Skref í átt til einsleitari vinnumarkaðar

Geir H. Haarde fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem ætlað er að færa starfsumhverfi ríkisstarfsmanna nær því sem almennt gerist á vinnumarkaði. Með frumvarpinu er lagt til að felld verði niður sú skylda forstöðumanns að áminna starfsmann formlega vegna brots á starfsskyldum, eða þegar hann hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem af starfinu leiða, og að gera slíka áminningu að skilyrði þess að hægt sé að segja starfsmanni upp störfum.

Tvískiptur vinnumarkaður
Rík ástæða er til að hrósa fjármálaráðherra fyrir þetta frumvarp. Í nýlegri skýrslu Samtaka atvinnulífsins er fjallað um tvískiptingu íslensks vinnumarkaðar, þar sem opinberir starfsmenn hafa ýmis réttindi umfram fólk á almennum vinnumarkaði, t.d. á sviðum lífeyris-, orlofs- og veikindaréttar, auk uppsagnarverndar. Umframréttindi opinberra starfsmanna hafa óneitanlega áhrif á hinn almenna vinnumarkað. Kemur það meðal annars fram í auknum kröfum á hendur fyrirtækjum á almennum markaði og í litlu flæði fólks milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins. 

Hamlandi starfsumhverfi stjórnenda
Margir stjórnendur hjá hinu opinbera hafa kvartað yfir því hamlandi starfsumhverfi sem þeir búa við, ekki síst hvað varðar uppsagnir og ráðningar. Þessi viðhorf komu skýrt fram á ráðstefnu Félags forstöðumanna og Stofnunar stjórnsýslufræða í mars sl.  Ríkisútvarpið hafði eftir einum forstöðumanni ríkisstofnunar að það væri nokkurn veginn útilokað að segja upp starfsfólki og eftir öðrum að það væri meiriháttar mál. Ríkið hefur enda ítrekað beðið lægri hlut í dómsmálum um gildi áminninga og uppsagna, og forstöðumenn ríkisstofnana hafa í kjölfarið ekki treyst sér til að segja upp starfsfólki, jafnvel þótt það standi sig ekki í starfi.

Meiri launahækkanir hjá hinu opinbera
Lengi vel var vísað til þess að laun opinberra starfsmanna væru lægri en gerðist á almenna vinnumarkaðnum og að það réttlætti það að löggjafinn skenkti þeim ýmis sérkjör umfram aðra landsmenn. Slík rök hljóta hins vegar ávallt að vera umdeilanleg.  Vera kann þó að þessi rök hafi að einhverju leyti átt við þegar opinberir starfsmenn höfðu engan eða takmarkaðan samningsrétt en þau eiga alls ekki lengur við. Í ljósi þess að laun hjá hinu opinbera hafa hækkað mikið á undanförnum árum, jafnvel áratugum, og mun meira en á almennum vinnumarkaði, hafa sérkjör opinberra starfsmanna varðandi uppsagnarvernd annars vegar og lífeyrisréttindi hins vegar stungið sífellt meira í augun. 

Skref í átt til einsleitari vinnumarkaðar
Staðreyndin er sú að ekki er unnt að jafna kjör annarra landsmanna við þessi réttindi opinberra starfsmanna, auk þess sem það myndi hafa neikvæð áhrif á hagvöxt og þar með lífskjör þegar upp er staðið, að reyra efnahagslífið í fjötra ósveigjanlegs vinnumarkaðar. Afleiðingar þess þekkja menn frá Þýskalandi og víðar. Jöfnun getur því ekki átt sér stað nema með því að dregið verði úr sérkjörunum, þannig að allur vinnumarkaðurinn búi við sambærilegar reglur. Frumvarp fjármálaráðherra felur í sér skref í þá átt, í átt að einsleitari vinnumarkaði á Íslandi, og á ráðherrann sem fyrr segir skilið hrós fyrir.

Ari Edwald