Vinnumarkaður - 

26. maí 2016

Flugumferðarstjórar komi niður úr skýjunum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Flugumferðarstjórar komi niður úr skýjunum

Þriðja sumarið í röð þurfa landsmenn að búa við aðstæður þar sem fámennur starfshópur lokar fyrir samgöngur til og frá landinu með verkfallsaðgerðum. Röskun hefur orðið á millilandaflugi og innanlandsflugi vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra með óþægindum fyrir farþega og tekjutapi aðila í ferðaþjónustu. Þar við bætist álitshnekkir Íslands sem ferðaþjónustulands.

Þriðja sumarið í röð þurfa landsmenn að búa við aðstæður þar sem fámennur starfshópur lokar fyrir samgöngur til og frá landinu með verkfallsaðgerðum. Röskun hefur orðið á millilandaflugi og innanlandsflugi vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra með óþægindum fyrir farþega og tekjutapi aðila í ferðaþjónustu. Þar við bætist álitshnekkir Íslands sem ferðaþjónustulands.

Kröfur flugumferðarstjóra um launahækkanir eru langt umfram hækkanir í öðrum kjarasamningum. Yrði gengið að kröfum þeirra raskaðist það dýrkeypta jafnvægi sem komist hefur á kjaramálin og hefðbundið íslenskt höfrungahlaup hefst á ný, þar sem hver hópur knýr fram meiri launahækkanir en sá sem síðast samdi. Afleiðingarnar eru vel þekktar; verðbólga eykst, vextir hækka og að lokum fellur gengið til að lagfæra samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem starfa í alþjóðlegri samkeppni. Niðurstaðan er sú að kjör allra versna til lengri tíma.

SALEK-samkomulagið í október 2015 stöðvaði höfrungahlaupið sem þá var hafið og ljóst var að stefndi í óefni. Samkomulagið byggir á þeirri sýn að Íslendingar geti búið við sambærileg lífskjör og frændur okkar á Norðurlöndum. Þar var svigrúm til launahækkana til ársloka 2018 skilgreint en flugumferðarstjórar vilja nú fá mun meiri launahækkanir en aðrir vegna þess að þeir eru einfaldlega í þeirri stöðu að geta knúið þær fram. Um það verður aldrei sátt hjá öðrum hópum á vinnumarkaði nú fremur en áður þegar einstakir starfshópar hafa knúið fram mun meiri launahækkanir en aðrir hafa fengið. Kröfur flugumferðarstjóra eru því atlaga að samstöðu sem sköpuð var á vinnumarkaði haustið 2015 og fest var í sessi með endurskoðun kjarasamninga í upphafi ársins.

Veikleiki íslensk vinnumarkaðar felst í því að launahækkanir eru mun meiri en í nágrannalöndunum án þess að skila betri lífskjörum. Megineinkenni íslenskra kjarasamninga er að fámennir hópar með sterkt verkfallsvopn hóta ítrekað aðgerðum til að tryggja sér launahækkanir umfram aðra. Með SALEK samkomulaginu náðist víðtæk samstaða um nauðsyn breyttra og bættra vinnubragða í þessum efnum. Í upphafi vikunnar áttu hátt í hundrað manns úr atvinnulífi og verkalýðshreyfingu stefnumót þar sem rætt var um leiðir til að bæta lífskjör á Íslandi á grundvelli efnahagslegs stöðugleika. Þær fela í sér hæga en stöðuga aukningu kaupmáttar, lága verðbólgu, lága vexti og stöðugt gengi krónunnar. Stefnt er að því að nýtt vinnumarkaðslíkan verði tilbúið fyrir árslok 2018 og verði grunnur að betri vinnubrögðum við gerð kjarasamninga sem hafi það meginmarkmið að tryggja Íslendingum betri lífskjör en hið íslenska kjarasamningalíkan hefur gert.  

Það er því mikið í húfi að launadeilan við flugumferðarstjóra verði ekki til að stefna stöðugleika á vinnumarkaði í voða, en deilan gæti dregið dilk á eftir sér. Isavia annast flugumsjón á stórum hluta Norður-Atlantshafsins. Ítrekaðar launadeilur við flugumferðastjóra, og kröfur um margfaldar launahækkanir á við aðra, bjóða þeirri hættu heim að þjónustan flytjist úr landi. Enda renna önnur ríki hýrum augum til þessarar ábatasömu starfsemi. Engar náttúrulegar aðstæður kalla á að starfsemin sé rekin hér á landi en það væri miður ef sífelldar og óbilgjarnar verkfallsaðgerðir þessa fámenna starfshóps myndu hrekja þjónustuna frá Íslandi.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í maí 2016.

Samtök atvinnulífsins