkun en 56% búast við óbreyttum fjölda. Niðurstöður benda til þess að starfsmönnum á almennum markaði gæti fjölgað um 1,5% á næstu sex mánuðum sem svarar til 1.800 starfa. Sem fyrr er búist við langmestri starfsmannafjölgun í byggingarstarfsemi.
undefined

Eftirspurn eykst bæði innanlands og erlendis
Stjórnendur sjá fyrir mikla aukningu eftirspurnar á innanlandsmarkaði á næstu sex mánuðum. 54% þeirra búast við aukinni eftirspurn, 41% að hún standi í stað en 5% að hún minnki. Búist er við mestri aukningu eftirspurnar í verslun og í fjármálastarfsemi. Búist er við mun meiri aukningu í heimamarkaðsgreinum en útflutningsgreinum og á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

Horfur virðast einnig góðar á erlendum mörkuðum. 40% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn, 47% að hún verði óbreytt og 9% að hún minnki. Minnst bjartsýni hvað erlenda eftirspurn varðar er í iðnaði, þar sem 27% stjórnenda telja að hún minnki, og í sjávarútvegi, þar sem 17% þeirra  telja svo verða.

Verðbólguvæntingar stöðugar og undir markmiði
Verðbólguvæntingar stjórnenda til næstu 12 mánaða eru undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans aðra könnunina í röð. Verðbólguvæntingarnar eru undir markmiðinu hjá stjórnendum í öllum atvinnugreinum og öllum stærðarflokkum fyrirtækja.

undefined

Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 11. nóvember til 1. desember og voru spurningar sjö. Í úrtaki voru 426 fyrirtæki sem teljast stærst miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 252, þannig að svarhlutfall var 59%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.