Efnahagsmál - 

10. ágúst 2006

Ekki snúa baki við framförum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ekki snúa baki við framförum

Í umfjöllun fjölmiðla að undanförnu um skatt á fjármagnstekjur, fyrirtæki og tekjur af launum hefur hvergi verið beint sjónum að áhrifum verðbólgunnar á samanburð á milli skattlagningar á mismunandi tekjur. Meðan verðbólguáhrif eru ekki tekin með í reikninginn verður allur samanburður í besta falli villandi en almennt séð hreinn blekkingarleikur.

Í umfjöllun fjölmiðla að undanförnu um skatt á fjármagnstekjur, fyrirtæki og tekjur af launum hefur hvergi verið beint sjónum að áhrifum verðbólgunnar á samanburð á milli skattlagningar á mismunandi tekjur. Meðan verðbólguáhrif eru ekki tekin með í reikninginn verður allur samanburður í besta falli villandi en almennt séð hreinn blekkingarleikur.

Fjármagnstekjur afar rýrar á verðbólguárunum

Á verðbólgutímunum fyrir 1990 þurfti ekki mikilla útskýringa við að óverðtryggðar eignir rýrnuðu í verðbólgunni og skattlagning þurfti því að miðast við rauntekjur af fjármagni til þess að forðast hreina eignaupptöku. Og þegar eftir stóð að skattleggja rauntekjur af fjármagni var skattstofninn svo rýr að það tók því ekki að leggja skatt á vaxtatekjur af innistæðum og skuldabréfum. Inn í skattlagningu fyrirtækja var svo byggð ákveðin verðbólguvörn með svokölluðum verðbólgureikningsskilum sem almennt séð þýddi að aðeins raunhagnaður fyrirtækja kom til skattlagningar. Í heild var þó allt þetta fyrirkomulag ófullkomið og skattstofnarnir afar rýrir. Fjármagnstekjur í heild voru innan við 10 milljarða á ári langt fram eftir síðasta áratug og um og innan við 2% heildartekna landsmanna. T.d. var afar þung skattlagning á söluhagnað af hlutabréfum sem hafði í för með sér að hlutabréf voru almennt ekki seld og skattstofninn eftir því. Verst var þó að þetta setti þunga klafa stöðnunar á atvinnulífið.

Fjármagnstekjuskattur m.a. á verðbólguhagnað

Við upptöku fjármagnstekjuskattsins var öll þessi saga höfð til hliðsjónar og talið árangursríkast að leggja upp með lága skattprósentu en skattleggja jafnframt verðbólguhagnað. Því var trúað að verðbólgan hefði náðst svo mikið niður og að stöðugleikinn væri orðið svo fastur í sessi að það væri óhætt að reikna með því að engin ævintýramennska yrði ráðandi í stjórn landsins sem annað hvort vekti upp verðbólgudrauginn eða færi að leika sér með fjármagnstekjuskattinn. Þessi trú varð meira að segja svo sterk að það var ákveðið að leggja niður verðbólgureikningsskil og skattleggja verðbólguhagnað fyrirtækja með almennri skattprósentu þeirra.

Heildarskattur af fjármagni er alls 34-35% við eðlilegar aðstæður

Við eðlilegar aðstæður má reikna með því að árleg verðbólga sé 2,5% sem er beinlínis verðbólgumarkmið Seðlabankans. Sé miðað við 5% raunvexti af skuldabréfum eða innstæðum er 10% fjármagnstekjuskattur ígildi rúmlega 15% skattprósentu af rauntekjum af fjármagni. Sé miðað við 10% raunhagnað af eigin fé fyrirtækja verður 18% tekjuskattur fyrir fyrirtæki að tæplega 23% skatti. Séu þessar prósentur svo skoðaðar saman á þeim forsendum sem hér eru lagðar til grundvallar kemur í ljós að einstaklingur sem ætlar að leggja launin sín inn í hlutafélag og taka þau út í gegnum hagnað og arð er að greiða milli 34% og 35% skatt af rauntekjum.

Nú þegar verðbólgan hefur náð sér á strik og verðlag hækkar um og yfir 8% á heilu ári verður misvísunin ennþá meiri. Miðað við 5% raunvexti verður 10% fjármagnstekjuskattur þá að tæplega 27% skatti á rauntekjur. Miðað við 10% raunhagnað á eigið fé fyrirtækja verður 18% tekjuskattur að tæplega 34% skatti á raunhagnað. Til viðbótar bætist svo að verðbólgan dregur úr árangri í rekstri fyrirtækjanna þannig að það næst ólíklega sami árangur í 8% verðbólgu og gerist þegar verðbólgan er lægri.

Þarf að taka verðbólguna með í reikninginn

Þessi einföldu dæmi sýna að það er útilokað að ræða um fjármagnstekjuskatt og tekjuskatt á fyrirtæki af sæmilegri skynsemi án þess að taka verðbólguna með í reikninginn.  Þegar allar hliðar málsins eru skoðaðar má segja að upptaka 10% fjármagnstekjuskatts hafi gengið vonum framar og á árinu 2005 voru fjármagnstekjur 120 milljarðar, þar af helmingurinn söluhagnaður sem sást tæpast áður og arðstekjur um 25 milljarðar sem áður voru afar rýrar. Fjármagnstekjur hafa ekki vaxið á kostnað launatekna því að þær hafa vaxið hratt og voru hærri á árinu 2005 en nokkru sinni fyrr, sama á hvaða mælikvarða er reiknað. Því er afar hættulegt að rjúka til í miðri ágústumræðunni um tekjur einstaklinga og hafa á lofti mikla svardaga um breytingar á skattkerfinu. Það er hvorki almenningi né atvinnulífinu til framdráttar.

Samtök atvinnulífsins