Stöðugleiki kemur ekki af sjálfu sér

Leiðin að verðstöðugleika og bættum lífskjörum var mörkuð af Samtökum atvinnulífsins á haustmánuðum 2023 í samtali við atvinnulíf og almenning. Í kjölfarið sýndu aðilar vinnumarkaðarins samhug og einurð í vinnu sinni við gerð stefnumarkandi langtímasamninga. Stöðugleikasamningurinn markaði vatnaskil á vinnumarkaði þar sem hóflegum launahækkunum til fjögurra ára er ætlað að skapa skilyrði fyrir stöðugleika.

Stöðugleiki kemur hins vegar ekki af sjálfu sér þrátt fyrir góða niðurstöðu kjarasamninga. Horfa þarf fram á veginn og tryggja að kjarasamningar verði til þess að draga úr verðbólguþrýstingi, en ekki öfugt. Atvinnulíf og stjórnvöld þurfa að rísa undir sinni ábyrgð og vera samtaka. Þannig er hægt að ná tökum á verðbólgunni og eygja von um lækkun vaxta. Á þessum grunni hefja Samtök atvinnulífsins eftirfylgni við kjarasamninga, með hækkandi sól, undir yfirskriftinni Stöðugleikarnir.

Sofnum ekki á verðinum. Verkefnið er ekki búið. Verum samtaka um aukna hagsæld.

Kjarasamningar 2024-2028

Stöðugleikasamningur

Langtímasamningar hafa náðst við meirihluta stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Samningarnir marka vatnaskil á vinnumarkaði og er ætlað að skapa skilyrði fyrir stöðugleika.

Hér má kynna sér samningana nánar

Mikilvægasta verkefni Samtaka atvinnulífsins síðustu mánuði hefur verið að ná skynsömum kjarasamningum. Stöðugleikasamningurinn hefur áhrif á efnahagslegan stöðugleika komandi ára. Horfa þarf fram á veginn og tryggja að kjarasamningar verði til þess að draga úr verðbólguþrýstingi, en ekki öfugt.

Kaupmáttur hér á landi hefur aukist meira en á hinum Norðurlöndunum, þrátt fyrir meiri verðbólgu. Það orsakast af því að verðmætasköpun hefur verið meiri hér á landi. Eðli málsins samkvæmt gefur það okkur meira svigrúm til launahækkana en nágrannaþjóðir okkar. Aftur á móti hefur verið samið um launahækkanir langt umfram það svigrúm sem verðmætasköpun hefur gefið tilefni til.

Ef okkur tekst að ná tökum á verðbólgunni og vextir lækka um eitt prósentustig, þá skilar það 33 þúsund krónum í vasa heimilis með 40 milljóna króna húsnæðislán. Það sem meira máli skiptir er að þegar verðbólgan loks hættir að bíta mun meira fást fyrir minna. Það væri sannanlega allra hagur.