Efnahagsmál - 

26. júní 2017

Íslensk ferðaþjónusta með augum AGS

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Íslensk ferðaþjónusta með augum AGS

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur birt nýja skýrslu um stöðu íslenskrar ferðaþjónustu og má með sanni segja að sjóðurinn sé bjartsýnn um framtíð hennar. Ekki er langt síðan að fjöldi ferðamanna tókst á flug á Íslandi og hefur vöxturinn í íslenskri ferðaþjónustu verið gríðarlegur á alla mælikvarða síðan, í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Samhliða þessum öra vexti hefur íslenskt hagkerfi tekið gífurlegum breytingum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur birt nýja skýrslu um stöðu íslenskrar ferðaþjónustu og má með sanni segja að sjóðurinn sé bjartsýnn um framtíð hennar. Ekki er langt síðan að fjöldi ferðamanna tókst á flug á Íslandi og hefur vöxturinn í íslenskri ferðaþjónustu verið gríðarlegur á alla mælikvarða síðan, í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Samhliða þessum öra vexti hefur íslenskt hagkerfi tekið gífurlegum breytingum.

Þrátt fyrir mikinn hagvöxt er enn afgangur af viðskiptum við útlönd og er það nýmæli hér á Íslandi. Ofan í ört vaxandi hagkerfi hefur krónan hins vegar styrkst og laun hækkað langt umfram það sem þekkist í samanburðarlöndum. Hefur það dregið úr samkeppnishæfni útflutningsgreina landsins. Þrátt fyrir að Ísland sé nú orðið aftur einn af dýrustu áfangastöðum álfunnar þá metur AGS ekki mikla hættu á snöggum samdrætti í ferðaþjónustu á Íslandi, þó tiltekið sé í skýrslunni að líklega muni hægja á vextinum.

Hefðbundnir hagrænir hvatar eiga síður við
Ein meginniðurstaða sjóðsins er að hefðbundnar skýribreytur á innflæði ferðamanna til landsins eigi minna við í þessari nýju bylgju ferðamanna. Fjölgunin virðist ekki stafa af auknum kaupmætti þeirra sem sækja landið heim né heldur virðist styrking krónunnar hafa dregið úr eftirspurninni undanfarin ár. Aðrir þættir en hagrænir virðast skýra þessa breytingu.

Fjöldi flugfélaga sem fljúga til Íslands hefur farið úr því að vera sjö í tuttugu og átta á aðeins átta árum.

Aðrar hvatar skipta meira máli
Helstu ástæður þess að mati AGS hversu vel hefur tekist að koma Íslandi á kortið sem eftirsóknarverðum áfangastað eru einkum tvíþættar. Annars vegar þá varð eldgosið í Eyjafjallajökli til þess að vekja áhuga á landinu og hins vegar voru viðbrögð Íslendinga við eldgosinu þau að leggja aukna áherslu á markaðssetningu áfangastaðarins Íslands, bæta innviði flugsamgangna og almennt að liðka fyrir komu ferðamanna til landsins.

Fjöldi flugfélaga sem fljúga til Íslands hefur farið úr því að vera sjö í tuttugu og átta á aðeins átta árum svo dæmi sé tekið. Þó upphaflega hafi það verið varnarviðbrögð vegna ótta um að gosið myndi skaða ímynd landsins þá varð sambland aukins áhuga og aukinnar markaðssetningar helsti drifkraftur þeirrar fjölgunar ferðamanna sem við höfum upplifað síðustu ár. Hafa herferðir, ekki síst á samfélagsmiðlum, auk góðra umsagna þeirra sem hingað hafa komið hjálpað að treysta stöðu vörumerkisins Ísland.

Heillavænlegast væri að skapa almenna umgjörð um ferðamannastaði á Íslandi þar sem gjaldtaka væri frjáls og almennt samþykkt.

Örugg náttúrufegurð
Markaðssetning og áhugi skila þó litlu ef varan sjálf er ekki góð. Það er hinsvegar greinilegt af þeim rannsóknum sem AGS vísar til að ferðamenn eru mjög ánægðir með upplifun sína af Íslandi. Eru þeir almennt mjög hrifnir af náttúrufegurð landsins og ánægðir með viðmót Íslendinga. Í kjölfar hörmulegra atburða í öðrum Evrópuríkum undanfarin ár hefur einnig færst í aukana að tekið sé fram hversu örugga ferðamenn upplifa sig á Íslandi. Allt hefur þetta orðið til þess að Ísland er eftirsóknarverður staður til að heimsækja.

Ólíklegt að til bakslags komi
Þrátt fyrir allt það lof sem Ísland fær og þann mikla uppbyggingar- og þroskafasa sem íslensk ferðaþjónusta er í þá eru blikur á lofti. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á ferðamenn þegar verðlag í þeirra gjaldmiðli hækkar eins skarpt og verið hefur hér á landi að undanförnu. Ferðamenn dvelja hér í styttri tíma og eyða minna og það hefur áhrif einkum á ferðaþjónustufyrirtæki sem búa fjær suðvesturhorninu. Að því sögðu er AGS þó ekki ýkja svartsýnn um framtíð greinarinnar og telur sjóðurinn mjög hæpið þegar litið er til reynslu annarra þjóða, að íslensks ferðaþjónusta verði fyrir miklu höggi. Benda rannsóknir sjóðsins til þess að þær þjóðir sem hafa upplifað vöxt í útfluttri ferðaþjónustu fyrir meira en 4% af landsframleiðslu yfir 10 ára tímabil þá sé afar sjaldgæft að vöxturinn gangi tilbaka. Til að setja það í samhengi þá hefur vöxturinn hér heima verið 7% af landsframleiðslu á aðeins þremur árum. Í þeim tilvikum sem fækkun hefur orðið þá benda rannsóknir AGS til þess að þau tengjist iðulega pólitískum óróleika, grotnandi innviðum, yfirtroðnum ferðamannastöðum eða versnandi samkeppnishæfni. Þó pólitískur óróleiki sé lítill á Íslandi þá er vert að vera vakandi yfir hinum orsakavöldum í þessari upptalningu.

Stýrum ágangi með gjaldtöku
Það væri mikil synd ef grotnandi innviðir yrðu Íslandi að falli eða ekki tekst að hafa stjórn á þeim ferðamannastraumi sem hingað kemur. Margir ferðamannastaðir hafa legið undir skemmdum vegna of mikils ágangs og fjármagn hefur víða skort til uppbyggingar þessara sömu staða. Fer það illa saman að ágangur sé mikill en tekjur litlar.

Heillavænlegast væri að skapa almenna umgjörð um ferðamannastaði á Íslandi þar sem gjaldtaka væri frjáls og almennt samþykkt. Líkt og með aðra þjónustu er eðlilegt að sá sem nýtur hennar greiði fyrir það og stuðli þannig að uppbygginu og viðhaldi svæðanna. Með gjaldtöku væri einnig hægt að stjórna ágangi á svæðin og stýra verðinu þannig að staðirnir þoli þann fjölda sem þá sækir. Stór hluti helstu náttúruperla landsins eru í opinberri eigu og myndi slík gjaldtaka skila tekjum í opinbera sjóði. Sátt um gjaldtöku myndi jafnframt vera hvatning fyrir aðra að byggja upp áfangastaði víðsvegar um landið og þannig dreifa ferðamönnum betur og gera ferðaþjónustuna í heild sjálfbæra og verðmætaskapandi.

Sjá nánar:

Skýrsla AGS um íslenska ferðaþjónustu 22. júní 2017:

ICELAND’S TOURISM ERUPTION (PDF)

Samtök atvinnulífsins