Efnahagsmál - 

12. febrúar 2013

Iðnbylting í sjávarútvegi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Iðnbylting í sjávarútvegi

Miklar framfarir hafa átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi, bæði veiðum og vinnslu. Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, segir sannkallaða iðnbyltingu hafa átt sér stað í greininni sem hafi leitt til betri afkomu og verðmætari starfa. Stefán var meðal frummælenda á opnum fundi SA um atvinnumál í Vestamannaeyjum 4. febrúar sl. Fundurinn markaði upphaf fundaraðar SA um Ísland undir yfirskriftinni Fleiri störf - Betri störf. Alls mættu yfir 200 manns á átta fundi SA víðs vegar um landið í vikunni sem leið.

Miklar framfarir hafa átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi, bæði veiðum og vinnslu. Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, segir sannkallaða iðnbyltingu hafa átt sér stað í greininni sem hafi leitt til betri afkomu og verðmætari starfa. Stefán var meðal frummælenda á opnum fundi SA um atvinnumál í Vestamannaeyjum 4. febrúar sl. Fundurinn markaði upphaf fundaraðar SA um Ísland undir yfirskriftinni Fleiri störf - Betri störf. Alls mættu yfir 200 manns á átta fundi SA víðs vegar um landið í vikunni sem leið.

Á fundi SA sagði Stefán m.a. himinhá veiðigjöld sem lögð hafi verið á greinina í raun aðför gegn lífskjörunum í landinu og þá sérstaklega í sjávarbyggðunum. Það sé skýr stefna stjórnvalda að draga úr hagnaði í greininni en umræðu vanti um áhrif breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu á hag þjóðarinnar.

"Vandinn er að umræðan snýst aldrei um kjarna málsins þ.e. hvað græðir þjóðin á breytingunum samanborið við núverandi kerfi. Hverjir græða og hverjir tapa á breytingunum. Hvað græða Jón og Gunna á breytingunum? Það er það sem raunverulega skiptir máli."

Stefán segir að nýjasta frumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi sama marki brennt og lög um veiðigjöld, um sé að ræða árás stjórnvalda á lífskjör þjóðarinnar.

Bylting hefur átt sér stað
Stefán vakti athygli á þeim jákvæðu breytingum sem hafa orðið í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum. "Skipin hafa stækkað og í stað þess að yfir 50 skip séu á loðnuveiðum eins og var fyrir 15 árum, hvað þá 180 eins og var fyrir 30 árum, eru nú einungis um 20 skip að meðtöldum 6 vinnsluskipum. Skipin hafa stækkað, þau eru mun aflmeiri og hraðskreiðari en áður og að auki útbúin öflugum kælibúnaði. Veiðarfærin eru stærri og niðurlagningarbúnaður er kominn til að leysa af mannshöndina við að leggja nótina í nótakassann.

Aðbúnaður áhafnarinnar er betri en áður þekktist og færri eru í áhöfn. Í landi hefur bræðslunum á sama tíma fækkað úr 21 í 11 en afköst hverrar bræðslu hafa aukist og sama má segja um nýtinguna og gæðin. Í frystihúsunum hafa afköstin aukist gríðarlega og öll meðferð aflans batnað og vinnan breyst að talsverðu leyti úr því að starfsfólk pakki afurðunum í poka og raði kössum á bretti yfir í að sinna eftirliti með sjálfvirkum vélbúnaði. Þá hafa nýir markaðir opnast og eldri styrkst.

Að lokum má ekki gleyma því að fleiri fiskistofnar hafa komið inn í veiðina s.s. norsk-íslenska síldin fyrir um 20 árum, kolmunni fyrir um 15 árum og makríll fyrir um 5 árum auk gulldeplunnar sem reyndar hefur lítið verið nýtt undanfarin 2 ár.

Allt þetta hefur leitt til betri afkomu og betri og verðmætari starfa. Gott dæmi um þetta er síldarvertíðin í haust. Ísfélagið hafði þá til umráða u.þ.b. 9 þúsund tonna kvóta sem sóttur var á tveimur skipum. Þetta er kvóti sem í upphafi var úthlutað til 12 skipa. Vertíðin tók 30 daga og var hvort skip á sjó í 10 daga en þess á milli við bryggju í löndun eða í löndunarbið. Hásetahluturinn var um 3 milljónir króna. Í landi var unnið nánast sleitulaust á vöktum frá 30. október til 27. nóvember eða í um 30 daga en laun verkafólks eru að meðaltali um 32.000 kr./dag þegar unnið er á 12 klst. vöktum.

Menn geta vafalaust deilt lengi um hvort að skiptingin milli atvinnurekandans og starfsmanna eða milli starfstéttanna sé réttlát en það er a.m.k. ljóst eins og áður sagði að störfin eru nú betri og verðmætari en áður. Þessi tæknivæðing kallar á sérhæft starfsfólk sem í stað þess að erfiða við að koma afurðunum í frystiklefann þarf nú að standa klárt á flóknum búnaði og vinna sem ein heild því að kerfin eru ein keðja sem er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn.

Auðvitað er þetta ekkert annað en iðnbylting í uppsjávarveiðum og -vinnslu sem reyndar er ekki bara borin upp af fjárfestingum heldur líka af veiðum á fleiri tegundum en áður og góðum markaðsaðstæðum. Það þarf gott fólk og sterk félög í góðu rekstrar- og lagaumhverfi til að geta gripið tækifærin þegar þau bjóðast og til að geta tekið áhættu og þolað tapið þegar hlutirnir ganga ekki upp."

Fleiri og betri störf 
Stefán sagði ljóst að tækifæri væru í hverju horni í íslensku atvinnulífi til að skapa fleiri og betri störf. Það væri annað mál hvort okkur auðnaðist að nýta þau. Sífellt þurfi að leita uppi tækifæri til að gera betur og minnka kostnað.

"Afkoma okkar byggir jafnt á hærri tekjum og lægri kostnaði. Ef við höfum þetta hvort tveggja í huga þá náum við vopnum okkar aftur og getum fjölgað góðum og verðmætum störfum og bætt lífskjörin í landinu."

Samtök atvinnulífsins