Vinnumarkaður - 

22. febrúar 2016

Óþörf sextán þúsund störf?

Vinnu- og hvíldartími

Vinnu- og hvíldartími

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Óþörf sextán þúsund störf?

Fimm þingmenn hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um að stytta lögbundna vinnuviku úr 40 í 35 klukkustundir án þess að kjör fólks skerðist. Verði frumvarpið samþykkt mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf en rök þingmannanna fyrir breytingunni eru vægast sagt veik. Þingmennirnir telja að 32 milljónir unninna vinnustunda geti fallið brott án þess að það hafi nein áhrif. Það jafngildir 16 þúsund ársverkum. Liðlega 140 þúsund starfsmenn eru í fullu starfi og virðast þingmennirnir telja að þeir geti auðveldlega bætt þessum 16 þúsund störfum við sig. Sennilegra er að launakostnaður atvinnulífsins myndi aukast um rúmlega 25% á einu bretti.

Fimm þingmenn hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um að stytta lögbundna vinnuviku úr 40 í 35 klukkustundir án þess að kjör fólks skerðist. Verði frumvarpið samþykkt mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf en rök þingmannanna fyrir breytingunni eru vægast sagt veik. Þingmennirnir telja að 32 milljónir unninna vinnustunda geti fallið brott án þess að það hafi nein áhrif. Það jafngildir 16 þúsund ársverkum. Liðlega 140 þúsund starfsmenn eru í fullu starfi og virðast þingmennirnir telja að þeir geti auðveldlega bætt þessum 16 þúsund störfum við sig. Sennilegra er að launakostnaður atvinnulífsins myndi aukast um rúmlega 25% á einu bretti.  

Vinnutími er viðfangsefni kjarasamninga – ekki löggjafans
Vinnutími er samningsatriði í kjarasamningum og óeðlilegt er að Alþingi hafi afskipti af þessum mikilvæga hluta þeirra. Mikilvægt er að Alþingi virði það hlutverk aðila vinnumarkaðarins að komast að niðurstöðu um svigrúm til breytinga á launakostnaði í kjarasamningum og forgangsraða til hvers því er varið hverju sinni.

Afdrifaríkar afleiðingar
Ef frumvarpið yrði samþykkt á Alþingi myndi lögboðinn virkur vinnutími styttast úr 37 stundum í 32 og tímakaup, eða laun fyrir unna vinnustund, hækkaði í einu vetfangi um 14%. Launakostnaður atvinnulífsins myndi aukast mun meira því ósennilegt er að heildarvinnutími myndi styttast nokkuð við lögfestinguna. Greiddum yfirvinnustundum myndi því fjölga álíka mikið og dagvinnustundunum fækkaði. Ef sú yrði raunin myndi launakostnaður atvinnulífsins aukast um 26-28%. Það hefði miklar og afdrifaríkar afleiðingar á verðbólgu og gengi krónunnar.

Á vinnumarkaðnum eru rúmlega 140 þúsund einstaklingar í fullu starfi. Þingmennirnir virðast telja að þessir 140 þúsund starfsmenn geti bætt við sig viðbótar vinnuframlagi sem samsvarar vinnu 16 þúsund manna. Í ljósi mikillar umræðu um álag í störfum ýmissa stétta fær sú forsenda þingmannanna varla staðist.

Löggjöf dregur ekki úr yfirvinnu
Meðalvinnutími á viku er 45 stundir á viku skv. Hagstofunni. Það felur í sér að greiddar eru að meðaltali u.þ.b. 5 stundir á viku á yfirvinnukaupi. Augljóst er að frumvarpið hefði engin áhrif á þá vinnu sem nú er unnin í formi yfirvinnu. Greidd yfirvinna myndi þvert á móti stóraukast.

Umsaminn vinnutími stuttur á Íslandi
Það er útbreiddur misskilningur að umsaminn vinnutími á Íslandi sé langur og að ástæða sé til þess að stytta hann. Þá er það einnig misskilningur hjá þingmönnunum að unnt sé að draga úr yfirvinnu með lögum frá Alþingi. Í raun er umsaminn ársvinnuvinnutími næst lægstur á Íslandi meðal þeirra ríkja sem Íslendingar bera sig saman við. Aðeins í Frakklandi er umsaminn vinnutími styttri eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

undefinedSmelltu á myndina til að stækka

Miða á við virkan vinnutíma í alþjóðlegum samanburði
Á Íslandi eru greidd neysluhlé (sem eru eigin tími starfsmanna) ávallt talin til vinnutíma, en svo er ekki erlendis. Í alþjóðlegum samanburði ber því að miða við virkan vinnutíma á Íslandi, þ.e. án neysluhléanna. Algengasti umsaminn virkur vikulegur vinnutími í kjarasamningum er 37 stundir (40 greiddar stundir að frádregnum 2 klst. og 55 mínútum í greidd neysluhlé). 37 stundirnar eru meginreglan hjá verkafólki, iðnaðarmönnum og opinberum starfsmönnum. Hjá félagsmönnum verslunarmannafélaga sem stunda afgreiðslustörf er virkur vinnutími 36,5 stundir og 36,25 stundir hjá skrifstofumönnum. Flestir vaktavinnusamningar eru með ákvæði um styttri virkan vinnutíma en 37 stundir á viku, margir þeirra mun styttri.

Lögin frá 1972 um 40 stunda vinnuviku mörkuðu upphaf óðaverðbólgutímabils
Lögfesting laganna um 40 stunda vinnuviku árið 1972 hafði óveruleg áhrif á heildarvinnutíma skv. vinnutímamælingum Kjararannsóknarnefndar á þeim tíma. Áhrif laganna voru fyrst og fremst að hækka launakostnað atvinnulífsins um 10% á einu bretti og að meðtöldum áhrifum þeirra hækkaði launakostnaður ársins 1972 um 23%. Gengi krónunnar lækkaði um 14% gagnvart Bandaríkjadollara milli áranna 1972 og 1974 og verðbólga jókst úr 1,7% í janúar 1972 í 14% árið 1973, 35% árið 1974 og 50% árið 1975.

Framleiðni ekki aukin með lagaboði
Alþingi getur ekki með lagabreytingu aukið framleiðni í atvinnulífinu og kaupmátt tímakaups. Það verður að gerast á vettvangi atvinnulífsins og í kjarasamningum ef aðstæður eru fyrir hendi.

Lögin falli brott
Umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarpið má nálgast hér að neðan en SA lýsa yfir fullkominni andstöðu við það og hvetja Alþingi til að fella lögin um 40 stunda vinnuviku brott, enda er vinnutími eitt stærsta viðfangsefni kjarasamninga.

Umsögn SA (PDF)

Samtök atvinnulífsins