20. mars 2024

Verkefninu er ekki lokið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Verkefninu er ekki lokið

Vaxtaákvörðun 20. mars

Það er góðs viti að seðlabankastjóri hafi staðfest það á upplýsingafundi, í kjölfar vaxtaákvörðunar, að kjarasamningarnir hafi verið gott innlegg og hugsunin í þeim rétt. Það skipti hins vegar máli að þeir komist í framkvæmd með góðum hætti. Kjarasamningar hafa verið nefndinni hugleiknir að undanförnu og hefur almenni markaðurinn nú lagt sitt af mörkum til að draga úr óvissu og skapa skilyrði til að lækkunar stýrivaxta.

Stór hluti vinnumarkaðarins á enn eftir að semja og hefur seðlabankastjóri því talað um hálfjárnaðan klár þegar kemur að kjarasamningum. Opinberi markaðurinn verður að halda sig innan þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið svo vaxtalækkunarferlinu sé ekki teflt í tvísýnu.

Nefndin horfir nú einnig til ríkisfjármálanna þar sem þau gætu aukið eftirspurn og verðbólguþrýsting. SA taka undir þær áhyggjur og beina því sem fyrr til stjórnvalda að þau gæti aðhalds í rekstri og hafi hemil á útgjaldaaukningu. Breytt forgangsröðun yfirvalda í takti við efnahagsaðstæður þýðir einfaldlega að annað þarf undan að láta.

Verðbólga og verðbólguvæntingar virðast þurfa að koma kröftugar niður til að nefndin sjái sér fært að lækka vexti. Það vakti athygli að nefndin gaf í yfirlýsingu sinni ekki til kynna að vaxtalækkana mætti vænta við næstu ákvörðun, lítið var um framsýna leiðsögn. Áhrif nýgerðra kjarasamninga, niðurstöður þeirra samninga sem fram undan eru sem og áhrif opinberra fjármála munu þurfa að birtast með skýrari hætti í gögnunum áður en peningastefnunefnd treystir sér til að taka afgerandi skref til vaxtalækkana. Það er því ljóst að verkefninu er hvergi nærri lokið.

Samtök atvinnulífsins