Fréttir - 

20. febrúar 2015

Síldarvinnslan er menntasproti ársins 2015

Menntamál

Menntamál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Síldarvinnslan er menntasproti ársins 2015

Menntasproti ársins 2015 er Síldarvinnslan, eitt af öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins en fyrirtækið var stofnað árið 1957 í Neskaupstað. Árið 2013 stofnaði Síldarvinnslan Sjávarútvegsskóla þar sem 14 ára grunnskólanemum var gefinn kostur á að fræðast um fiskveiðar og -vinnslu yfir sumartímann á launum. Ástæðan var sú að kynslóð ungmenna var að alast upp á Neskaupstað án þess að fá nægilega fræðslu um sjávarútveg og mikilvægi hans og úr því vildi Síldarvinnslan bæta.

Menntasproti ársins 2015 er Síldarvinnslan, eitt af öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins en fyrirtækið var stofnað árið 1957 í Neskaupstað. Árið 2013 stofnaði Síldarvinnslan Sjávarútvegsskóla þar sem 14 ára grunnskólanemum var gefinn kostur á að fræðast um fiskveiðar og -vinnslu yfir sumartímann á launum. Ástæðan var sú að kynslóð ungmenna var að alast upp á Neskaupstað án þess að fá nægilega fræðslu um sjávarútveg og mikilvægi hans og úr því vildi Síldarvinnslan bæta.

Í dag er afla landað á lokuðum hafnarsvæðum og vinnslan fer fram innanhúss þar sem farið er eftir ströngum reglum um gæði og hollustuhætti. Færri starfa við greinina en áður og krakkar geta alist upp í sjávarþorpum á Íslandi í dag án þess að snerta eða sjá fisk nema við matarborðið. Jafnvel í Fjarðabyggð þar sem er stærsta löndunarhöfn á Íslandi.

Fleiri hafa bæst í hóp þeirra sem standa að skólanum, m.a. Eskja og Loðnuvinnslan, og nú nær Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar til allra svæða innan sveitarfélagsins og hafa 85% ungmenna í byggðinni, sem fædd eru árið 2000, lokið námi við skólann.

Starfsemi Síldarvinnslunnar og hlutdeildarfélaga er á fimm stöðum á landinu, í Bandaríkjunum og á Grænlandi. Starfsmenn eru 270 talsins, fólk með fjölbreyttan bakgrunn, menntun og reynslu. Mikil áhersla er lögð á fræðslumál og starfsmenn eru hvattir til að sækja sér menntun hjá ýmsum fræðsluaðilum. Síldarvinnslan leggur áherslu á að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og styður við  menntastofnanir, rannsóknir og menntastarf á Austurlandi.Meðal annars með stofnun FABLAB-stafrænnar smiðju þar sem sköpunargáfan er þjálfuð og einnig með uppsetningu á fullkomnum vélarrúms-hermi sem er notaður við vélstjórnarnám í verkmenntaskólanum.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaunin á menntadegi atvinnulífsins 2015 sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica. Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar tók við verðlaununum og sagði þau skipta fyrirtækið miklu máli. Hann sagði það sláandi sem fram hefði komið á menntadeginum að 55% ungmenna í framhaldsskóla sjái ferðaþjónustu og sjávarútveg sem helstu vaxtargreinarnar í íslensku atvinnulífi en aðeins 8,5% hugsi sér að vinna við greinarnar. Mikil tækifæri blasi við í að fá ungt fólk til beina kröftum sínum í þessar greinar til að geta búið til meiri verðmæti og bætt lífskjör Íslendinga þannig að þau verði sambærileg við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar.

undefined

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni SAF, SFF, SFS, Samorku, SI, SVÞ og SA. Menntaverðlaun atvinnulífsins eru veitt í tveimur flokkum, annars vegar er menntasproti ársins útnefndur og hins vegar er menntafyrirtæki ársins valið sem að þessu sinni er Marel.

Dómnefnd var skipuð Hildi Elínu Vignir framkvæmdastjóra hjá Iðunni, Steini Loga Björnssyni forstjóra, Ingibjörgu Elsu Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Þorsteini Sigfússyni framkvæmdastjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

undefined

 

Hér er stutt myndband um hvers vegna Síldarvinnslan er menntasproti ársins 2015 ...

undefined

Samtök atvinnulífsins