Beinir sjónum að íslenskri fyrirtækjaskattalöggjöf

Stjórnir Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins fjölluðu á dögunum um frumvarp til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, en samtökin styðja eindregið að frumvarpið verði að lögum. Í sameiginlegri umsögn samtakanna um frumvarpið er því fagnað að bygging álvers á Reyðarfirði og stórvirkjunar á Austurlandi séu að verða að veruleika og framkvæmdirnar m.a. sagðar verða lyftistöng fyrir atvinnulíf á landinu öllu og að þær muni stuðla að bættum hag landsmanna og fjölbreyttari samsetningu atvinnulífs.

Undanþágur frá skattalögum
Samtökin gera ekki efnislegar athugasemdir við að Alcoa Incorporated, Fjarðarál sf., séu veittar mikilvægar undanþágur frá íslenskum skattalögum til 20 ára. Eðlilegt sé að gerður sé samningur við erlenda aðila sem hyggist festa mikla fjármuni hér á landi til margra áratuga.

Eignarskattar, stimpilgjöld, vörugjöld
Í umsögninni benda samtökin hins vegar á að samningurinn beinir sjónum að þeim ákvæðum íslenskrar fyrirtækjaskattalöggjafar sem ekki tíðkast meðal þeirra ríkja sem við berum okkur saman við og brýnt er að færð verði í svipað horf og annars staðar gildir. Þar er fyrst og fremst um að ræða eignarskatta, vörugjöld og stimpilgjöld. Eignarskattar á fyrirtæki þekkjast vart annars staðar og vörugjöld á byggingarefni þekkjast hvergi. Einnig er minnt á að enn hefur ekki komið fram frumvarp á yfirstandandi þingi um breytingar á lögum um stimpilgjald einsog kynnt var sl. haust.

Loks er bent á að skattaleg ákvæði frumvarpsins eru hagstæðari en sérsamningar við starfandi fyrirtæki í orkufrekum iðnaði, en samtökin telja það óviðunandi stöðu að skattalegt ójafnræði ríki milli fyrirtækja í sömu atvinnugrein.

Sjá umsögn SA og SI (pdf-skjal).