Sameinumst um markmið

Árangur kjarasamninga síðasta árs er betri en vonir stóðu til. Kaupmáttur hjóna með meðaltekjur jókst um 450 þúsund krónur á ári sem samsvarar rúmlega þriggja mánaða matarútgjöldum meðalheimilis. Í árslok 2014, ári eftir gerð kjarasamninganna, hafði verðbólga hjaðnað úr 4,3% í desember 2013 í 0,8% í desember 2014. Kaupmáttur launa jókst um 5% á árinu, sem er mesta aukning kaupmáttar á einu ári á Íslandi samhliða efnahagslegum stöðugleika.

Síðast en ekki síst lækkuðu stýrivextir Seðlabanka Íslands um 0,75% á árinu. Lækkun vaxtabyrði dæmigerðs heimilis samsvaraði 1% kaupmáttaraukningu og höfuðstóll lána heimilisins hækkaði um hálfri milljón króna minna en ef verðbólga hefði verið sú sama 2014 og hún var 2013. Þetta kemur m.a. fram í leiðara nýs fréttabréfs SA þar sem Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, fjallar um stöðuna á vinnumarkaði og horfurnar framundan. Hann segir að aukinn kaupmáttur launa og efnahagslegur stöðugleiki sé samtvinnað markmið. „Ef allir vinna að því markmiði verður hag heimilanna best borgið.“

Leiðarann má lesa hér að neðan: 

Kjarasamningarnir í desember 2013 mörkuðu tímamót. Meginmarkmiðið var að vinnubrögð við gerð kjarasamninga nær þeim sem viðhöfð eru á Norðurlöndum og hafa skilað afar góðum árangri á undanförnum áratugum – stórauknum kaupmætti samhliða efnahagslegum stöðugleika. Um þetta voru aðilar sammála enda lá að baki viðamikil, sameiginleg greining á samningsumhverfi á Norðurlöndum og árangri sem þar hefur náðst. Að auki var í fyrsta sinn unnin sameiginleg greining á stöðu og horfum í efnahagslífinu í aðdraganda kjarasamninga þar sem meðal annars var fjallað um þætti sem hafa áhrif á svigrúm til launahækkana án þess að raska verðstöðugleika.

Niðurstaða kjarasamninga á almenna markaðnum og stærstum hluta þess opinbera voru í takti við þessar áherslur. Árangurinn lét heldur ekki á sér standa. Í árslok 2014, ári eftir gerð kjarasamninganna, hafði verðbólga hjaðnað úr 4,3% í desember 2013 í 0,8% í desember 2014. Kaupmáttur launa jókst um 5% á árinu, sem er mesta aukning kaupmáttar á einu ári á Íslandi samhliða efnahagslegum stöðugleika. Síðast en ekki síst lækkuðu stýrivextir Seðlabanka Íslands um 0,75% á árinu.

Þetta er mikilsverður árangur og mun betri en vonir stóðu til þegar kjarasamningar voru undirritaðir í desember 2013.

Árangurinn birtist þannig að kaupmáttur einstaklings með meðaltekjur jókst um 19.000 krónur á mánuði eftir greiðslu tekjuskatts eða 225.000 krónur á ári milli áranna 2013 og 2014. Það þýðir 450 þúsund krónur á ári fyrir hjón með meðaltekjur. Útgjöld meðalheimilis með 2,4 einstaklinga til kaupa á matar- og drykkjarvörum námu 950 þúsund krónum á síðasta ári. Aukinn kaupmáttur meðaltekna samsvarar rúmlega þriggja mánaða matarútgjöldum meðalheimilis.

Á sama tíma lækkaði byrði heimilanna vegna vaxta og verðbóta. Skuldir heimilanna skiptast þannig um þessar mundir að verðtryggð lán eru þrír fjórðu hlutar og óverðtryggð einn fjórði. Heimili með 20 m.kr. skuldir sem skiptast í þeim hlutföllum greiddu 73 þús. kr. minna í vexti á árinu 2014 en árið 2013 eða sem svarar 6 þús. kr. á mánuði. Það samsvarar tæplega 1% aukningu kaupmáttar ráðstöfunartekna. Þar til viðbótar hækkuðu verðtryggðu lánin mun minna árið 2014 en árið 2013. Verðhækkun höfuðstóls 15 m.kr. verðtryggðs láns var 630 þús. kr. árið 2013 en aðeins 120 þús. kr. árið 2014. Hjöðnun verðbólgunnar skilaði þeim árangri að verðtryggð 15 m.kr. lán hækkuðu hálfri milljón króna minna en ef verðbólgan hefði verið sú sama árið 2014 og hún var árið 2013.

Að þessu var stefnt við gerð síðustu kjarasamninga. Ráðstöfunartekjur heimilanna aukast ekki aðeins með hækkun launa og auknum kaupmætti. Þær aukast ekki síður með lækkun kostnaðar. Húsnæðiskostnaður er um fimmtungur af meðalútgjöldum heimilanna. Vextir og verðbætur vega þar þyngst, ekki aðeins í greiðslubyrði heimilanna heldur ekki síður í byggingakostnaði.

Ávinningur af auknum stöðugleika er því í raun tvöfaldur þegar kemur að ráðstöfunartekjum heimilanna. Þau njóta bæði aukins kaupmáttar og lækkandi vaxta og verðbóta.

Um þessar mundir eru 25 ár liðin frá undirritun þjóðarsáttarsamninganna í febrúar árið 1990. Áratuginn fyrir þjóðarsáttina ríkti mikill óstöðugleiki í íslensku efnahagslífi. Laun hækkuðu að jafnaði um nær 40% á ári en hækkun þeirra var jafnharðan étin upp af verðbólgu og gengislækkunum. Þegar upp var staðið var kaupmáttaraukningin nær engin. Efnahagslífið var rjúkandi rúst og það tók nærri áratug að endurreisa kaupmátt eftir fallið hans í aðdraganda þjóðarsáttarinnar. Lærdómur níunda áratugarins ætti að vera ævarandi víti til varnaðar.

Í kröfugerðum í aðdraganda kjaraviðræðna nú enduróma kröfur níunda áratugarins. Samningsbundin laun skuli hækkuð um tugi prósenta í einni svipan – ef ekki með góðu þá verði hækkun þeirra knúin fram með verkföllum. Þessar kröfur eru ekki rökstuddar með efnahagslegum rökum, enda óumdeilt að þær rúmast ekki innan efnahagslegs svigrúms atvinnulífsins. Þær myndu leiða til mikillar verðbólgu, hækkunar vaxta og fækkunar starfa. Það er talsvert erfiðara að kveða niður verðbólgudrauginn en að vekja hann upp. Engin leið er að sjá fyrir endann á óstöðugleikatíma sem hafist gæti yrðu þessar kröfur að veruleika. Þessi leið er ekki valkostur.

Mikilvægt er að draga lærdóm af því sem afvega fór í kjölfar síðustu kjarasamninga. Ráðast verður í umbætur á íslenska vinnumarkaðslíkaninu og ástæða er að ætla að um þær geti myndast sátt.

Með því að byggja á árangri síðasta árs og tryggja að í lok þessa árs hafi kaupmáttur enn aukist samhliða lágri verðbólgu og lækkandi vöxtum.

Aukinn kaupmáttur launa og efnahagslegur stöðugleiki er samtvinnað markmið. Ef allir vinna að því markmiði verður hag heimilanna best borgið. Um það hljótum við að vera sammála.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Tengt efni:

Af vettvangi í febrúar 2015