Samkeppnishæfni - 

23. Febrúar 2017

Hvatning til fjárfestinga?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hvatning til fjárfestinga?

Á síðasta ári samþykkti mikill meirihluti þingmanna lög til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti. Tilgangurinn er göfugur – að bæta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, styðja við nýsköpun og þróun og stuðla að gegnsæi og aukinni skilvirkni skattkerfisins. Þannig verði hvatt til rannsókna, þróunar og fjölgun starfa sem er þjóðfélagslega hagkvæmt og leiðir til aukinnar hagsældar fyrir samfélagið í heild. Samtökin atvinnulífsins hvöttu til lagasetningarinnar og vonast til að breytingarnar muni leiða til betra rekstrarumhverfis nýsköpunarfyrirtækja.

Á síðasta ári samþykkti mikill meirihluti þingmanna lög til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti. Tilgangurinn er göfugur – að bæta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja,  styðja við nýsköpun og þróun og stuðla að gegnsæi og aukinni skilvirkni skattkerfisins. Þannig verði hvatt til rannsókna, þróunar og fjölgun starfa sem er þjóðfélagslega hagkvæmt og leiðir til aukinnar hagsældar fyrir samfélagið í heild. Samtökin atvinnulífsins hvöttu til lagasetningarinnar og vonast til að breytingarnar muni leiða til betra rekstrarumhverfis nýsköpunarfyrirtækja.

Einn þáttur í breytingunum var að veita afslætti frá sköttum einstaklinga sem kaupa hlutabréf í litlum fyrirtækjum í vexti á næstu þremur árum. Það er að segja þeim einstaklingum sem uppfylla skilyrði sem sett eru fram í 18 töluliðum og innihalda margþættar kröfur. Samtökin telja þessi skilyrði fyrir ívilnun vera of þröng og aðra annmarka vera á löggjöfinni sem þarft sé að lagfæra.

Meðal þeirra eru lágmarksfjárhæð hverrar fjárfestingar, að félagið eigi ekki í fjárhagsvanda að stríða, að hjá félaginu starfi ekki fleiri en 25 starfsmenn og ákveðnar efnahagsstærðir félagsins fari ekki yfir tiltekið hámark eða að félagið lendi í greiðsluerfiðleikum. Einnig má einstaklingur sem nýtur frádráttar ekki hafa verið tengdur félaginu, tveimur árum fyrir og þremur árum eftir skráða hlutafjáraukningu. Þar fyrir utan er í 11 töluliðum talin upp starfsemi félaga sem falla ekki undir ákvæðið og veita því ekki rétt til skattafrádráttar.

Einstök skilyrði ákvæðisins eru beinlínis mótsagnakennd innbyrðis. Til dæmis getur hlutafjáraukning í félagi að hámarki numið tveimur milljörðum króna en annað skilyrði er að árleg velta og/eða efnahagsreikningur félagsins þurfi að vera undir 650 milljónum króna. Innborgað hlutafé verður hluti af efnahagsreikning félagsins og því ómögulegt að framkvæma hlutafjáraukningu upp á meira en 650 milljónir án þess efnahagsreikningur félagsins fari yfir þá fjárhæð.

En í lögunum er boðið upp á fleira en hátt flækjustig og óskýr ákvæði. Alvarlegast er að refsikennd viðurlög séu lögð á aðila við ef forsendur breytast. Ef félagið uppfyllir ekki öll skilyrði ákvæðisins í allt að þrjú ár frá hlutafjáraukningu er skattafrádrátturinn bakfærður með 15% álagi. Eru þetta sambærileg viðurlög og þegar  einstaklingar hafa þegið vaxtabætur eða barnabætur umfram það sem þeir áttu rétt á. Það sem er sérkennilegt hér, er að um er að ræða breyttar forsendur eftir að álagning hefur farið fram og vegna aðstæðna sem sá sem naut ívilnunarinnar hefur enga stjórn á. Það skýtur skökku við endurgreiða þurfi skattfrádrátt vegna þess að fyrirtækið vex of hratt. Að fjárfestir sæti refsingu  fari veltan  umfram tilgreint hámark eða ef  tuttugasti og sjötti starfsmaðurinn er ráðinn til starfa. Tilgangur laganna er einmitt að gera sprotafyrirtækjum kleift að fá inn fjármagn til að vaxa og dafna og það er mótsagnakennt að refsa þeim sem njóta of mikillar velgengni.

Samtök atvinnulífsins telja nauðsynlegt að endurskoða lagaákvæðið til einföldunar til að það nái markmiði sínu, jafnvel þótt ekki takist að girða fyrir allar mögulegar sviðsmyndir. Sé ekkert að gert er hættan sú að fjárfestar fælist frá því að nýta sér heimildina vegna þeirrar áhættu sem í henni felst. Afleiðingin verður sú að nýsköpunarfyrirtæki muni halda áfram að leita út fyrir landsteinana eftir fjármögnun í staðinn fyrir að byggja upp starfsemi sína hér á landi. 

Samtök atvinnulífsins