20. nóvember 2025

Ræða málefni íslensks atvinnulífs á fundi BusinessEurope

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ræða málefni íslensks atvinnulífs á fundi BusinessEurope

Í dag og á morgun, föstudag, stendur yfir formannafundur BusinessEurope á Kýpur í tilefni þess að Kýpur tekur við formennsku í Ráðherraráði Evrópusambandsins af Danmörku. Fundurinn er haldinn á tímum þar sem bæði efnahagsleg óvissa og órói í alþjóðastjórnmálum hefur aukist.

Á fundinum er lögð áhersla á að ræða raunverulegar umbætur sem gagnast fyrirtækjum, meðal annars einfaldara regluverk, einföldun á ferlum og að koma í veg fyrir blýhúðun reglna ESB. Þá er fjallað um innri markaðinn og hindranir sem hamla frjálsu flæði vöru, þjónustu og vinnuafls.

Orku- og loftslagsmál eru einnig í brennidepli, þar sem fyrirtæki kalla eftir skýrari hvötum og reglugerðarumhverfi til að fjárfesta í orkuskiptum.

Formaður og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Jón Ólafur Halldórsson og Sigríður Margrét Oddsdóttir, eru meðal fundarmanna fyrir hönd íslensks atvinnulífs ásamt formanni Samtaka iðnaðarins.

„Það sem brennur mest á okkur Íslendingum er ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrr í vikunni um að EES-samningurinn tryggði Íslandi og Noregi ekki fullan aðgang að innri markaði Evrópusambandins eins og þó er kveðið um í samningnum. Við höfum lýst yfir miklum vonbrigðum vegna þessarar ákvörðunar og munum ræða þetta sérstaklega á fundi með kollegum okkar í evrópsku atvinnulífi, forseta Kýpur og fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB,“ segir Jón Ólafur.

Búist er við yfirlýsingu að fundi loknum á morgun.

Samtök atvinnulífsins