Grindavík - stuðningur vegna náttúruhamfara

Að kvöldi 10. nóvember 2023 var hættustigi lýst yfir í Grindavík vegna jarðskjálfra og hættu á eldgosi. Bærinn var í kjölfarið rýmdur og hefur atvinnustarfsemi lagst af í Grindavík.

Við þessar aðstæður er mörgum fyrirtækjum ókleift að standa við samningsskuldbindingar sínar, m.a. gagnvart starfsfólki. Um réttindi og skyldur atvinnurekenda þegar náttúruhamfarir stöðva rekstur ( force majeure) er fjallað hér á vefnum .

Alþingi hefur samþykkt lög sem ætlað er að stuðla að því að atvinnurekendum verði kleift að viðhalda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt og greiða laun komandi mánuði. Lögin byggja á lögum um greiðslu launa í sóttkví, sem voru í gildi á árunum 2020 - 2022. Margir atvinnurekendur þekkja til þeirrar framkvæmdar og fyrirkomulags endurgreiðslu frá Vinnumálastofnun.

Lögin munu samkvæmt frumvarpinu ná til launa vegna tímabilsins frá 11. nóvember 2023 til 29. febrúar 2024.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir, sjá hér sem og leiðbeiningar Vinnumálastofnunar. Símatímar úrræðisins eru mánudaga til fimmtudaga frá 9-11 (531-7141) en utan þess má senda tölvupóst á netfangið studningur@vmst.is

Unnt er að senda fyrirspurn á tengilið almannavarna, gudjon@almannavarnir.is

Sjá nánar um framkvæmdina hér að neðan í "spurt og svarað".

Síðast uppfært: 18.12.2023

Til hvaða fyrirtækja og starfsfólks ná lögin?

Lögin ná til atvinnurekenda og starfsfólks þar sem starfsfólk getur ekki gegnt störfum sínum á starfsstöð hlutaðeigandi atvinnurekanda í sveitarfélaginu Grindavíkurbæ, vegna náttúruhamfara á því svæði.

Búseta starfsfólks skiptir því ekki máli í þessu sambandi, einungis er horft til þess hvort starfsstöðin sé á svæðinu og ekki sé hægt að halda úti starfseminni vegna jarðhræringa.

Ekki er gerð krafa um að öll starfsemi hafi lagst af, lögin ná einnig til starfsemi á svæðinu sem lagst hefur af að hluta.

Ef starfsfólk er með búsetu í Grindavík en starfar utan þess svæðis sem hér er nefnt, þá getur það ekki sótt um greiðslur þótt það eigi tímabundið erfitt með að sækja vinnu vegna aukinnar fjarlægðar frá vinnustað.

Hver sækir um greiðslur?

Markmið laganna er að atvinnurekendum sé kleift með stuðningi að viðhalda ráðningarsambandi við starfsfólk þótt starfsemi falli niður að öllu leyti eða hluta vegna náttúruhamfaranna.

Atvinnurekendur, sem greiða starfsfólki sínu laun þótt starfsemi falli niður, geta því sótt um endurgreiðslu kostnaðar upp að ákveðnu hámarki.

Ef atvinnurekandi telur sér ekki kleift að greiða starfsfólki laun, t.d. vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls, þá getur starfsfólk hans sótt sjálft um greiðslur til Vinnumálastofnunar.

Rétt er að atvinnurekandi tilkynni starfsfólki sínu ef hann telur óhjákvæmilegt að fella það af launaskrá og þá frá hvaða tíma. Sjá umfjöllun hér á vefnum um réttindi og skyldur atvinnurekenda við þessar aðstæður (force majeure).

Atvinnurekendur geta einnig ákveðið að greiða laun fyrir allan nóvember eða lengur og ákveðið síðar að stöðva greiðslu launa og vísa starfsfólki sínu að sækja beint um greiðslur til Vinnumálastofnunar. Vegna þessarar fjárhagslegu óvissu er mikilvægt að atvinnurekendur séu í reglubundnu sambandi við starfsfólk sitt og láti það vita með góðum fyrirvara ef breytingar eru ráðgerðar á fyrirkomulagi greiðslna.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga að greiði atvinnurekandi lægri greiðslu til starfsmanns en hann gæti sjálfur fengið með beinni umsókn til Vinnumálastofnunar, þá getur starfsmaður ekki sótt þann mismun til Vinnumálastofnunar. Forsenda umsóknar starfsmanns er að atvinnurekandinn hafi ekki greitt laun.

Hversu há er endurgreiðslan til atvinnurekanda?

Greiðsla til atvinnurekanda tekur mið af heildarlaunum starfsfólks í þeim almanaksmánuði sem starfsfólk gat ekki gegnt störfum sínum Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Heildarlaun í hverjum mánuði mynda því þak endurgreiðslu frá Vinnumálastofnun.

Sama gildir um nóvembermánuð þótt greiðsluréttur miðst við 2/3 hluta þess mánaðar. Litið er til heildarlaunagreiðslna í þeim mánuði.

Greiðslur til atvinnurekenda frá Vinnumálastofnun verða þó að hámarki 633.000 kr. miðað við heilan almanaksmánuð. Greitt er hlutfallslega fyrir styttra tímabil og er því hámarksgreiðsla fyrir nóvembermánuð 2/3 af 633.000 kr. eða 422.000 kr.

Við endurgreiðslu launa bætist 11,5% mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð. Hámarksgreiðsla fyrir fullan mánuð er því 705.795 kr.

Hvaða laun ber atvinnurekanda að greiða?

Þegar náttúruhamfarir stöðva atvinnurekstur, að öllu leyti eða hluta, þá verður atvinnurekanda ekki gert að greiða starfsfólki sínu laun, sjá umfjöllun hér á vefnum um force majeure. Það leiðir því af eðli máls að ef atvinnurekandi hyggst eftir sem áður greiða starfsfólki laun þá hefur hann nokkkuð sjálfdæmi um hvaða laun eru greidd.

Í frumvarpi til laga um stuðning til greiðslu launa er ekki lögð tiltekin kvöð á atvinnurekendur hvað varðar launagreiðslur, þ.e. að starfsmaður haldi venjulegum heildarlaunum, föstum launum, dagvinnulaunum með bónus, eða eingöngu dagvinnulaunum.

Rétt er þó atvinnurekendum, sem ákveða að greiða áfram laun eftir að rekstur stöðvast, að horfa til hagsmuna starfsfólks síns og greiða ekki lægri fjárhæð á mánuði en sem nemur meðallaunum starfsfólks frá ágúst til október, þ.e. ekki lægri fjárhæð en starfsfólkið sjálft gæti sjálft sótt um til Vinnumálastofnunar. Telji atvinnurekandi sér ekki kleift að greiða þá fjárhæð þá er hagkvæmara fyrir starfsfólk að sækja sjálft um greiðslurnar.

Þegar ákveðið var að rýma Grindavík, að kvöldi 10. nóvember, þá hafði starfsfólk þegar unnið til launa á launatímabilinu sem koma eiga til greiðslu um mánaðamótin nóvember/desember. Atvinnurekendur þurfa hins vegar að ákveða hvað greitt verður eftir það tímamark, m.a. m.t.t. þeirrar endurgreiðslu sem í boði er skv. lögunum.

Stjórnvöld hafa væntingar um að með þessu úrræði verði atvinnurekendum á svæðinu kleift að greiða þau reglulegu laun sem starfsfólk hefur notið hjá viðkomandi atvinnurekanda. Það er mikilvægt að atvinnurekendur átti sig á að greiði þeir einungis dagvinnulaun eftir að starfsemin stöðvaðist þá kunna þeir að hafa af starfsfólki hærri greiðslur sem það gæti sjálft sótt með beinum umsóknum til Vinnumálastofnunar, enda byggja þær á meðaltalslaunum í mánuðunum ágúst - október.

Hvaða greiðslur fær starfsmaður sem sækir um sjálfur til Vinnumálastofnunnar?

Lögin gera ráð fyrir þeim möguleika að atvinnurekandi kjósi að fella niður launagreiðslur til starfsfólks eftir að rekstur stöðvaðist, t.d. vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls. Starfsfólk sem lögin ná til getur því sótt sjálft um greiðslur til Vinnumálastofnunnar.

Greiðsla til starfsmanns tekur mið af meðaltalslaunum viðkomandi einstaklings á tímabilinu frá ágúst til október 2023. Er þá horft til launa frá þeim atvinnurekanda sem stöðvun rekstrar á við en ekki eftir atvikum launa frá öðrum launagreiðendum utan svæðisins.

Vera kann að starfsmaður hafi verið launalaus eða með skert laun í einum eða tveimur af þessum þremur viðmiðunarmánuðum, t.d. vegna töku fæðingarorlofs, og er þá Vinnumálastofnun heimilt að miða útreikninga við einn eða tvo mánuði í stað þriggja. Það er starfsmanns að fylgja því eftir gagnvart stofnuninni að sanngjarnt sé að miða við styttra útreikningstímabil en þrjá mánuði.

Hámarksgreiðsla til einstaklings, fyrir fullan mánuð, er 633.000 kr. Af greiðslu dregst, auk staðgreiðslu skatta, 4% iðgjald hans til lífeyrissjóðs. Vinnumálastofnun greiðir 11,5% mótframlag atvinnurekanda til lífeyrissjóðs.

Fyrir starfsmann liggur munurinn á greiðslum, annars vegar ef atvinnurekandinn greiðir laun og fær sjálfur endurgreitt frá Vinnumálastofnun, og hins vegar ef starfsmaður sækir beint um greiðslur til Vinnumálastofnunnar, í eftirfarandi:

  • Ef atvinnurekandi á við greiðsluörðugleika að stríða, sem kunna að vera tímabundnir vegna ástandsins, þá hefur hann e.t.v. ekki svigrúm til að greiða hærri laun en sem nemur reglulegum dagvinnulaunum starfsmanns. Það kunna að vera lægri laun en sem nemur meðaltalslaunum starfsmanns frá ágúst til október skv. framansögðu. Starfsmaður kann því að fá hærri greiðslur sæki hann um sjálfur. Greiði atvinnurekandi laun þá á starfsmaður ekki kröfu á mismuninum, hvorki úr hendi atvinnurekanda né frá Vinnumálastofnun. Hér þurfa hlutaðeigandi atvinnurekendur að gæta hagsmuna starfsfólks síns og upplýsa um stöðuna með góðum fyrirvara svo starfsfólk geti gert ráðstafanir.
  • Vinnumálastofnun greiðir ekki orlofslaun til viðbótar sínum greiðslum en atvinnurekendum ber á hinn bóginn að greiða orlofslaun af launum. Atvinnurekandi sem greiðir t.d. starfsmanni 633.000 á mánuði er til viðbótar að greiða 64 - 82 þús. kr. í orlofslaun sem Vinnumálastofnun greiðir ekki.
  • Atvinnurekandi greiðir auk þess í sjúkra-, orlofs- og starfsmenntasjóð, sem Vinnumálastofnun gerir ekki, sem og 6,35% tryggingagjald til ríkisins. Ólíklegt er að það muni hafa áhrif á réttindi starfsfólks þótt þessar greiðslur muni ekki berast tímabundið.

Hvaða kostnaður fellur á atvinnurekanda?

Þegar atvinnurekandi greiðir starfsmanni laun þá fylgja því launatengd gjöld og orlofslaun. Launatengd gjöld eru um 22% og orlof 10 - 13%, samtals um 32 - 35%. Ýmiss annar launatendur kostnaður fellur á atvinnurekendur, s.s. vegna rauðra daga og veikindafjarvista, en ekki þarf að horfa til þess við mat á viðbótarkostnaði vegna þessarar aðgerðar.

Greiði atvinnurekandi starfsmanni eftir stöðvun rekstar þá fær hann launahlutann endurgreiddan, upp að tilgreindu hámarki, 11,5% mótframlag í lífeyrissjóð, en ekki annan launatengdan kostnað. Orlof og launatengdur kostnaður sem ekki fæst endurgreiddur nemur því um 22% að jafnaði.

Ef mánaðarlaun starfsmanns eru t.a.m. nálægt hámarksviðmiði laganna, kr. 633 þús., þá er kostnaður atvinnurekanda um 140 þús. kr. á mánuði vegna hvers starfsmanns. Það eru ekki allir atvinnurekendur í stöðu til að taka á sig þennan kostnað og gætu þurft, a.m.k. þegar frá líður, að vísa starfsfólki sínu að sækja um greiðslur beint til Vinnumálastofnunar.

Atvinnurekendur geta þó dregið úr þessum viðbótarkostnaði með því að greiða starfsfólki tiltekna sérgreiðslu sem innifelur orlof. Er þá tilgreint á launaseðli að orlof sé innifalið í greiðslu. Atvinnurekandi hefur það svigrúm þar sem greiðsluskylda hvílir ekki á honum. Gæta verður þó að hagsmunum starfsfólks og hvað það bæri úr býtum sæki það beint um greiðslur frá Vinnumálastofnun.

Hvað ef starfsmaður er hættur störfum?

Það er forsenda greiðslna til atvinnurekenda að ráðningarsamband sé til staðar milli hans og hlutaðeigandi einstaklings. Ef einhver vafi er um hvort starfsmaður sé í ráðningarsambandi, hann er t.d. farinn úr landi og ekki næst í hann, þá kann að vera öruggara fyrir atvinnurekanda að greiða ekki laun og bíða eftir að starfsmaður hafi samband.

Hver er réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga?

Sjálfstætt starfandi einstaklingar eiga sama rétt og launafólk, þ.e. ef þeir geta ekki gegnt starfi sínu, að hluta eða öllu leyti, vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ þar sem starfsstöð viðkomandi er staðsett í sveitarfélaginu.

Ef sjálfstætt starfandi einstaklingur getur gegnt starfi sínu áfram utan sinnar hefðbundnu starfsstöðvar í Grindavíkurbæ, þrátt fyrir náttúruhamfarir í sveitarfélaginu, þá á hann ekki rétt á stuðningi.

Gerð er sú krafa að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé með opinn rekstur auk þess að hafa staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda í a.m.k. þrjá mánuði á undanfarandi fjórum mánuðum fyrir gildistöku laganna eða á annan reglulegan hátt samkvæmt reglum ríkisskattstjóra.

Endurgreiðsla komi til arðsúthlutunar

Komi til úthlutunar arðs hjá atvinnurekanda á tímabilinu 1. mars 2024 til og með 28. febrúar 2025, ber honum að endurgreiða Vinnumálastofnun þann stuðning sem hann hefur fengið áður en til úthlutunar arðs kemur.

Ósamrýmanlegar greiðslur

Skilyrði stuðnings teljast ekki uppfyllt njóti starfsfólk eða sjálfstætt starfandi einstaklingur greiðslna samkvæmt öðrum lögum sem ætlaðar eru til framfærslu viðkomandi á sama tímabili og greiðslum samkvæmt lögum þessum er ætlað að ná til.

Sama á við um sambærilegar greiðslur skv. kjarasamningum. Í nefndaráliti velferðarnefndar Alþingis kemur þó fram að eðlilegt sé að atvinnurekendur njóti stuðnings vegna greiðslu veikindalauna við þessar aðstæður eins og annarra launa.

Atvinnurekendur sem fá greidda styrki á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar vegna þátttöku starfsfólks í vinnumarkaðsúrræði eiga ekki rétt á stuðningi vegna sama starfsfólks á sama tímabili og fyrrnefndar greiðslur eiga við um.

Fyrir hvaða tímamark þurfa umsóknir að berast?

Umsóknir um stuðning skulu berast Vinnumálastofnun í síðasta lagi 31. maí 2024. Hafi umsókn ekki borist fyrir það tímamark fellur niður réttur til stuðnings.

Get ég nýtt mér úrræðið vegna starfsmanna sem geta ekki sinnt umsaminni vinnuskyldu vegna tímabundinna húsnæðisvandamála?

Já, unnt er að nýta sér úrræðið í þeim tilvikum sem starfsmaður getur ekki sinnt umsaminni vinnuskyldu vegna atvika sem starfsmaður ræður ekki við t.d. þar sem starfsmaður er nú búsettur víðsfjarri vinnustað og/eða leikskólabörn eru stödd þar fjarri sem gerir það að verkum að viðkomandi getur ekki tímabundið unnið fulla vinnu.

Fæ ég fullan stuðning ef ég er með annað launatímabil en almanaksmánuðurinn?

Já, uppgjörstímabilið á ekki að hafa áhrif á stuðninginn. Mikilvægt er þó að vekja athygli Vinnumálastofnunar á því svo unnt sé að taka tillit til þess við afgreiðslu umsóknarinnar. Það er hægt að gera með því að hafa samband við síma 531 7141 frá 9:00 – 11:00 mánudaga til fimmtudaga eða með því að senda tölvupóst á studningur@vmst.is

Hefur starfshlutfall áhrif á hámark greiðslna?

Nei, sömu hámörk gilda fyrir starfsfólk í fullu starfi og hlutastarfi, þ.e. kr. 633.000 auk 11,5% mótframlags í lífeyrissjóð.