08. ágúst 2025

SA varar við ósanngjörnum áhrifum ETS á Ísland

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA varar við ósanngjörnum áhrifum ETS á Ísland

Samtök atvinnulífsins (SA), Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa skilað sameiginlegri umsögn til framkvæmdastjórnar ESB um endurskoðun viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (ETS) þar sem sérstaklega er bent á að taka verði mið af sérstöðu íslensks efnahagslífs. Ísland er smáríki með aðeins 390 þúsund íbúa, fámennan innlendan markað og mikla landfræðilega fjarlægð frá helstu viðskiptalöndum.

Í umsögninni er lögð áhersla á að núverandi útfærsla ETS hafi í för með sér ósanngjarnan kostnaðarauka fyrir íslenskt atvinnulíf, sérstaklega í siglingum og flugi. Í sjóflutningum þurfa íslensk skipafélög að greiða 100% ETS-gjald milli Íslands og ESB og 50% milli Íslands og Bandaríkjanna, á meðan skip á beinni leið milli ESB og Bandaríkjanna greiða aðeins 50% af allri leiðinni. SA varar við að þetta dragi úr samkeppnishæfni, hækki flutningskostnað og geti jafnvel aukið kolefnislosun.

Í flugi munu áætlaðar breytingar á ETS-reglum, ásamt afnámi sérlausnar fyrir Ísland árið 2026, leiða til verulegs kostnaðarauka vegna mikilla flugvegalengda til og frá landinu. SA bendir á að þetta muni bitna bæði á ferðaþjónustu og alþjóðatengslum Íslands og geti flugumferð færst til annarra flugvalla, jafnvel þótt kolefnissporið yrði minna með flugi um Keflavík.

SA leggur til að forgangsraða skuli alþjóðlegum lausnum, líkt og CORSIA, fremur en svæðisbundnum aðgerðum sem mismuna einstökum ríkjum. Þá er hvatt til áframhaldandi fríúthlutunar losunarheimilda í orkufrekum iðnaði og að samræmdar reglur um kolefnisbindingu verði hluti af loftslagsstefnu Evrópu.

Samtök atvinnulífsins