Kennitöluflakk síbrotamanna þrengi ekki að heiðarlegum rekstri

Mikilvægt er að stjórnvöld gæti meðalhófs í baráttu sinni við kennitöluflakk. Þó svo um sé að ræða mikinn löst í atvinnulífinu sem nauðsynlegt er að sporna við af festu, verður að hafa í huga að um er að ræða fámennan hóp rekstraraðila sem vísvitandi brjóta gegn lögum og reglum. Að herða á regluverkinu í baráttunni við aðila sem sýna af sér einbeittan brotavilja er ekki til árangurs fallið og mun aðeins bitna á þeim yfirgnæfandi meirihluta atvinnurekenda sem standa heiðarlega að sínum rekstri.

Göngum lengra en ESB
Um miðjan október sendu Samtök atvinnulífsins umsögn um drög að nýju frumvarpi um ársreikninga sem þá höfðu verið kynnt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og gerðu verulegar athugasemdir við nokkur atriði frumvarpsins en með því er ætlunin að leiða í lög tilskipun ESB um sama efni. Frumvarpið gengur enda mun lengra í kröfum gagnvart íslenskum fyrirtækjum en almennt er gert ráð fyrir í ESB.

Samkvæmt tilskipuninni er gert ráð fyrir að smæstu fyrirtækin, s.k. örfyrirtæki, skili einföldum ársreikningum en í frumvarpinu er skilgreining á því hvað teljist örfyrirtæki þrengd mjög frá því sem segir í tilskipuninni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að örfyrirtæki fari ekki yfir tvenn mörk af þremur þ.e að efnahagurinn sé 20 milljónir kr. eða lægri, að velta sé 40 milljónir kr. eða lægri og að meðalfjöldi ársverka sé 3 eða færri. Í tilskipuninni eru þessi mörk 52,5 milljónir kr. fyrir efnahag, 105 milljónir kr. fyrir veltu og 10 starfsmenn eða færri.

Óljós ávinningur og markmið
Enginn rökstuðningur fylgdi því  hvers vegna skilgreining á örfyrirtæki er þrengd en fram kemur að 80% félaga hér á landi muni teljast örfyrirtæki sem lýsir reyndar vel efnahagslífinu hér. Ekkert kemur fram um hver ávinningurinn er af breytingunni frá tilskipuninni né hvaða markmiðum ætlunin er að ná. SA telja eðlilegt að sömu mörk gildi fyrir örfyrirtæki og gert er ráð fyrir í tilskipuninni og að enn fleiri félög njóti hins einfaldara kerfi sem ráð er fyrir gert að koma upp samkvæmt frumvarpinu.

Í frumvarpinu er allt of langt gengið í því að gera litlum fyrirtækjum og örfyrirtækjum að skila reikningum sínum til opinberrar birtingar. Hafa verður í huga að hér er um að ræða umfangslítinn rekstur þar sem aðrir en þeir sem að rekstrinum standa hafa hverfandi hagsmuni af því að hafa opinberan aðgang að ársreikningum. Einnig er rétt að benda á að oft er um að ræða lítil fjölskyldufyrirtæki þar sem birting ársreiknings jafngildir nánast því að skattframtöl einstaklinga séu gerð opinber sem er í andstöðu við persónuvernd. Það er fullkomlega eðlilegt að lítil fyrirtæki og örfyrirtæki telji það andstætt sínum hagsmunum að birta ársreikninga sína opinberlega.

Fyrirtækjunum ber að sjálfsögðu að skila skattframtali og standa skil á sköttum og gjöldum en síst þurfa þessi fyrirtæki á að halda óþarfa upplýsingagjöf þar sem hver sem er getur öðlast nánast fulla innsýn í rekstur örfyrirtækisins, markað þess og þróun.

Of langt gengið gagnvart smáfyrirtækjum
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stjórnvöld geti krafist gjaldþrotaskipta á fyrirtækjum sem ekki skila ársreikningi til opinberrar birtingar. SA telja þetta ganga allt of langt gagnvart litlum fyrirtækjum og örfyrirtækjum bæði þeim sem starfandi eru á hverjum tíma og þeim sem í dvala kunna að liggja. Ekki verður séð hver ávinningur ríkisins eða samfélagsins af þessari ráðstöfun geti orðið. Hafa verður í huga að fyrirtækin eru gjaldfær, í þeim kunna að vera eignir. Að grípa fram fyrir hendur eigenda um ráðstöfun eigna sinna er gríðarlegt inngrip af hálfu stjórnvalda sem eðlilegt er að verði skoðað mun nánar m.a. með hliðsjón af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Eðlilegt er að krefjast þess að stærri og jafnvel meðalstór fyrirtæki birti reikninga sína og þá þurfa að vera til staðar ákvæði til að bregðast við ef ekki er skilað. Ákvæðin verða hins vegar að vera í samræmi við tilefnið.

Hefur áhrif á skráð félög
Í umsögn sinni tóku SA undir áhyggjur sem fram hafa komið um að matsbreytingar fjárfestingareigna skuli færðar á sér lið á meðal eigin fjár sem ekki er heimilt að ráðstafa til eigenda þ.e. greiða út sem arð. Þar er gengið lengra en tilskipunin segir til um. Það er sérstaklega íþyngjandi fyrir fasteignafélög og tryggingafélög að búa við strangari reglur en sambærileg félög í nálægum löndum.  Auk þess er bent á víðtæka verðtryggingu ýmissa skuldbindinga ásamt því að verðbólga hefur verið hér landlæg. Verði ákvæðin að lögum munu þau hafa áhrif á félög sem skráð eru á opinberum markaði og nauðsynlegt að taka þau til endurskoðunar. 

Takmarkar nýsköpun
Hagsmunir samfélagsins eru að hvetja til stofnunar nýrra fyrirtækja þar sem fólk leggur fram fé og fyrirhöfn og nýtur þess ef vel gengur, og ber einnig áhættuna af rekstrinum sjálft. Eðlilegt er að hluti fyrirtækja verði gjaldþrota, bæði getur verið að sú tækni sem lagt var upp með standi ekki undir væntingum og eins að markaðir séu ekki eins aðgengilegir og lagt var upp með. Það er grundvallarréttur einstaklinga að sjá sér og sínum farborða, leita sér atvinnu og stofna til reksturs í því skyni. Þessi réttur er staðfestur í stjórnarskránni og verður ekki tekinn af. Frumkvöðlar geta auðveldlega þurft að gera nokkrar atrennur að því að koma á fót arðbærum rekstri.

Það verður að beita öðrum aðferðum við að ná til þeirra sem brjóta lög og standa ekki skil á sköttum og gjöldum en takmarka möguleika fólks til að stofna til eigin reksturs. Mætti þar meðal annars horfa til að herða á refsiákvæðum þegar rekstraraðilar verða uppvísir af skipulögðum undanskotum líkt og þeim er felast í kennitöluflakki.