Fréttir - 

07. mars 2024

Stöðugleikasamningur í höfn

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stöðugleikasamningur í höfn

Aðildarfyrirtæki SA athugið: Upplýsingafundur um samninginn er mánudaginn 11. mars kl. 12:00. Skráning hér

----

Langtímasamningur hefur verið undirritaður milli Samtaka atvinnulífsins og SGS, Eflingar og Samiðnar – breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Samningurinn gildir frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028. Með undirritun samningsins í dag hefur SA samið við stóran hluta félaga á almennum vinnumarkaði.

Efnahagsleg óvissa hefur komið hart niður á heimilum og fyrirtækjum undanfarin ár og misseri. Samtök atvinnulífsins og breiðfylkingin tóku því höndum saman um gerð langtímakjarasamninga sem eiga að auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu. Samningsaðilar voru sammála um að eitt mikilvægasta verkefnið í komandi kjaraviðræðum væri að ná niður mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi.

„Samhljómur hefur verið milli samningsaðila um undirstöðuatriði bættra lífskjara, eitt meginmarkmið samninganna er að byggja undir efnahagslegan stöðugleika svo bæði fólk og fyrirtæki geti gert framtíðaráætlanir sem halda. Þessi kjarasamningur markar tímamót og verður stefnumarkandi fyrir framhaldið. Ný vinnubrögð, góð samskipti og metnaður fyrir sameiginlegum markmiðum hefur skilað því að við erum sammála um svigrúm til launahækkana og hvaða launabreytingar samræmast verðstöðugleika. Launastefna samningsins og forsenduákvæðin bera þess glöggt merki,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA.

Stöðugleikasamningurinn styður fyrrnefnd markmið samningsaðila, að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Af því leiðir að kaupmáttur eykst, aukinn fyrirsjáanleiki verður í efnahagslífinu, dregið er úr verðbólguvæntingum og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs styrkist. Slíkur stöðugleiki er eitt stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja á óvissutímum.

Launastefna í jafnvægi

Til að undirbyggja stöðugleika er áhersla lögð á langtímasamning til fjögurra ára sem tekur gildi 1. febrúar 2024. Launastefnan byggir á hlutfallslegum launabreytingum með lágmarkskrónutölu.

Stöðugleikasamningurinn innifelur einnig kauptaxtaauka og framleiðniauka sem tryggir launafólki hlutdeild í aukinni verðmætasköpun.

„Með kjarasamningum erum við að skuldbinda fyrirtæki til þess að hækka laun í framtíðinni, í því trausti að verðmætaaukningin sem við sköpum sameiginlega standi undir þeirri skuldbindingu. Aukin verðmætasköpun er lykill að bættum lífskjörum,“ segir Sigríður Margrét.

Forsenduákvæði taka mið af verðbólgu

Samningsaðilar hafa sett sér skýr markmið um að gera langtímakjarasamning sem stuðlar að minnkandi verðbólgu sem skapar skilyrði til þess að stýrivextir lækki. Forsendur kjarasamningsins taka mið af þeim markmiðum.

Til að styrkja forsendur og markmið kjarasamninganna mun sérstök launa- og forsendunefnd taka til starfa. Standist forsendur kjarasamninga ekki ber forsendu- og launanefnd að taka ákvörðun um viðbragð.

Samtaka um aukna hagsæld

„Þessi kjarasamningur ryður brautina, en til að markmiðin náist verða allir aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög að leggjast á eitt og getur enginn skorast undan ábyrgð,“ segir Sigríður Margrét að lokum.

Hér má kynna sér efni Stöðugleikasamningsins nánar

Samtök atvinnulífsins