Formaður SA: Atvinnumálin verði sett í forgang

Það er ótalmargt sem betur mætti fara í atvinnulífinu hér á landi og þess vegna beinum við því til Alþingis og alþingismanna að þeir vakni af þyrnirósarsvefni og geri sér grein fyrir stöðunni. Þetta segir Vilmundur Jósefsson, formaður SA, m.a. í samtali við Morgunblaðið í dag en Samtök atvinnulífsins sendu öllum alþingismönnum bréf í gær þar sem þeir eru hvattir til að setja atvinnumálin og baráttuna gegn atvinnuleysi í forgang. Vilmundur segir að verið sé að draga fyrirtæki niður í svaðið með óhóflegri skattheimtu en þar má t.d. nefna hækkun kolefnisgjalds, sérstakan launaskatt á banka, óhóflega hækkun veiðigjalds, framlengingu og hækkun auðlegðarskatts.

Vilmundur segir Samtök atvinnulífsins hafi lagt fram fjöldamargar tillögur til að koma hjólum atvinnulífsins af stað en hann kallar m.a. eftir því að staðið verði við það loforð sem gefið var í tengslum við kjarasamningana fyrr á árinu, að ráðist verði í nýjar vegaframkvæmdir sem fjármagnaðar verði af lífeyrissjóðunum. Sá hagvöxtur sem nú mælist er vegna tímabundinnar neyslubólu og mun að mestu ganga til baka.

Vilmundur segir í samtali við Morgunblaðið brýnt að leitað verði leiða til að fjárfesting geti aukist hér á landi, bæði innlend og erlend, "að ekki sé staðið í vegi fyrir öllum þeim möguleikum á fjárfestingum, til að mynda frá öðrum löndum, sem hafa verið að bjóðast upp á síðkastið."

Sjá nánar í Morgunblaðinu 14.12. 2011

Tengt efni:

Bréf SA til alþingismanna 13.12. 2011

Veikar undirstöður hagvaxtar ræddar á Sprengisandi

Hagvöxtur í boði makrílsins