Rætt um hópmálsóknir innan ESB

Á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) er nú mikið rætt um hvort samræma eigi löggjöf aðildarríkja um  hópmálsóknir og þá með útgáfu nýrrar tilskipunnar ESB. Hefur framkvæmdastjóri ESB á sviði neytendamála, Meglena Kuneva, sýnt slíkri löggjöf mikinn áhuga. Samtök atvinnulífsins í Evrópu, BUSINESSEUROPE, hafa hins vegar vakið á því athygli að óeðlilegt sé að ESB sé beinlínis að hvetja til lögsókna með löggjöf sinni. Vænlegra sé fyrir alla aðila, jafnt einstaklinga sem fyrirtæki að leggja fremur áherslu á og styrkja þau úrræði sem nú þegar eru til staðar og hægt er að sækja utan dómstóla s.s. til gerðardóma, sáttameðferða og kærunefnda.

Guðrún Björk Bjarnadóttir, lögmaður hjá SA, fjallar um málið í grein í Viðskiptablaðinu. Þar kemur m.a. fram að af 27 aðildarríkjum ESB eru 14 ríki með ákvæði í lögum sem heimila hópmálsóknir. Nokkur ríki til viðbótar eru nú að huga að löggjöf á þessu sviði og þá sérstaklega á sviði neytendaverndar, umhverfisverndar og til handa minnihluta í hlutafélögum.

Í niðurlagi greinarinnar segir að hugsanleg löggjöf um hópmálsóknir á vegum ESB muni þó líklega einungis setja lágmarkskröfur til ríkjanna varðandi aðgang tiltekinna hópa að dómstólum en ekki samræma löggjöfina að öðru leyti. Þannig verði einstökum ríkjum samt sem áður frjálst að fara lengra og enn nær bandarískri hópmálsóknalöggjöf en löggjöf ESB mun gera, en sú þróun sé þegar hafin og ófyrirséð hvernig hún endi. Skaðabótaréttur ríkja ESB hafi verið í þróun í áraraðir og sé nokkuð ólíkur milli ríkja t.d. hvað varði mat á tjóni og sönnunarbyrði. Fara verði mjög varlega í að nota neytenda- og samkeppnisrétt til þess að samræma þessa skaðabótalöggjöf.

Greinin fylgir hér í heild:

Á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) er nú mikið rætt um hvort samræma eigi löggjöf aðildarríkja um  hópmálsóknir og þá með útgáfu nýrrar tilskipunnar frá ESB. Hefur framkvæmdastjóri ESB á sviði neytendamála, Meglena Kuneva, sýnt slíkri löggjöf mikinn áhuga. Af 27 aðildarríkjum ESB eru 14 ríki með ákvæði í lögum sem heimila hópmálsóknir. Nokkur ríki til viðbótar eru nú að huga að löggjöf á þessu sviði og þá sérstaklega á sviði neytendaverndar, umhverfisverndar og til handa minnihluta í hlutafélögum.

Ólík löggjöf í ríkjum ESB

Löggjöf þeirra ríkja sem leyfa hópmálsóknir er þó mismunandi og gengur mislangt í að leyfa slíkar málsóknir. Algengast er að slík löggjöf sé með ákvæði um samlagsaðild, þ.e.a.s. leyfi fleiri en einum að sækja mál í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings og/eða hafi ákvæði er heimili félagi eða samtökum að höfða mál vegna félagsmanna sinna. Fellur íslensk löggjöf í þennan flokk, en í lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991, er bæði að finna ákvæði um samlagsaðild (19. gr.) og ákvæði er leyfa félagi eða samtökum að sækja mál vegna félagsmanna sinna (3. mgr. 25. gr.). Á ensku hafa slíkar hópmálsóknir verið nefndar "Mass Action" eða "Group Litigation" annars vegar og "Representative Claim" hins vegar.

Bandarískar hópmálsóknir

Hópmálsóknir eins og tíðkast í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu sem á ensku nefnast "Class Action" eru nokkuð frábrugðnar evrópsku hópmálsóknunum. Helsti munurinn er sá að í Bandaríkjunum getur einn eða fleiri nafngreindir aðilar höfðað mál fyrir hönd hóps án þess að aðrir aðilar hópsins séu tilgreindir eða komi beint að sjálfri málshöfðuninni. Er framkvæmdin þá þannig að áður en hópmálsóknin fer fyrir dóm þarf dómstóll fyrst að ákveða hvort skilyrði hópmálsóknar séu uppfyllt og ef svo er gefur dómstóllinn út sérstakt skilríki þess efnis og tilnefnir um leið sérstakan umboðsmann hópsins, venjulega lögmann. Þá verða þeir sem uppfylla skilyrði hópsins sérstaklega að segja sig úr honum til að vera ekki bundnir af dómsúrlausninni eða sáttinni sem gerð er fyrir dómstólnum. Svíþjóð er eina ríkið innan ESB sem hefur löggjöf sem heimilar eiginlegar hópmálsóknir eins og þekkjast í Bandaríkjunum.

Viðhorf ESB til samkeppnislagabrota

ESB virðist nú ætla að teygja sig í átt að hópmálsóknalöggjöf eins og tíðkast í Bandaríkjunum. Einn helsti hvatinn að slíkri löggjöf er það viðhorf innan ESB að það sé of erfitt fyrir neytendur innan ESB að sækja rétt sinn vegna brota á samkeppnislögum s.s. vegna verðsamráðs eða vegna misnotkunar á markaðsráðandi aðstöðu.  Telur framkvæmdastjórn ESB að með því að styrkja einstaklinga í að sækja bætur vegna brota á samkeppnislögum muni fleiri samkeppnislagabrot upplýsast og fleiri fyrirtæki verða lögsótt vegna brota á samkeppnislögum. Myndi slíkt hafa í för með sér varnaðaráhrif og hjálpa til við að fækka samkeppnislagabrotum í framtíðinni. Telur ESB að í dag sitji of mörg fórnarlömb samkeppnislagabrota með tjón sitt óbætt því það taki því ekki fyrir marga að sækja tiltölulega lágar bætur vegna þeirrar fyrirhafnar og kostnaðar sem slíkt útheimtir. Þegar hópur tjónþola tekur sig saman til að sækja rétt sinn sameiginlega mæti þeim síðan of margar réttarfarslegar hindranir.

Í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB frá apríl sl. um bætur vegna brota á samkeppnislögum er lagt til að einstaklingum verði auðveldað að sækja rétt sinn í sameiningu vegna brota á samkeppnislögum. Er lagt til að samtök eins og neytendasamtök eða stéttarfélög sem fengið hafi vottun hins opinbera geti höfðað mál fyrir félagsmenn sína. Þá er lagt til að slakað verði á kröfum til sönnunar tjóns sem einstaklingar hafa orðið fyrir vegna samkeppnislagabrota. Í skýrslunni kemur fram að þar sem samtök eru hins vegar ekki alltaf tilbúin að fara í mál fyrir hönd félagsmanna sinna verði einnig að vera hægt fyrir hóp tjónþola að taka sig saman og fara í hópmálsókn án aðkomu slíkra samtaka.

Viðhorf atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins í Evrópu, BUSINESSEUROPE, hafa vakið á því athygli að óeðlilegt sé að ESB sé beinlínis að hvetja til lögsókna með löggjöf sinni. Vænlegra sé fyrir alla aðila, jafnt einstaklinga sem fyrirtæki að leggja fremur áherslu á og styrkja þau úrræði sem nú þegar eru til staðar og hægt er að sækja utan dómstóla s.s. til gerðardóma, sáttameðferða og kærunefnda. Þá hefur stefna ESB vakið þær áhyggjur að með henni sé verið að feta inn á braut þar sem ótti við lögsóknir verður ráðandi afl í þjóðfélaginu. Væri slíkt afskaplega slæmt fyrir samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja. Hefur það sýnt sig að ótti fyrirtækja við hópmálsóknir getur leitt til þess að fyrirtæki fallast á bótagreiðslur jafnvel þótt þau telji sig án sakar til þess eins að komast hjá slæmri umfjöllun í fjölmiðlum. Því hefur einnig verið haldið fram að það kerfi sem tíðkist í Bandaríkjunum þar sem allir sem uppfylla skilgreiningu hóps sem stendur í hópmálsókn teljast bundnir af dómsúrlausn jafnvel þótt þeir hafi á engan hátt átt aðild að málsókninni sé brot á rétti hvers manns til að fara með mál sitt fyrir dómstóla sem tryggður er í 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Því muni sú leið ekki ganga upp jafnvel þótt eiginlegar hópmálsóknir yrðu að öðru leyti heimilaðar í tilteknum tilvikum.

Hugsanleg löggjöf um hópmálsóknir á vegum ESB mun þó líklega einungis setja lágmarkskröfur til ríkjanna varðandi aðgang tiltekinna hópa að dómstólum en ekki samræma löggjöfina að öðru leyti. Þannig verður einstökum ríkjum samt sem áður frjálst að fara lengra og enn nær bandarískri hópmálsóknalöggjöf en löggjöf ESB mun gera, en sú þróun er þegar hafin og er ófyrirséð hvernig hún endar. Skaðabótaréttur ríkja ESB hefur verið í þróun í áraraðir og er nokkuð ólíkur milli ríkja t.d. hvað varðar mat á tjóni og sönnunarbyrði. Verður að fara mjög varlega í að nota neytenda- og samkeppnisrétt til þess að samræma þessa skaðabótalöggjöf.