06. október 2025

SA kalla eftir óháðri úttekt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA kalla eftir óháðri úttekt

Samtök atvinnulífsins hafa skilað umsögn um frumvarp til nýrra sóttvarnalaga sem nú liggur fyrir Alþingi. Í umsögninni leggja samtökin áherslu á að heildarendurskoðun laga um sóttvarnir verði ekki samþykkt fyrr en óháð úttekt hefur farið fram á viðbrögðum stjórnvalda við heimsfaraldri kórónuveirunnar.

Að mati SA þarf slíkt heildarmat að ná til stjórnskipulegra, lýðheilsufræðilegra og efnahagslegra þátta svo tryggt sé að ný löggjöf byggi á traustum grunni og bestu fáanlegu upplýsingum.

„Það er eðlilegt að áður en ný sóttvarnalög eru samþykkt verði reynslan af faraldrinum gerð upp á skipulegan og hlutlausan hátt,“ segir í umsögninni.

Skoða verður skipan farsóttanefndar

Samtökin gera jafnframt athugasemdir við skipan farsóttanefndar samkvæmt frumvarpinu. SA telja nauðsynlegt að í nefndinni eigi sæti fulltrúar með þjóðhagslega og stjórnskipulega þekkingu, til viðbótar við heilbrigðisfulltrúa, þar sem ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir geta haft víðtæk áhrif á samfélagið allt.

Þá gagnrýna SA að frumvarpið tryggi ekki næga aðkomu Alþingis að ákvörðunum um íþyngjandi sóttvarnaráðstafanir. Þau benda á að upplýsingaskylda ráðherra gagnvart velferðarnefnd sé ekki jafngild lýðræðislegu ákvörðunarvaldi. SA telja mikilvægt að þingið hafi formlega aðkomu að framlengingu reglugerða sem takmarka stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna.

Skortur á stöðluðum mælikvörðum grafa undan trausti

Í umsögninni er einnig fjallað um nauðsyn skýrra og gagnsærra viðmiða fyrir sóttvarnaráðstafanir. Samtökin telja skort á stöðluðum mælikvörðum í faraldrinum hafa grafið undan trausti og skilningi almennings á nauðsyn aðgerða.

Samtökin telja einnig óeðlilegt að geislavarnir og eiturefni falli undir sóttvarnalög, þar sem slíkar aðstæður heyri eðli máls samkvæmt undir almannavarnalög.

Samtök atvinnulífsins