Forsjárhyggjan og löggæslumenn viðskiptalífsins

"Forsjárhyggjan lifir enn góðu lífi og ný stétt manna - löggæslumenn viðskiptalífsins - hefur sprottið upp," sagði Óli Björn Kárason, ritstjóri DV, m.a. í erindi sínu á aðalfundi SÞV - Samtaka verslunar og þjónustu. Í erindi sínu rakti Óli þrjú dæmi um "hvernig ríkið setur eða ætlar að setja skorður við athafnafrelsi manna." Í erindi sínu sagði Valgerður Sverrisdóttir , viðskiptaráðherra, að samruni milli fyrirtækja skapaði í fæstum tilfellum samkeppnisleg vandamál.


Óli sagði hugmyndafræðina að baki samkeppnislaga sverja sig í ættir forræðishyggjunnar. Hvorki stærð né möguleikar fyrirtækis til að hafa áhrif á markaðsverð geti verið mælikvarði á það hvort völd fyrirtækis séu skaðleg almannahagsmunum eða ekki. Þá væri ekki hægt að fela einhverjum aðila - embættismanni - að setjast í dómarasæti og kveða úr um það hvenær fyrirtæki næðu hagkvæmustu stærðinni, það gerðist aðeins á frjálsum markaði.

Í erindi sínu fjallaði Óli um vald sem fært hefur verið embættismönnum til að hafa afskipti af frjálsum viðskiptum, undir merkjum þess að verið væri að tryggja eðlilega samkeppni. Hann fjallaði í því sambandi um ákvörðun stjórnvalda þess efnis að takmarka möguleika sjávarútvegsfyrirtækja til hagræðingar, með því að setja lög um hámark á hlutdeild einstakra aðila.  Óli varaði við fordæmisgildi þessara laga. "Ef hægt er að setja hámark á hlutdeild fyrirtækja í sjávarútvegi, því ekki í öðrum atvinnugreinum?"

Þá fjallaði Óli um frumvarp viðskiptaráðherra um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Með frumvarpinu er þeim sem ætla sér að eignast virkan hlut gert að senda Fjármálaeftirlitinu skriflega umsókn þar sem alls 13 atriði skulu tilgreind, m.a. þekking og atvinnusaga umsækjanda, fjárhagsstaða hans og aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið fer fram á að umsækjandi veiti. Þá á Fjármálaeftirlitið að gera ítarlega úttekt á umsækjendum og taka "afstöðu til þess hvort eignarhald þeirra sé heilbrigðum rekstri viðkomandi fyrirtækis til framdráttar." Við mat á hæfi umsækjenda skal Fjármálaeftirlitið líta til 7 meginatriða. Óli segist hafa barist gegn reglum um að einföld regla yrði sett um hámark á hlut einstakra aðila að fjármálastofnunum. Hins vegar segir hann slíka einfalda reglu hvergi nærri eins hættulega og umrætt frumvarp, þar sem gert sé ráð fyrir að nokkrir embættismenn geti kveðið á um það hverjir taldir séu æskilegir eigendur fjármálafyrirtækja og hverjir ekki. Óli segir slíka reglu munu leiða til "pólitískrar spillingar af versta tagi."

Loks fjallaði Óli um breytingar á lögum um verðbréfaþjónustu sem tóku gildi fyrir síðustu áramót, en þar segir hann "furðulegt ákvæði" vera að finna í 27. grein um hvernig standa skuli að verðbréfaviðskiptum, þar sem fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu er m.a. bent á að afla sér upplýsinga um menntun, atvinnu og reynslu viðskiptavinar á sviði verðbréfaviðskipta, t.d. með afriti af skattframtali. Sjá erindi Óla á heimasíðu SVÞ.

Í erindi sínu á aðalfundinum sagðist Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, m.a. hafa hvatt samkeppnisyfirvöld til að beita hertum samrunareglum samkeppnislaga af festu þegar samruni er líklegur til að hamla samkeppni. "Hins vegar ber að hvetja samkeppnisyfirvöld til að beita þessu valdi að vel ígrunduðu máli því auðvitað er það svo að samruni milli fyrirtækja getur verið mjög eðlileg og skynsamleg aðgerð og í fæstum tilvikum skapar samruni samkeppnisleg vandamál," sagði ráðherrann. Sjá erindi Valgerðar á heimasíðu SVÞ.