1 MIN
Vegna fjölda fyrirspurna um kvennafrí 2025
Á morgun, 24. október, verða 50 ár liðin frá hinum sögufræga kvennafrídegi árið 1975, þar sem um 90% kvenna lögðu niður störf til að leggja áherslu á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og til að krefjast sömu réttinda og launakjara og karlmenn nutu í sínum störfum. Til stendur að minnast dagsins með dagskrá sem hefst með sögugöngu kl. 13:30. Að henni lokinni verður safnast saman á Arnarhóli þar sem frekari dagskrá fer fram auk viðburða sem efnt verður til utan höfuðborgarsvæðisins.
Á seinustu 50 árum hefur margt áunnist hvað varðar jafnrétti kynjanna. Sem dæmi má nefna innleiðingu laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og lög um fæðingar- og foreldraorlof. Aðgengi að umönnun barna hefur aukist til muna og stuðlað að mikilli atvinnuþátttöku kvenna þó enn vanti herslumuninn til að brúa umönnunarbilið að fullu. Launamunur kynjanna hefur farið sífellt minnkandi og stóð leiðréttur launamunur milli karla og kvenna í 3,6% samkvæmt nýjustu rannsókn Hagstofu Íslands. Konur gegna nú mörgum af helstu ábyrgðarstöðum í íslensku samfélagi. Íslensk fyrirtæki hafa jafnframt sett jafnréttismál á oddinn í sinni starfsemi í síauknum mæli. Það er því sannarlega tilefni til að minnast allrar þeirrar framþróunar sem hefur átt sér stað frá kvennafrídeginum 1975 með jákvæðum formerkjum og hátíðardagskrá.
Konur og kvár voru upphaflega hvött til að leggja niður launuð störf á meðan á skipulagðri dagskrá stóð, það er frá 13:30. Mörg fyrirtæki hyggjast koma til móts við konur og kvár sem hyggjast taka þátt í skipulögðu dagskránni og hafa skipulagt starfsemi sína með góðum fyrirvara að teknu tilliti til þess. Samtök atvinnulífsins ítreka að þau leggja áherslu á að starfsfólk sem hyggst taka þátt í skipulagðri dagskrá viðburðarins óski með góðum fyrirvara eftir samtali við sinn atvinnurekanda um hvort hægt sé að koma við fjarvistum þennan dag og þá með hvað hætti. Samtökin minna jafnframt á að atvinnurekendur eru í misgóðri aðstöðu til að koma slíkum fjarvistum við og að engin skylda hvílir á atvinnurekendum að greiða laun í fjarvistum sem þessum.
Samtök atvinnulífsins gagnrýna þá breytingu sem hefur átt sér stað með nær engum fyrirvara að konur og kvár séu nú hvött til að leggja niður störf allan daginn. Samtökin leggja ríka áherslu á jafnrétti en telja að betur færi á því að þeir aðilar sem standi að baki þeim kröfum sem útlistaðar eru í tengslum við kvennafrídaginn veki athygli á þeim án þess að af því hljótist það efnahagslega tjón sem í slíkum aðgerðum felst.