Efnahagsmál - 

13. mars 2009

Áratugur hinna glötuðu tækifæra framundan?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Áratugur hinna glötuðu tækifæra framundan?

Á þeim örlagaríku tímum sem við nú lifum skiptir miklu máli að taka réttar ákvarðanir um skipan mála í íslensku atvinnulífi því að þær ráða því hvort kreppan og erfiðleikarnir í atvinnulífinu verða tiltölulega skammvinnir eða fylgja okkur næsta áratuginn.

Á þeim örlagaríku tímum sem við nú lifum skiptir miklu máli að taka réttar ákvarðanir um skipan mála í íslensku atvinnulífi því að þær ráða því hvort kreppan og erfiðleikarnir í atvinnulífinu verða tiltölulega skammvinnir eða fylgja okkur næsta áratuginn.

Samtök atvinnulífsins settu í lok janúar fram heildstæða stefnu í atvinnumálum, hagsýna, framsýna og áræðna atvinnustefnu í því skyni að benda á leiðir til þess að erfiðleikarnir yrðu yfirstignir á örfáum misserum. Margt bendir því miður til þess að skilning skorti á lykilatriðum í tillögugerð SA og þess vegna er það raunveruleg hætta að við eigum eftir að upplifa nýjan "áratug hinna glötuðu tækifæra".

Á árunum 1980-1995 jókst landsframleiðslan á Íslandi að jafnaði um 2% árlega, en á árunum 1995-2009 um 3,2% að jafnaði, og er þá 10% fall á þessu ári meðtalið. Meginástæðan fyrir slökum árangri á fyrrnefnda tímabilinu voru rangar ákvarðanir stjórnvalda, skortur á umbótavilja og lausatök í stjórn efnahags- og atvinnumála. Á síðara tímabilinu, og í aðdraganda þess, höfðu stjórnvöld metnað og framsýni sem skilaði þjóðinni áfram og staða hennar, þrátt fyrir mikið áfall nú, er nægilega sterk til þess að komast yfir erfiðleikana og skipa sér á ný í fremstu röð meðal mestu velmegunar- og velferðarþjóða heims.

Samtök atvinnulífsins hafa bent á fjögur brýn úrlausnarefni til að taka á fyrir atvinnulífið:

  • Veruleg lækkun vaxta.

    Núverandi vaxtastig sligar fyrirtækin, kemur í veg fyrir eðlilega uppbyggingu og birgðahald og veldur þannig óhagkvæmni í rekstri auk þess að hlaða upp í afskriftahauga í bönkunum. Þessir háu vextir hafa enga þýðingu til þess að ná niður verðbólgu. Enn bólar ekkert á vaxtalækkun þrátt fyrir að öllum ætti að vera ljóst að stýrivextir þyrftu að lækka strax í 10% og síðan hratt í framhaldinu þannig að vextir á Íslandi nálgist svipað stig og í nágrannalöndum okkar.

  • Afnám gjaldeyrishafta.

    Víðtæk gjaldeyrishöft voru illu heilli sett á að næturlagi 29. nóvember með þeirri skýringu að það þyrfti að koma í veg fyrir útstreymi gjaldeyris vegna fjárfestinga erlendra aðila í íslenskum krónum. Nú er talað um að afnema höftin í áföngum, einhvern tímann. Það hefur hins vegar aldrei verið skýrt út af hverju ekki mátti setja höftin á upphaflega í takmörkuðum mæli fyrst hægt er að afnema þau í áföngum og láta takmörkuð höft standa um lengri eða skemmri tíma. Gjaldeyrishöftin eru afar skaðleg og skapa vantraust á Íslandi og gengi krónunnar.

  • Öflugir erlendir aðilar úr hópi kröfuhafa eignist bankana.

    Það er deginum ljósara að ríkisbankaleiðin er ófær. Slíkir bankar munu ekki fá eðlilegan aðgang að erlendum fjármálamörkuðum næstu árin og geta þar með ekki þjónað íslenskum fyrirtækjum og almenningi með viðunandi hætti. Við horfum líka á hið hefðbundna ríkisbankamynstur vera að þróast með 63 aftursætisbankastjórum á Alþingi, þar sem hver hefur sinn viðskiptavinahóp, og ótal slíka bankastjóra utan þings, sem allir telja sig vita betur en bankastarfsmenn hvernig á að reka banka og hverjum og á hvaða kjörum á að veita fyrirgreiðslu.

  • Aðgerðir gegn atvinnuleysi.

    Gott samstarf hefur verið milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um ýmsar aðgerðir í því skyni að hamla gegn aukningu atvinnuleysis og þær hafa og munu skila árangri þrátt fyrir að atvinnuleysið sé enn vaxandi og orðið óbærilega mikið. Óskandi væri að samvinnan á þessu sviði smitist yfir á önnur svið þar sem aðilar hafa sameinast um að leita leiða til að bæta erfitt ástand.

Í atvinnustefnu Samtaka atvinnulífsins er ennfremur fjallað ítarlega um margvíslegar aðgerðir til lengri tíma. Má þar nefna t.d. aðkomu banka að uppstokkun fyrirtækja en mörg fyrirtæki eru óhjákvæmilega í miklum rekstrar- og greiðsluerfiðleikum. Þá er fjallað um endurreisn hlutabréfamarkaðarins, samkeppni, nýsköpun, umhverfismál og fjölmarga aðra þætti sem þarf að huga að.

Stjórnvöld hafa á þessum sviðum því miður verið að fara inn á brautir sem eru líklegar til þess að lenda í miklum ófærum. Ber þar hæst hugmynd um sérstakt eignarhaldsfélag á vegum ríkisins til þess að halda utanum eignarhluti í þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum sem þess vegna geta verið mörg helstu fyrirtæki landsins. Burtséð frá því hvers vænta má í rekstrarlegum árangri þessara fyrirtækja þegar stjórnmálamennirnir fara að hafa skoðanir á einstökum þáttum í rekstri fyrirtækjanna og setja þeim pólitískar skorður þá vekur þetta ugg um að samkeppnislögin verði beygð eftir hentugleikum þegar þessi fyrirtæki ganga ekki eins vel og til er stofnað.

Aðalfundur Samtaka atvinnulífsins verður haldinn 22. apríl undir yfirskriftinni "Atvinnulífið skapar störfin". Á næstu árum þarf að skapa 20 þúsund störf til þess að Ísland komist í fyrri stöðu og jafnvægi verði á vinnumarkaði. Til þess að það gerist megum við ekki búa við veikburða ríkisbanka sem hafa aðeins takmarkaðan aðgang að erlendu lánsfé og ný ríkisfyrirtæki eru ólíkleg til þess að skapa fjölda starfa á viðskiptalegum forsendum. Það eru aðeins hin fjölmörgu fyrirtæki í landinu, stór og smá, á vegum framtakssamra einstaklinga sem eru líkleg til þess að skapa þessi störf. Atvinnustefna Samtaka atvinnulífsins snýst um að skapa skilyrði fyrir öll þessi fyrirtæki þannig að kraftur þeirra nýtist þjóðinni. Árangur í starfi hinna fjölmörgu fyrirtækja í öllum greinum atvinnulífsins er það sem forðar okkur frá nýjum "áratug hinna glötuðu tækifæra".

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins