Vinnumarkaður - 

01. júní 2015

Samið til langs tíma á almennum vinnumarkaði

Kjarasamningar

Kjarasamningar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samið til langs tíma á almennum vinnumarkaði

Kjarasamningar voru undirritaðir á almennum vinnumarkaði síðastliðinn föstudag sem ná til tæplega 70 þúsund launamanna. Samningarnir gilda til ársloka 2018 verði þeir samþykktir, en framundan er kynning á efni samninganna meðal aðildarfyrirtækja SA. Verkföllum stéttarfélaganna hefur verið frestað fram yfir atkvæðagreiðslu þeirra. Samningana í heild má nálgast hér á vef SA en megináhersla þeirra er á hækkun lægstu launa.

Kjarasamningar voru undirritaðir á almennum vinnumarkaði síðastliðinn föstudag sem ná til tæplega 70 þúsund launamanna. Samningarnir gilda til ársloka 2018 verði þeir samþykktir, en framundan er kynning á efni samninganna meðal aðildarfyrirtækja SA. Verkföllum stéttarfélaganna hefur verið frestað fram yfir atkvæðagreiðslu þeirra. Samningana í heild má nálgast hér á vef SA en megináhersla þeirra er á hækkun lægstu launa.

Í samningunum er kveðið á um eftirfarandi atriði:

Lágmarkstekjutrygging
Lágmarkstekjutrygging hækkar um 86 þúsund krónur á samningstímanum og fer í  245 þúsund krónur á mánuði við gildistöku samningsins og 300 þúsund krónur á mánuði frá og með maí 2018.

Launahækkanir
Laun umfram lágmarkskjör hækka samkvæmt launaþróunartryggingu árin 2015 og 2016, en árin 2017 og 2018 gilda almennar launahækkanir.

1. maí 2015

  • Launataxtar hækka um kr. 25.000
  • Launaþróunartrygging þeirra sem taka laun umfram launataxta hækka um allt að  7,2%, við 300 þúsund króna mánaðarlaun, en hún fer síðan stiglækkandi með hærri mánaðarlaunum. Launaþróunartryggingin verður aldrei lægri en 3,2%.

1. maí 2016

  • Launataxtar hækka um kr. 15.000
  • Launaþróunartrygging er 5,5%. Viðmiðunartímabil er 1. júní 2015 til 30. apríl 2016.

1. maí 2017

  • Launataxtar hækka um 4,5%
  • Almenn hækkun er 3%

1. maí 2018

  • Launataxtar hækka um 3%
  • Almenn hækkun er 2%  m.v. átta mánuði

300 þúsund króna lágmarkstekjutrygging í lok samningstímans
Lágmarkstekjutrygging er það lágmark sem greiða verður starfsmönnum sem hafa starfað í 12 mánuði hjá sama fyrirtæki. Nú er lágmarkstekjutrygging 214 þúsund en verður 245 þúsund krónur við undirritun samningsins og verður 300 þúsund krónur í samningslok.

Allir hagnist

undefined

Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að aflokinni undirritun að þetta væru sögulegir samningar í kjölfar mikilla átaka. Hann hefði trú á því að hægt verði að ná kaupmáttaraukningu og tryggja stöðugleika á samningstímanum. Því væri þó ekki að leyna að með undirritun samninganna væri farið út á ystu nöf en með samvinnu væri hægt að vinna úr stöðunni þannig að það komi öllum til góða.

Verðstöðugleiki mikilvægur
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri SA, sagðist í samtali við mbl.is fagna því að tekist hefði að ná samningum og afstýra víðtækum verkföllum. Niðurstaðan sé jákvæð fyrir alla aðila. „Við treyst­um því að okk­ur tak­ist að vinna úr þess­ari stöðu þannig að okk­ur tak­ist að verja þann stöðug­leika sem hér hef­ur náðst og halda verðbólg­unni niðri þannig að þetta verði far­sæl niðurstaða.“

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins segir Þorsteinn ljóst sé að í samningunum felist mjög miklar launahækkanir. Samningarnir séu framhlaðnir þannig að töluverðar launahækkanir verði strax í upphafi.  

„Á móti kemur að samningarnir eru til langs tíma og munu skapa fyrirtækjum ákveðinn fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi sínu til lengri tíma litið. Við vonumst til þess að við getum unnið úr þessum samningum þannig að þeir í senn skili launafólki umtalsverðri aukningu í kaupmætti en geri okkur um leið kleift að byggja áfram á stöðugleika og áframhaldandi velgengni í efnahagslífinu.“

Sameiginlegt verkefni
Framkvæmdastjóri SA undirstrikar í samtali við Morgunblaðið í dag að fyrirtæki leggi sitt af mörkum til að halda aftur af verðbólgu en þó sé ekki ólíklegt að kostnaðarhækkanir vegna samninganna muni leiða til hækkana á þjónustu í sumum atvinnugreinum.  Það á einkum við um þjónustugreinar þar sem mikill hluti starfsfólks er á taxtakaupi og laun stór hluti kostnaðar.

undefined

Þorsteinn áætlar að launahækkanir millitekjuhópa og launahærri hópa verði um 5% á ári næstu tvö árin. Telur hann ólíklegt að verðbólguþrýstingur skapist vegna þess. Meiri hækkanir séu hjá tekjulægri hópum

„Ef við horfum yfir sviðið má sjá að launahækkanir koma harðast niður á greinum sem eru með fjölmenna starfsmannahópa um eða rétt ofan við taxtakaup. Má benda á ræstingu, umönnunarþjónustu og ýmsar þjónustugreinar þar sem hlutfall launa er hátt. Í matvælaiðnaði getur launahækkun valdið töluverðum kostnaðarhækkunum.“

Hann segir að þar séu launahækkanir alveg á mörkum þess mögulega og ekki sé ólíklegt að verðbólguþrýstingur skapist. „Tíminn verður að leiða það í ljós hvernig úr þessu vinnst. Við vonum að fyrirtæki muni beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir hækkanir en ljóst er að í sumum atvinnugreinum munu hækkanir óhjákvæmilega fylgja í kjölfarið.“ Segir Þorsteinn að Samtök atvinnulífsins hafi teygt sig langt í þeirri viðleitni að skapa frið á vinnumarkaði til langs tíma. „Það er afar brýnt að fyrirtæki reyni af fremsta megni að sporna gegn verðhækkunum vegna þessara kjarasamninga með því að leita allra leiða til hagræðingar og framleiðniaukningar á móti þeim kostnaðarhækkunum sem felast í samningum. Það verður að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að halda verðbólgu í skefjum þó að ljóst sé að nokkuð muni reyna á í þeim efnum.“

Framlag ríkisstjórnarinnar
Samhliða undirritun kjarasamninga kynnti ríkisstjórn Íslands viðamiklar aðgerðir í 11 liðum til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum markaði. Þær fela m.a. í sér:

  • Breytingar á tekjuskatti leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega
  • Heildarlækkun á tekjuskatti einstaklinga á kjörtímabilinu allt að 16 milljarðar
  • Átak um byggingu 2300 félagslegra íbúða
  • Komið til móts viðefnaminni leigjendur og þá sem kaupa fyrstu íbúð
  • Aukið samstarf við aðila vinnumarkaðar með stofnun þjóðhagsráðs

Yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar má nálgast í heild sinni hér.

Samningana má nálgast hér að neðan ásamt tilheyrandi bókunum, m.a. um breytingar á vinnutíma, starfsmenntamál og sveigjanleg starfslok.

Undirritaðir kjarasamningar 29. maí 2015:

Kjarasamningur milli LÍV, VR og SA (PDF)

Kjarasamningur milli SGS og SA (PDF)

Kjarasamningur milli Eflingar, Hlífar, VSFK og StéttVest (PDF)

Kynning á helstu atriðum nýrra samninga (PDF)

Samtök atvinnulífsins