1 MIN
Vel heppnaður ársfundur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins
Vel heppnaður ársfundur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) fór fram 13. nóvember s.l. þar sem rúmlega 240 manns tóku þátt á staðnum og í streymi. Aðalfyrirlesari dagsins, Olga Orrit, fjallaði um þá samræmdu aðferðafræði sem beitt er í umönnunargeiranum í Svíþjóð hvað varðar umgjörð tungumálafulltrúa á vinnustað, en FA vinnur að því að byggja upp sambærilega umgjörð hér á landi.
Hildur Betty Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri FA og Maj-Britt Hjördís Briem lögmaður hjá SA héldu erindi þar sem farið var yfir aukna þátttöku innflytjenda í framhaldsfræðslunni og hluta fjármagns sem hefur farið í íslenskunám/íslenskukennslu undanfarin ár, frá ríkinu, Fræðslusjóði, Rannís og starfsmenntasjóðum atvinnulífsins. Þetta eru háar upphæðir en ljóst er að yfirsýn og stefnu skortir og því er verk að vinna við að samhæfa leiðir í málaflokknum.
Í fyrra pallborði fundarins tóku Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA þátt. Aleksandra Leonardsdóttir, sérfræðingur í fræðslu og inngildingar hjá ASÍ stýrði pallborðinu. Þar kom m.a. fram að fjórðungur starfandi á landinu eru innflytjendur og íslenskt hagkerfi muni ekki vaxa án þeirra. Fram kom mikilvægi þess að stjórnvöld setji sér stefnu í málefnum innflytjanda m.a. með hliðsjón af íslenskunámi, umgjörð íslenskunáms, gagnsæi í fjármögnun og aðgengi að jöfnum tækifærum til íslenskunáms.
Í seinna pallborði dagsins, tóku Wendill Galan Viejo, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á menntadeild Landspítalans, Ásta Bjarnadóttir, skrifstofustjóri starfsþróunar og starfsumhverfis hjá Reykjavíkurborg, Helga Fjóla Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Hornsteini og Ólöf Guðmundsdóttir, hótelstjóri Hilton Reykjavik Nordica þátt. Kristjana Arnarsdóttir, sérfræðingur á miðlunarsviði SA stýrði pallborðinu. Í máli þeirra kom fram að á þeirra vinnustöðum er hátt hlutfall innflytjenda og þekking og kunnátta á íslensku er mjög mikilvæg fyrir flest störf. Vegna þess bjóða fyrirtækin upp á ýmsar leiðir til íslenskunáms.
Í lok fundarins fengu fyrirmyndir í námi fullorðinna, þær Honeyly Abrequino Limbaga og Sunna Rae George viðurkenningar en þær hafa báðar nýtt sér verkfæri framhaldsfræðslunnar með góðum árangri.