Samskip og Nordic Visitor hljóta Menntaverðlaun atvinnulífsins 2014

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í fyrsta sinn í dag til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Samskip voru útnefnd sem Menntafyrirtæki ársins 2014 en ferðaþjónustufyrirtækið Nordic Visitor var útnefnt Menntasproti ársins 2014. Auk heiðursins hljóta starfsmannafélög fyrirtækjanna 100 þúsund krónur hvort. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir - iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins en SA, SAF, SI, SVÞ, SF, LÍÚ, SFF og Samorka stóðu að deginum þar sem menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu var í kastljósinu. Þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag. Efling menntunar á öllum skólastigum og framhaldsfræðslu er brýnt hagsmunamál fyrirtækja og eykur samkeppnishæfni þeirra

Í sjónvarpsinnslögum á Vimeo má sjá hvers vegna fyrirtækin voru tilnefnd til Menntaverðlauna atvinnulífsins og hvers vegna þau hlutu verðlaunin. Auk Samskipa voru Isavia, Landsbankinn og Rio Tinto Alcan á Íslandi tilnefnd sem Menntafyrirtæki árins en fyrirtækin leggja öll áherslu á mikilvægi menntunar og hafa skýra mennta-og fræðslustefnu sem er fylgt eftir. Við mat á tilnefningum voru gæði fræðslunnar metin og kannað hvort mennta- og fræðslustefnan hafi eflt menntun innan fyrirtækjanna og aukið samkeppnishæfni þeirra.

Auk Nordic Visitor voru Codland, Landsnet og Leikskólinn Sjáland tilnefnd sem Menntasproti ársins en fyrirtækin hafa öll í rekstri sínum lagt aukna áherslu á fræðslu- og menntamál. Við mat á tilnefningum var skoðað hvort farnar hafi verið nýjar leiðir við eflingu menntunar innan fyrirtækjanna og þátttöku starfsmanna í fræðslustarfinu.

SMELLTU HÉR TIL AÐ HORFA