07. apríl 2022

Samið um kostnaðarramma í Noregi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samið um kostnaðarramma í Noregi

Föstudaginn 1. apríl náðist samkomulag milli norsku samtaka iðnaðarins og Fellesforbundet sem er fjölmennasta verkalýðsfélagið í einkageiranum. Niðurstaðan er 3,7% kostnaðarrammi fyrir árið 2022. Í framhaldinu fara fram viðræður í héraði sem taka mið af efnahagsstöðu einstakra fyrirtækja.


Samsetning 3,7% rammans, sem er tala fyrir launahækkun milli áranna 2021 og 2022, er eftirfarandi:

  • Miðlægar hækkanir. Almenn hækkun tímakaups um 4 norskar krónur (60 ísl.kr.) og hækkanir kauptaxta kjarasamninga eru að meðaltali áætluð hækka launa starfsfólks í iðnaði um 1,3%.
  • Þegar framkomnar hækkanir í ársbyrjun 2022 eru áætlaðar 0,7%.
  • Svonefnt launaskrið er áætlað 1,5% en það er áætluð meðaltals niðurstaða samninga fyrirtækja og starfsfólks þeirra í héraði.

Samningsaðilar búast við 3,3% verðbólgu milli áranna 2021 og 2022 þannig að á heildina litið munu samningarnir auka kaupmátt launa um 0,4% milli áranna.


Skapa fordæmi fyrir aðra
Samkomulagið myndar grundvöll fyrir aðra samningsgerð í norsku atvinnulífi. Í Noregi fylgja aðilar á vinnumarkaði svonefndu frontfags líkani sem felur í sér að sá hluti iðnaðarins sem berskjaldaður er gagnvart erlendri samkeppni gerir fyrsta kjarasamninginn og hann verður viðmið fyrir samningsgerð í öðrum atvinnugreinum og geirum. Líkanið hefur, að mati samningsaðila, stuðlað að mikilli verðmætasköpun, háu atvinnustigi og jafnvægi í tekjuskiptingu milli launafólks og fyrirtækja.

Að sögn Ole Erik Almlid, framkvæmdastjóra norsku Samtaka atvinnulífsins, koma atvinnugreinar í Noregi afar mismunandi undan tveggja ára farsóttartímabili. Nú sé mikilvægt að aðrir kjarasamningar haldi sig við viðmiðunina sem frontfagið hafi sett. Aðeins á þann hátt sé unnt að tryggja samkeppnishæfni norsks efnahagslífs til lengri tíma. Á óvissutímum sé enn mikilvægara en endranær að standa vörð um samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Bakgrunnur kjarasamninga þessa árs er óvenju miklir erfiðleikar. Þeir kostnaðarþættir sem nú leggjast þungt á heimilin bitna einnig á fyrirtækjunum. Þar við bætist óvissan af áhrifum stríðsins í Úkraínu og meðfylgjandi refsiaðgerðum á heimsbúskapinn.

Samtök atvinnulífsins