Samningar

Samningar eru mikilvægur hluti í rekstri hvers fyrirtækis. Tilhneigingin til að láta munnlegt samkomulag ráða getur valdið miklum vandræðum í rekstrinum og nauðsynlegt að hafa vaðið fyrir neðan sig og allt á hreinu með skýrum samningum. Þannig vita allir aðilar til hvers er ætlað af þeim og mun auðveldara er að leysa ágreiningsmál komi þau upp síðar.

Rekstrarkostnaður

Í rekstri er grundvallaratriði að þekkja umfang almenns rekstrarkostnaðar svo unnt sé að gera rekstraráætlun, vera í skilum við kröfuhafa og takmarka óvænt útgjöld.

Þótt munnlegir samningar séu jafn bindandi og skriflegir getur verið erfitt að sanna efni þeirra og því betra að tryggja mikilvæga hagsmuni í vel gerðum skriflegum samningi.

Mikilvægt er því að gera skriflega og vandaða samninga varðandi helstu kostnaðarliði í rekstri svo sem húsnæði, starfsfólk, verktöku og lykilaðföng. Skýrir og góðir samningar tryggja gegnsæi í rekstri og rekstrargrundvöll til lengri tíma.

Leigusamningar

Oft er hagstæðara að leigja atvinnuhúsnæði, sérstaklega við upphaf reksturs því þá liggur mánaðarlegur húsnæðiskostnaður nokkuð ljós fyrir enda annist leigusali viðhaldsskyldur sínar. Að sama skapi er hægt að setja meiri fjármuni í reksturinn með því að leigja húsnæði. Til lengri tíma er þó oft hagkvæmara að kaupa atvinnuhúsnæði.

Ákvæði húsaleigulaga geyma almennar reglur um réttindi og skyldur leigusala og leigutaka en eru frávíkjanleg þegar um er að ræða atvinnuhúsnæði. Ef leigutaki samþykkir að taka við viðhaldsskyldum leigusala, og taka þannig á sig þær skyldur að halda húsnæðinu við án þess að njóta mögulegrar hækkunar á fasteigninni, er nauðsynlegt að gera ráð fyrir óvæntum kostnaði í rekstraráætlun.

Hluthafasamkomulag

​Mikilvægt er að gera hluthafasamkomulag strax í upphafi. Samstarf eigenda á það til að enda með ósamkomulagi vegna ágreinings um áherslur í rekstri. Lykillinn að farsælu samstarfi er vel útfært hluthafasamkomulag. Gott er að hafa sanngjarnt og skipulagt bónuskerfi sem sér til þess að allir fái greitt í samræmi við vinnuframlag og skapar jafnræði milli aðila áður en kemur til greiðslu arðs.

Ráðningarsamningar

​Sé starfsmaður ráðinn til lengri tíma en eins mánaðar og að meðaltali lengur en átta klukkustundir á viku skal vinnuveitandi gera skriflegan ráðningarsamning eða staðfesta ráðningu skriflega eigi síðar en tveim mánuðum eftir að starfsmaður hefur störf. Ráðningarsamningar gegna lykilhlutverki varðandi ráðningarsambandið og tryggja gagnsæi og sönnun um hvað var samið. Skýrir og vel útfærðir ráðningarsamningar geta komið í veg fyrir eða að minnsta kosti dregið úr seinni tíma ágreiningi. Hafi hvorki verið gerður skriflegur ráðningarsamningur né ráðningarbréf staðfest er allur vafi um vinnuréttarsambandið almennt skýrður starfsmanni í hag.

Breytingar á ráðningarkjörum, hvort heldur það eru launabreytingar eða breytingar á öðrum ráðningarkjörum, skulu einnig staðfestar skriflega eigi síðar en mánuði eftir að þær koma til framkvæmda.