Efnahagsmál - 

15. Apríl 2011

Sáttatillaga SA í sjávarútvegsmálum felur í sér viðamiklar breytingar (1)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sáttatillaga SA í sjávarútvegsmálum felur í sér viðamiklar breytingar (1)

Samtök atvinnulífsins harma að ríkisstjórn Íslands skuli ekki hafa nýtt einstakt tækifæri til að ná nauðsynlegri sátt um málefni sjávarútvegsins. SA hafa lagt fram tillögur um viðamiklar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem fela í sér útfærslu á samningaleið í sjávarútvegi. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún muni leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða í næsta mánuði án nokkurs samráðs við hagsmunaaðila. Hins vegar sé unnið að hagfræðilegri úttekt á breytingunum sem verði kynnt hagsmunaaðilum þegar niðurstaða liggi fyrir.

Samtök atvinnulífsins harma að ríkisstjórn Íslands skuli ekki hafa nýtt einstakt tækifæri til að ná nauðsynlegri sátt um málefni sjávarútvegsins. SA hafa lagt fram tillögur um viðamiklar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem fela í sér útfærslu á samningaleið í sjávarútvegi. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún muni leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða í næsta mánuði án nokkurs samráðs við hagsmunaaðila. Hins vegar sé unnið að hagfræðilegri úttekt á breytingunum sem verði kynnt hagsmunaaðilum þegar niðurstaða liggi fyrir.

Sáttatillögur SA má nú lesa á vef SA ásamt tillögum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur en það er mat samtakanna að ekki sé hægt að skilja sjávarútveginn eftir í óvissu um framtíðina.  Á Íslandi er rekinn öflugur, sjálfbær og arðbær sjávarútvegur og mikilvægt að tryggja að svo verði áfram þannig að atvinnugreinin geti áfram lagt sem mest til samfélagsins.

SA hafa sent ríkisstjórn Íslands meðfylgjandi ramma að sátt í sjávarútvegi og hafa óskað eftir frekari viðræðum um eftirfarandi efnisatriði og útfærslu þeirra, s.s. lengd afnotatíma, magn aflahlutdeilda sem verði ráðstafað af ríkinu , framsal aflaheimilda og upphæð veiðigjalds auk fleiri þátta:

  • Í stað þess að útgerðir hafi ótímabundinn afnot aflahlutdeildar verður gerð sú grundvallarbreyting að gerðir verða tímabundnir samningar á milli ríkisins og útgerða um afnot af aflahlutdeild.

  • Afnotatíminn verður ___ ár. Samningarnir munu m.a. fela í sér að þegar hluti samningstímans er liðinn, þá hafa afnotahafar rétt til framlengingar þannig að jafn langur tími og liðinn er bætist við þann tíma sem eftir er.

  • Hluta aflaheimilda, allt að ___ þúsund þorskígildistonn, verður ráðstafað af ríkinu fram hjá aflahlutdeild til samfélagslegra verkefna.

  • Ákvæðum um veiðigjald verði breytt þannig að í stað þess að vera 9,5% af reiknuðum vergum hagnaði útgerðarinnar þá verði lagður viðbótartekjuskattur, allt að ____% á hagnað útgerðarinnar. Viðbótartekjuskatturinn skal reiknaður á heildargrunni en jafnað á milli veiðigreina eftir afkomu þeirra.

  • Kaup og sala aflamarks gegnir mikilvægu hlutverki, ekki síst þegar um fjölstofnaveiðar er að ræða. Því er mikilvægt að takmarkanir á framsali aflamarks komi ekki í veg fyrir nauðsynlegan sveigjanleika. Á sama hátt telur ríkisstjórnin að tekjumyndun útgerða af aflaheimildum sínum verði með veiðum aflamarksins og því sé eðlilegt að sala aflamarks umfram kaup verði skattlögð sérstaklega um ___%.

Tillaga ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur:

"Ríkisstjórnin mun leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða fljótlega í næsta mánuði. Markmið laganna er að brjóta upp forgang núverandi kvótahafa að lokuðu kerfi og reisa skorður við að þeir geti fénýtt þá sameign landsmanna sem fiskimiðin eru með því að leigja eða selja öðrum veiðiheimildir á himinháu verði.

Að því er stefnt að skapa sjávarúveginum traust rekstrarskilyrði til lengri tíma, auka þjóðhagkvæmni greinarinnar og treysta atvinnufrelsi og jafnræði innan hennar.

Megintillögur frumvarpsins fela í sér að úhlutun á aflaheimildum verði breytt í nýtingarheimildir samkvæmt samningum til afmarkaðs tíma. Hluti þeirra renni í áföngum til byggða- og leigupotta; þjóðin njóti arðs af auðlindinni með gjaldtöku. Varanlegt framsal verði takmarkað.

Nú er unnið að hagfræðilegri úttekt á tillögunum. Tekur hún til efnahagslegra áhrifa og rekstrarskilyrða í sjávarútvegi. Þess er vænst að úttektin geti legið fyrir innan mánaðar og fari þá til nefndar þingsins sem hefur málið til meðferðar á alþingi.

Stjórnvöld lýsa því yfir að þau munu fara með hagsmunaaðilum yfir þá úttekt þegar hún liggur fyrir og meta með þeim hvort og þá hvaða breytingar eða aðlögun þurfi að gera ef úttektin sýnir að fyrirhugaðar breytingar kvótakerfisins hafi umtalsverð neikvæð áhrif á rekstrarskilyrði greinarinnar í heild sinni, umframþað sem eðlileg gjaldtaka hefur í för með sér."

Samtök atvinnulífsins