Vinnumarkaður - 

25. maí 2016

Íslandsbanki hlýtur Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2016

Jafnrétti

Jafnrétti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Íslandsbanki hlýtur Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2016

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, veitti Íslandsbanka, Hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2016 á morgunfundinum Er pláss fyrir jafnrétti í nýsköpun? í Háskóla Reykjavíkur í morgun. Í áliti dómnefndar segir meðal annars: „Fyrirtækið hefur lagt ríka áherslu á jöfn tækifæri kvenna og karla og með markvissum hætti aukið hlut kvenna í yfirstjórn þess og aukið þannig hlut kvenna í karllægum geira."

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, veitti Íslandsbanka, Hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2016 á morgunfundinum Er pláss fyrir jafnrétti í nýsköpun? í Háskóla Reykjavíkur í morgun. Í áliti dómnefndar segir meðal annars: „Fyrirtækið hefur lagt ríka áherslu á jöfn tækifæri kvenna og karla og með markvissum hætti aukið hlut kvenna í yfirstjórn þess og aukið þannig hlut kvenna í karllægum geira."

Ennfremur segir í umsögninni:

„Þá hefur fyrirtækið farið af stað með verkefni sem hafa það að markmiði að auka jafnrétti og stuðla að aukinni framgöngu kvenna innan fyrirtækisins og í atvinnulífinu almennt. Áhersla er lögð á vellíðan í starfi og sveigjanleika þar sem því verður við komið til að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Feður jafnt sem mæður eru hvött til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Sá árangur sem fyrirtækið hefur náð í jafnréttismálum ber þess merki að unnið hefur verið markvisst að þessum málaflokki um árabil með góðum árangri.“

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, veitti verðlaununum viðtöku.

undefined

„Við er mjög stolt af því að fá þessa viðurkenningu fyrir okkar störf í þágu jafnréttismála. Stjórn og starfsfólk Íslandsbanka hefur unnið markvisst að því að stuðla að jafnrétti á vinnustaðnum og það er okkar trú að þetta markmið eigi að vera hluti af menningu fyrirtækisins. Við horfum ennþá upp á launamun kynjanna í íslensku atvinnulífi sem er óásættanlegt. Vonandi munu fyrirtæki leggjast í þá vinnu sem þarf til að útrýma þeim mun og bæta þannig stöðu kynjanna.”

Á fundinum ræddi Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíku og handhafi Hvatningarverðlaunanna 2015, mikilvægi þess að „fremja“ jafnrétti og að það þurfi að koma að ofan innan fyrirtækja til að virka sem skyldi. Auk Bjarna ræddi Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, þann styrk og aukna arðsemi fyrirtækja sem hafa fjölbreytta starfsmannahópa og stjórnunarteymi.

„Ég get vottað að það er mun auðveldara að hafa einsleitari stjórnendahóp í fyrirtæki eins og CCP en það er einfaldlega mun arðsamara að hafa fjölbreyttan hóp, líkt og CCP sem er með fimm manna stjórnendateymi af fjórum þjóðernum, þar af þrír karlar og tvær konur.“  

undefined

Dr. Þóranna Jónsdóttir, deildarforseti viðskiptadeildar við Háskólann í Reykjavík hélt erindið „Er þetta ekki bara komið?“ og ræddi m.a. hvaða þættir væru metnir að verðleikum við hæfnismat kvenna og karla í atvinnulífinu.

„Þegar við metum konur og karla og konur eru settar á vogarskálarnar og verðleikar þeirra vigtaðir þá virðast þeir vera vegnir léttar en eiginleikar karla. Eins þegar mistök, feilnótur og hnökrar í fari kvenna eru settir á vogarskálarnar þá virðast þeir vega hærra en karla.“ Auk þess fjallaði Hrund Gunnsteinsdóttir, stjórnarformaður Tækniþróunarsjóðs, um mikilvægi þess að ná jafnt til karla og kvenna í nýsköpunarheiminum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs SA, stýrði fundinum.

Markmiðið með Hvatningarverðlaununum er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Að verðlaununum standa Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð.

Í dómnefnd sátu Borghildur Erlingsdóttir, fyrir hönd Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Fanney Karlsdóttir, fyrir hönd UN Women á Íslandi, Kristín Þóra Harðardóttir, fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins og Randver Fleckenstein, fyrir hönd Festu – miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð.

Samtök atvinnulífsins