Efnahagsmál - 

20. október 2011

Horfur á að útflutningur og erlend starfsemi fyrirtækja aukist

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Horfur á að útflutningur og erlend starfsemi fyrirtækja aukist

Sóknarhugur er í fyrirtækjum sem starfa í útflutningsgreinum eða eru með starfsemi erlendis. Ríflega helmingur þeirra (56%) hyggst auka útflutning eða erlenda starfsemi á næstu 2-3 árum, tæpur þriðjungur (29%) telur það óvíst en 15% fyrirtækjanna hyggjast ekki gera það. Þetta kemur fram í nýrri könnun Samtaka atvinnulífsins á rekstrarhorfum fyrirtækja innan SA sem gerð var dagana 6.-11. október 2011. Um 27% fyrirtækjanna sem tóku þátt í könnuninni starfa í útflutningi eða eru með starfsemi erlendis.

Sóknarhugur er í fyrirtækjum sem starfa í útflutningsgreinum eða eru með starfsemi erlendis. Ríflega helmingur þeirra (56%) hyggst auka útflutning eða erlenda starfsemi á næstu 2-3 árum, tæpur þriðjungur (29%) telur það óvíst en 15% fyrirtækjanna hyggjast ekki gera það. Þetta kemur fram í nýrri könnun Samtaka atvinnulífsins á rekstrarhorfum fyrirtækja innan SA sem gerð var dagana 6.-11. október 2011. Um 27% fyrirtækjanna sem tóku þátt í könnuninni  starfa í útflutningi eða eru með starfsemi erlendis.

Innan ferðaþjónustunnar hyggjast 75% þeirra sem sögðust vera með erlenda starfsemi efla hana á næstu 2-3 árum, 62% fyrirtækja í iðnaði, 45% fyrirtækja í fiskvinnslu, 24% í útgerð og 11% í verslun og þjónustu.

Vaxtarmöguleikarnir eru úti
Þetta er öllu jákvæðari mynd en vaxtahorfurnar innanlands. Á næstu sex mánuðum hyggjast sex af hverjum tíu (63%) aðildarfyrirtækja SA ekki gera breytingar á starfsmannafjölda og aðeins 18% áforma fjölgun starfsmanna. Þá eru fjárfestingaráform atvinnuveganna áfram í algjöru lágmarki en aðeins rúmlega 14% aðildarfyrirtækja SA hyggjast ráðast í umtalsverðar fjárfestingar eða endurbætur á næsta ári.

Þegar stjórnendur voru beðnir að meta hversu mikið fyrirtæki þeirra myndi vaxa á næstu 2-3 árum svaraði rúmur helmingur (53%) ekki neitt, þriðjungur býst við 0-10% vexti á ári, rúmlega eitt af hverjum tíu fyrirtækjum um 11-20% á ári og rúm 4% um 21% eða meira. Fimmtungur stjórnenda býst við því að rekstur fyrirtækja þeirra dragist saman á næstu 2-3 árum.

Út frá þessu má ætla að íslenskir stjórnendur meti það sem svo að vaxtamöguleikar innanlands við núverandi aðstæður séu takmarkaðir en svigrúm til vaxtar á erlendum mörkuðum sé til staðar sem meirihluti þeirra sem eru í erlendum viðskiptum ætla að nýta sér.

Breytt viðhorf til útlanda
Í könnun SA voru stjórnendur beðnir um að svara því hvort áhætta af starfsemi erlendis sé meiri en hérlendis. 83% stjórnenda fyrirtækja sem starfa í útflutningi eða eru með erlenda starfsemi svara því neitandi. Þetta er mikil breyting á viðhorfum atvinnulífsins frá árinu 2002 þegar Samtök atvinnulífsins spurðu útflutningsfyrirtæki sömu spurningar. Þá töldu 39% þeirra áhættu af starfsemi erlendis meiri en hérlendis.

------------------

Um könnunina

Könnunin var rafræn og gerð meðal aðildarfyrirtækja SA dagana 6. til 11. október 2011 en framkvæmd hennar var í höndum Outcome hugbúnaðar ehf. Markmiðið með könnuninni var að fá skýrari mynd af stöðu og horfum framundan í íslensku atvinnulífi.

Könnunin var send til 1.684 fyrirtækja. Fjöldi svarenda var 482 og  svarhlutfall því 29%. 30.000 starfsmenn starfa hjá þeim fyrirtækjum sem þátt tóku í könnuninni og er áætlað að 83.000 manns starfi um þessar mundir í þeim atvinnugreinum sem könnunin nær yfir.

Fleiri niðurstöður könnunar SA:

Kyrrstaða á almennum vinnumarkaði og slakar horfur

Enn horfur á lítilli atvinnuvegafjárfestingu

Þriðjungur fyrirtækja telur aðgerðir stjórnvalda sitt helsta vandamál

Núverandi vinnumiðlun er ábótavant

Samtök atvinnulífsins