1 MIN
SA kalla eftir breytingum á umhverfi kjarasamninga
Samtök atvinnulífsins hafa skilað umsögn um drög að atvinnustefnu Íslands – vaxtarplan til 2035. Drögin útlista framtíðarsýn, meginmarkmið og stefnuáherslur ríkisstjórnarinnar til að styðja við aukna verðmætasköpun í íslensku hagkerfi.
Samtökin líta það jákvæðum augum að stjórnvöld hugi að samkeppnishæfni lands og þjóðar til lengri tíma og ráðist í aðgerðir sem styrki stöðu íslensks atvinnulífs í alþjóðlegri samkeppni. Ljóst er að til skamms tíma er hagkerfið í járnum og brýnt að stjórnvöld hugi einnig að því að styrkja samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum í náinni framtíð.
Í umsögn sinni um áformaskjal stjórnvalda um atvinnustefnu vöruðu samtökin við tvennu við gerð stefnunnar. Annars vegar að stjórnvöld tækju sér það hlutverk að velja sigurvegara í íslensku atvinnulífi og hins vegar að þau litu of þröngt á framleiðnihugtakið við mótun mælikvarða og markmiða. Heilt yfir má fagna því að stjórnvöld hafa að mestu leyti náð að forðast framangreindar hættur með þeirri nálgun sem birtist í drögunum, sem nær með nokkuð heildstæðum hætti utan um viðfangsefnið.
Þá gáfu samtökin út skýrslu haustið 2025 um stöðu og horfur útflutningsgreina á Íslandi, Öflugur útflutningur – aukin lífsgæði. Í skýrslunni er kastljósinu beint að hvoru tveggja styrkleikum og áskorunum sem útflutningsgreinarnar standa frammi fyrir. Samtökin leggja jafnframt til átta áhersluatriði sem þau telja að stjórnvöld eigi að hafa í öndvegi til að skjóta styrkari stoðum undir útflutningsgreinar Íslands. Að mati samtakanna ættu stjórnvöld því að:
1. Gera umbætur á umgjörð kjarasamninga
2. Einfalda regluverk
3. Forgangsraða í opinberum rekstri til að skapa svigrúm fyrir skattalækkanir
4. Einfalda leyfisveitingaferla, einkum í orkumálum
5. Auka samstarf við atvinnulífið við innviðauppbyggingu
6. Auka alþjóðlega hagsmunagæslu
7. Stuðla að fjölbreyttari útflutningi
8. Gera umbætur í menntakerfi og auka aðgengi erlendra sérfræðinga að íslenskum vinnumarkaði
Samantekt og helstu tillögur
Framtíðarsýn og meginmarkmið
- Samtökin taka að meginstefnu til undir framtíðarsýn og meginmarkmið eins og þeim er lýst í stefnunni. Þó telja þau mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að móta nálgun sína á framleiðnihugtakið sem byggi á alþjóðlegum samanburði.
Mælikvarðar
- Heilt yfir eru mælikvarðar sem lagðir eru til grundvallar árangursmati vel ígrundaðir en samtökin leggja þó til að einnig verði horft til mælikvarða á stöðugleika, stöðu á vinnumarkaði, arðsemi af atvinnurekstri, dýpt markaða og alþjóðlega markaðssókn og markaðsaðgengi.
Þverlæg viðfangsefni
- Markmið sem sett eru fram undir þverlægu viðfangsefnunum eru að mestu samrýmanleg framtíðarsýn stjórnvalda sé nálgunin á þau rétt.
- Árangri um allt land er best náð með almennri nálgun sem felur í sér áherslu á að hlutverk stjórnvalda sé fyrst og fremst að tryggja nauðsynlega innviði (t.a.m. orku- og samgönguinnviði) og almennt góð rekstrarskilyrði.
- Í breyttri heimsmynd er áfallaþol lykill að áhættustjórnun en verkefnið þarf að nálgast með samstarfshugsun og samningagerð milli hins opinbera og atvinnulífsins í stað einhliða krafna hins opinbera og regluverks. Endurgjald þarf að koma fyrir auknar kröfur í birgðahaldi og umframframleiðslugetu.
- Nálgast verður loftslagsmál með alþjóðlegri linsu, þannig að framlag íslensks atvinnulífs sé metið með hliðsjón af því hver losun hefði verið, færi framleiðslan fram annarsstaðar í heiminum.
Almennar stefnuáherslur
- Samtökin telja þær fimm almennu stefnuáherslur sem tilgreindar eru í stefnudrögunum af hinu góða og geta tekið undir mikilvægi hverrar og einnar. Aftur á móti leggja samtökin til að mótaðar verði tvær áherslur til viðbótar en án þeirra telja samtökin minni líkur á að atvinnustefna fyrir Ísland skili árangri.
- Móta þarf stefnuáherslu um útflutningsdrifinn vinnumarkað en það kallar á breytta umgjörð um ríkissáttasemjara og að embættinu verði gert að fylgja eftir launastefnu í stefnumarkandi kjarasamningum.
- Móta þarf stefnuáherslu um beitingu skattkerfisins til að örva útflutningsvöxt og fjárfestingar í atvinnuvegunum. Skattbyrði á Íslandi er há og til viðbótar við tekjuskatt fyrirtækja eru fjölmargir sértækir skattar sem leggjast á atvinnulífið og þarfnast endurskoðunar. Til dæmis mætti tryggja að stytting atvinnuleysisbótatímabils skilaði sér í lækkuðu atvinnutryggingagjaldi og líta til fordæmis Finna sem lækkuðu tekjuskatt fyrirtækja úr 20% í 18% til að efla verðmætasköpun og auka áfallaþol.
Innviðir
- Innviðafjárfesting hefur setið á hakanum undanfarin ár og mikilvægt að snúa þeirri þróun við. Lítið svigrúm er hjá hinu opinbera til stórfelldra fjárfestinga án hagræðingar á rekstrar- og/eða efnahagsreikningi.
- Skynsamlegt er að notast við samvinnuleið (PPP) eins og kostur er við uppbyggingu innviða.
- Helsti flöskuháls uppbyggingar orkuinnviða er þungt leyfisveitingaferli og flókið regluverk. Brýnt er að klára þau einföldunarfrumvörp sem liggja fyrir Alþingi sem allra fyrst.
Vísindi og nýsköpun
- Festa þarf skattalega hvata til rannsókna og þróunar í sessi til að skapa fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja.
- Skapa þarf skattalega hvata til fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum með hliðsjón af erlendum fyrirmyndum og huga að því að fjárfestavernd sé ekki svo sterk að hún komi í veg fyrir nýstárlegar leiðir til fjármögnunar.
- Tækifæri eru til eflingar samstarfs milli atvinnulífs og háskóla m.a. með því að auka áherslu á að tekið sé mið af þörfum samfélags og atvinnulífs við stefnumörkun opinberra háskóla hvað varðar námsframboð og með því að móta skýrari hvata fyrir háskóla og fræðimenn til að eiga í virku samstarfi við fyrirtæki.
Hæfni til framtíðar
- Til að tryggja áframhaldandi lífsgæðaaukningu þarf að fjárfesta markvisst í réttri menntun og færni og draga úr misræmi milli menntunar og starfa.
- Styrkja þarf mannaflaspár og færniþarfagreiningar með kerfisbundnum hætti og samstarfi stjórnvalda, Hagstofunnar, aðila vinnumarkaðarins og menntakerfisins.
- Efla þarf iðn-, verk- og tæknimenntun til að mæta þörf atvinnulífsins, m.a. með því að stuðla að áframhaldandi bættu viðhorfi í garð fagþekkingar.
- Aukin áhersla á STEAM-greinar er forsenda fyrir framtíðar samkeppnishæfni Íslands. Hefja þarf markvissa uppbyggingu í STEAM-greinum strax í leik- og grunnskólum.
Einföldun regluverks
- Leggja þarf kapp á að regluumhverfi atvinnulífsins verði einfaldað til að koma í veg fyrir óþarfa kostnað og skerta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegum samanburði.
- Falla þarf frá fyrirhugaðri lagasetningu sem felur í sér íþyngjandi reglur eða kvaðir fyrir atvinnulífið.
- Ráðast þarf í markvissa og skipulega afhúðun EES-reglna sem hafa verið gullhúðaðar við innleiðingu hér á landi.
- Samtökin leggja til fjölmargar aðgerðatækar tillögur um einföldun regluverks í viðauka sem finna má aftan við umsögn þessa.
Aðgengi að mörkuðum
- Efla þarf alþjóðlega hagsmunagæslu Íslands. Mikilvægt er að gera umbætur á ferlum í aðdraganda þess að Ísland undirgengst alþjóðlegar skuldbindingar, t.a.m. með opinberum lista yfir fyrirhugað alþjóðasamstarf sem Ísland hyggst taka þátt í.
- Greiðir samgönguinnviðir eru forsenda þess að hægt sé að nýta aðgengi að erlendum mörkuðum. Gæta þarf hagsmuna Íslands þegar kemur að flugi og sjóflutningum gagnvart ESB og öðrum alþjóðastofnunum. Brýnt er að tryggja varanlegar sérlausnir fyrir Ísland á þessum sviðum innan ETS kerfisins sem taka mið af sérstöðu Íslands; landfræðilegri legu og smæð þjóðarinnar. Þá þarf jafnframt að tryggja sambærilega sérlausn í sjóflutningum á vettvangi IMO taki alþjóðlegt kolefnisgjaldakerfi við af því evrópska.
- EES samningurinn eru og verður mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands. Tryggja þarf að innri markaðurinn virki í reynd og koma á sameiginlegum skilningi um að tollar eiga ekki heima á innri markaðinum.
- Tryggja þarf viðskiptasamning við Bandaríkin sem skapar fyrirsjáanleika og a.m.k. jafna samkeppnisstöðu við nágrannalöndin.
- Tækifæri eru til að efla fríverslun bæði á vettvangi EFTA en einnig í tvíhliða samstarfi og á Norðurslóðum.