Vinnumarkaður - 

06. október 2015

Slitnar upp úr SALEK-viðræðum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Slitnar upp úr SALEK-viðræðum

Í gærkvöldi slitnaði upp úr viðræðum helstu viðsemjenda á almennum og opinberum vinnumarkaði (svokallaðs SALEKS-hóps) á fundi hjá ríkissáttasemjara sem hafa unnið að því undanfarin þrjú ár að innleiða bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga á Íslandi.

Í gærkvöldi slitnaði upp úr viðræðum helstu viðsemjenda á almennum og opinberum vinnumarkaði (svokallaðs SALEKS-hóps) á fundi hjá ríkissáttasemjara sem hafa unnið að því undanfarin þrjú ár að innleiða bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga á Íslandi.

Vonir stóðu til þess að samkomulag næðist sem stuðlaði að varanlegri aukningu kaupmáttar launafólks og kæmi í veg fyrir að verðbólga fari úr böndum í kjölfar mikilla launahækkana á almennum og opinberum vinnumarkaði á árinu.

Meginástæða þess að upp úr slitnaði í gærkvöldi er að heildarsamtök opinberra starfsmanna treystu sér ekki til að vinna áfram á þeim grundvelli sem var til umræðu. Hætta er því á að umsamdar kauphækkanir muni á endanum einungis skila mikilli verðbólgu, lækkun gengis krónunnar, hærri verðtryggðum skuldum og hærri vöxtum sem eru nú þegar margfalt hærri en í nágrannalöndunum.

Í tengslum við þessa vinnu lagði hópur hagfræðinga, sem starfa hjá heildarsamtökunum á vinnumarkaðnum (ASÍ, BHM, BSRB, KÍ og SA), fjármála- og efnahagsráðuneyti og Sambandi sveitarfélaga, mat á áhrif launahækkana á árinu á verðbólgu, kaupmátt launa, stýrivexti og gengi krónunnar. Í sameiginlegu minnisblaði til SALEK-hópsins  segja þeir að ef ekki verði brugðist við muni verðbólga vaxa, vextir hækka og gengi krónunnar falla.  Í minnisblaðinu segir m.a.:

Gera má ráð fyrir því að verðbólgan fari fljótlega yfir verðbólgumarkmið SÍ og fjarlægist það eftir því sem líður á tímabilið. Við þessar aðstæður er reiknað með að vextir verði háir og gengi krónunnar muni gefa eftir þrátt fyrir hækkandi vexti, vegna lakari samkeppnisstöðu og versnandi viðskiptajafnaðar. Bætist launaskrið ofan á þessa mynd er ljóst að verðbólguhorfur versna enn frekar, gengi krónunnar verður veikara en ella og vextir SÍ hærri. Gera má ráð fyrir að kaupmáttur launa vaxi mikið til skemmri tíma, en vöxtur hans stöðvist og veikist síðan til lengri tíma með vaxandi verðbólgu.“

Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins hefur lagt mat á þróun verðbólgu næstu árin m.v. umsamdar launahækkanir og mismunandi forsendur um launaskrið. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd gæti verðbólgan orðið 9% undir lok árs 2017 jafnvel þótt heildarsamtök launafólks og viðsemjendur þeirra næðu samkomulagi um breytt vinnumarkaðslíkan. Mat var einnig lagt á hugsanlega þróun án slíks samkomulags og var niðurstaðan að verðbólga og vextir Seðlabankans færu yfir 10% á árinu 2017.

undefined 

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að þessi niðurstaða valdi miklum vonbrigðum. „Það má öllum vera ljóst að grafalvarleg staða blasir við í efnahagsmálum ef ekki tekst að koma böndum á þær miklu launahækkanir sem hafa verið á vinnumarkaðnum undanfarna mánuði, eins og skýrt kemur fram í niðurstöðu hagfræðinga allra samtakanna sem tekið hafa þátt í vinnu SALEK-hópsins. Haldi stéttarfélög opinberra starfsmanna áfram að halda á lofti kröfum um sérstakar launahækkanir umfram það sem samið hefur verið um á almennum markaði munu allir tapa . Það er sameiginleg ábyrgð allra samningsaðila að ná skynsamlegri niðurstöðu til að forða efnahagslegu stórslysi sem að óbreyttu stefnir í.“

Samtök atvinnulífsins