Efnahagsmál - 

08. maí 2010

Athugasemdir vegna skrifa Jóhanns Páls Símonarsonar um Gildi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Athugasemdir vegna skrifa Jóhanns Páls Símonarsonar um Gildi

Jóhann Páll Símonarson skrifaði opið bréf til mín í Morgunblaðinu fimmtudaginn 6. maí sl. og leggur fram ýmsar spurningar um málefni lífeyrissjóðsins Gildis. Fyrir þá sem ekki vita hefur Jóhann Páll reynt að gera sig gildandi á ársfundum Gildis undanfarin ár og skeytt takmarkað um samþykktir sjóðsins eða almenn fundarsköp en reitt til höggs gagnvart stjórn og starfsmönnum óháð því hvort vel hefur gengið eða miður. Málefnatilbúnaðurinn hefur verið fátæklegur en þó sjaldnast jafn rýr og nú.

Jóhann Páll Símonarson skrifaði opið bréf til mín í Morgunblaðinu fimmtudaginn 6. maí sl. og leggur fram ýmsar spurningar um málefni lífeyrissjóðsins Gildis. Fyrir þá sem ekki vita hefur Jóhann Páll reynt að gera sig gildandi á ársfundum Gildis undanfarin ár og skeytt takmarkað um samþykktir sjóðsins eða almenn fundarsköp en reitt til höggs gagnvart stjórn og starfsmönnum óháð því hvort vel hefur gengið eða miður. Málefnatilbúnaðurinn hefur verið fátæklegur en þó sjaldnast jafn rýr og nú.

Jóhann Páll hefur lesið skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eins og skrattinn Biblíuna. Á ársfundi Gildis þann 28. apríl sl. fór Jóhann Páll að venju mikinn í ræðustóli og hélt því fram að í skýrslu rannsóknanefndar stæði að Gildi hefði verið að veðja á móti krónunni og hverju slíkt alvarlegt brot gegn sjóðfélögum og íslensku þjóðinni sætti.

Á fundinum var honum bent á að í gjaldeyrisvörnum sínum hefði Gildi einmitt tekið gagnstæða stöðu, með krónunni en ekki á móti henni. Gjaldeyrisvarnir Gildis gengu út á að hagnast á hækkun krónunnar en tapa á falli hennar. Hlutverk gjaldeyrisvarnanna er að jafna sveiflur á erlendum eignum sjóðsins sem lækka þegar krónan hækkar og öfugt þegar krónan lækkar.

Áfram heldur Jóhann Páll að vitna í skýrslu rannsóknanefndar með sama hætti. Ekkert sem hann segir standa í skýrslunni stendur raunverulega í henni heldur eitthvað allt annað og þveröfugt við það sem hann heldur fram. Þess vegna eru spurningar Jóhanns byggðar á fullyrðingum og forsendum sem ekki standast.

Í skýrslu rannsóknanefndar kemur fram að forráðamenn bankanna hafi fegrað stöðu þeirra fyrir stjórnvöldum, fjárfestum, öllum markaðnum og almenningi. Lífeyrissjóðirnir voru fjárfestar og þolendur og höfðu engar upplýsingar umfram aðra utan afmarkaðs hóps innan bankanna. Það er á þessum forsendum sem Gildi getur ekki unað því að tapa alveg víkjandi skuldabréfi á Glitni sem keypt var í útboði í mars 2008.

Í febrúar 2007 fengu íslensku bankarnir lánshæfismat hjá erlendum matsfyrirtækjum eins og bestu fjárfestingakostir í víðri veröld og í febrúar 2008 voru þeir enn metnir betri eða jafngóðir fjárfestingakostir og þeir höfðu verið á árinu 2002. Allur heimurinn fylgdist með viðbrögðum við fjármálakreppunni sem hófst síðsumars 2007 í Bandaríkjum. Fyrst var almennt álitið að kreppan gengi fljótt yfir en smám saman syrti í álinn og sjálfur seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagðist ekki hafa séð fyrir atburði septembermánaðar 2008 þar í landi.

Á Íslandi fylgdust lífeyrissjóðamenn og aðrir með fréttum af lausafjárvandræðum bankanna og viðbrögðum þeirra svo og fréttum af tilraunum ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans til þess að efla gjaldeyrisvaraforðann. Lífeyrissjóðurinn Gildi hafði engar aðrar og meiri upplýsingar en allir aðrir og á ársfundi Gildis í apríl 2008 fór Jóhann Páll með árvissa skammarræðu um of háan rekstrarkostnað lífeyrissjóðsins.

   

Jóhann Páll spyr líka um af hverju nýjar lífslíkur séu teknar upp í tryggingafræðilegu mati Gildis. Maður sem hefur kynnt sér málefni lífeyrissjóða jafn ákaft og hann á að vita að þetta er gert til að fylgja þeim lögum og reglum sem um sjóðinn gilda.

Skýrsla endurskoðenda Gildis innihélt upplýsingar um innra mat á einstökum skuldabréfum þar sem kaupverð þeirra hafði verið fært niður. Þær upplýsingar gætu ef bærust til útgefenda þessara bréfa orðið til þess að veikja samningsstöðu Gildis í nauðasamningum og skaða þannig sjóðinn. Jóhanni Páli er ekki trúað fyrir slíkum upplýsingum og lái forráðamönnum Gildis hver sem vill. Fjármálaeftirlitið gerir enga kröfu til þess að Jóhann Páll fái þessa skýrslu afhenta.

Á nýafstöðnum ársfundi Gildis bættist Jóhanni Páli liðsauki frá hópi manna sem tengist tilteknum stjórmálaflokki, Frjálslynda flokknum. Ekki var það til að bæta ástandið en vissulega setur að manni hroll ef kröfur um svokallað sjóðfélagalýðræði eiga að þýða að stjórnmálaflokkar smali á ársfundi og hertaki lífeyrissjóðina. Slíkt mun ekki gerast í Gildi meðan Samtök atvinnulífsins ráða einhverju þar um.

Vilhjálmur Egilsson,

varaformaður stjórnar Gildis

og framkvæmdastjóri SA

Samtök atvinnulífsins