1 MIN
Umsögn SA um fjárlagafrumvarp 2026
Skattgreiðendur eiga mikið undir því að alvöru tiltekt og skynsamleg forgangsröðun eigi sér stað í rekstri ríkissjóðs. Mistakist ríkisstjórninni það verkefni þýðir það aðeins eitt – kynslóðir dagsins í dag taka út lífskjör sem ekki er innistæða fyrir. Komandi kynslóðir munu þar af leiðandi sitja uppi með reikninginn. Það væri hvorki skynsamleg né sanngjörn efnahagsstjórn.
Tækifæri hefðu verið til að ná afgangi af ríkisrekstri strax í fyrstu fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar. Þau voru ekki nýtt sem vekur upp spurningar um skuldbindingu stjórnvalda gagnvart því að ná niður skuldahlutfalli og vaxtakostnaði ríkissjóðs. Vaxtakostnaður tekur of mikið pláss í ríkisútgjöldum og hann mun ekki minnka nema meiri afgangur náist í ríkisfjármálum, ráðist verði í sölu eigna, vaxtakjör batni verulega eða hagvöxtur aukist til muna. Ekki eru horfur á því að neitt af þessu raungerist í bráð.
Ekkert má út af bregða svo markmið um afar hóflega skuldalækkun gangi ekki eftir í fyrstu fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar. Ef frumjöfnuður ríkissjóðs eða hagvöxtur verður lítillega minni en gert er ráð fyrir mun skuldahlutfallið þvert á móti hækka fremur en lækka.
Skuldbinding stjórnvalda gagnvart hóflegum útgjaldavexti er heldur ekki sterkari en svo að samkvæmt útgjaldareglu munu útgjöld vaxa meira en væntur hagvöxtur og verður umframvöxtur útgjalda fjármagnaður annars vegar með skaðlegum skattahækkunum á útflutningsgreinar og óútfærðum skattahækkunum á atvinnulíf og almenning.
Skatttekjur hins opinbera eru þegar með því mesta sem gerist á byggðu bóli og útgjöld að sama skapi hvergi meiri, sé tekið tillit til ólíkra lífeyriskerfa og útgjalda til varnarmála. Vilji stjórnvöld varðveita sterkan grundvöll áframhaldandi verðmætasköpunar væri óráðlegt að hækka skatta enn frekar. Raunveruleg tiltekt á útgjaldahlið er aðkallandi.
Efnahagshorfur fara versnandi og ríkissjóður verður að búa yfir svigrúmi til að takast á við krefjandi efnahagsástand sem og framtíðaráföll sem óhjákvæmilega munu eiga sér stað – til að tryggja sjálfbærni og áfallaþol ríkissjóðs og réttlátar byrðar milli kynslóða.