Efnahagsmál - 

22. September 2011

Árni Oddur: Ísland verði hluti af stóru myntbandalagi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Árni Oddur: Ísland verði hluti af stóru myntbandalagi

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris og stjórnarformaður Marels, tók þátt í umræðum á morgunverðarfundi SA og SI föstudaginn 16. september um hagvaxtarhorfur í Evrópu og möguleg áhrif á Ísland. Þar sagði Árni Oddur m.a. að hann væri sannfærður um nauðsyn þess að Ísland verði hluti af stóru myntbandalagi. Rökréttast væri að Ísland gerðist aðili að evrunni þar sem 60% af útflutningi Íslendinga fari til Evrópulanda.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris og stjórnarformaður Marels, tók þátt í umræðum á morgunverðarfundi SA og SI föstudaginn 16. september um hagvaxtarhorfur í Evrópu og möguleg áhrif á Ísland.  Þar sagði Árni Oddur m.a. að hann væri sannfærður um nauðsyn þess að Ísland verði hluti af stóru myntbandalagi. Rökréttast væri að Ísland gerðist aðili að evrunni þar sem 60% af útflutningi Íslendinga fari til Evrópulanda.

Árni benti á að á Íslandi eru aðeins um 130 þúsund manns í fullu starfi á vinnumarkaði og sagði hann það sitt mat að það væru allt of fáir til að Ísland gæti rekið sjálfstæða peningastefnu. Ef vinnumarkaðurinn er brotinn frekar upp og honum skipt í opinberan rekstur, fyrirtæki sem starfa á innanlandsmarkaði og alþjóðleg fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfa í útflutningi kemur upp margbrotnari mynd. Útflutningsfyrirtækin fá megnið af sínum tekjum í evrum eða dollurum og sagði Árni það sitt mat að bæði beinn og óbeinn kostnaður af íslensku krónunni væri of mikill til þess að hægt væri að réttlæta notkun hennar. Þeir sem beri mestan kostnað af henni séu lítil fyrirtæki og heimili sem greiði fyrir vikið of mikinn fjármagnskostnað.

Árni Oddur velti því upp hvers vegna Ísland ætti ekki að gerast aðili að ESB og fá þar með niðurfellda háa tolla og fullan markaðsaðgang að mörkuðum ESB með unninn fisk og landbúnaðarafurðir? "Ég er sannfærður um að í kjölfar hærra heimsmarkaðsverðs á korni og 30-40% hækkunar á matvælaverði í heiminum á undanförnum árum sé íslenskur matvælaiðnaður að verða samkeppnishæfari. Hvers vegna ekki að nýta sér það?"

Frá umræðum á fundi SA og SI

Árni ræddi auk þess um breytt rekstrarumhverfi alþjóðlegra fyrirtækja í kjölfar kreppunnar 2008 og þau tækifæri sem eru til staðar. Sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum sem fjárfesta í nýsköpun og markaðssókn. Sagði hann fyrirtæki í Evrópu sem hafi gert það þrátt fyrir almennan samdrátt vera í nokkuð góðum málum.

Í umræðunum tóku þátt auk Árna, Philippe de Buck, framkvæmdastjóri BUSINESSEUROPE, Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, alþingismaður. Umræðum stýrði Vilhjálmur Egilsson,

framkvæmdastjóri SA.

Samtök atvinnulífsins