08. mars 2024

Svar við yfirlýsingu VR

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Svar við yfirlýsingu VR

Í framhaldi af tilkynningu sem birt var á heimasíðu VR í gær vilja Samtök atvinnulífsins koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri.

Samtök atvinnulífsins og Icelandair fengu birta kröfugerð vegna sérkjarasamnings við VR þann 5. febrúar sl. en ekki náðist að halda fund vegna hennar áður en VR sleit samstarfi við breiðfylkinguna og hætti viðræðum við SA. Boðað var til fundar hjá Ríkissáttasemjara í gær, hinn 7. mars, og mættu fulltrúar SA og Icelandair að sjálfsögðu til þess fundar. Þegar til kom neitaði viðræðunefnd VR að ræða um málefni sérkjarasamningsins og því var enginn fundur haldinn með fulltrúum Icelandair. Slíkt er í raun með ólíkindum í ljósi yfirlýsingar VR frá því gær þar sem fram kom að viðræðunefnd VR væri ávallt tilbúin til samningaviðræðna og myndi mæta lausnamiðuð til fundar þann dag um kjarasamning milli VR og SA og þau atriði sem honum tengjast.

Í tilkynningu VR segir „hið rétta er að kröfugerð vegna sérkjarasamnings var birt Samtökum atvinnulífsins, sem fara með samningsumboðið fyrir Icelandair, þann 29. nóvember 2022“. Sú kröfugerð var birt í síðustu samningaviðræðum sem enduðu með samningum sem undirritaðir voru þann 12. desember 2022 og runnu út þann 31. janúar sl. og eins og áður segir var kröfugerðin í núverandi kjarasamningsviðræðum birt 5. febrúar sl. Það er líklega einsdæmi í kjarasamningsviðræðum að boðuð sé atkvæðagreiðsla um verkfall án þess að raunverulega hafi verið fundað um viðkomandi kröfugerð.

Formaður VR hefur í þessu samhengi sagt ítrekað í fjölmiðlum undanfarna daga að Icelandair sé að brjóta gildandi kjarasamninga. Það er að sjálfsögðu ekki rétt. Farvegur til að útkljá slíkan ágreining er fyrir Félagsdómi en VR hefur kosið að hafa uppi kröfur í kjaraviðræðum um breytingar í stað þess að fá niðurstöðu dómstóla um framkvæmd kjarasamningsins.

Samtök atvinnulífsins