06. október 2025

Ótímabær innleiðing flugreglugerðar ESB um sjálfbært eldsneyti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ótímabær innleiðing flugreglugerðar ESB um sjálfbært eldsneyti

Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök verslunar og þjónustu hafa skilað sameiginlegri umsögn um frumvarp til laga um innleiðingu reglugerðar Evrópusambandsins nr. 2023/2405, svonefndrar ReFuelEU Aviation Regulation, sem snýr að aukinni notkun sjálfbærs flugeldsneytis. Samtökin styðja markmið reglugerðarinnar um orkuskipti og kolefnishlutleysi en vara eindregið við því að ráðist verði í innleiðingu hennar hér á landi án frekari greiningar og samráðs við þá sem málið varðar.

Í umsögninni benda samtökin á að reglugerðin hafi ekki verið tekin upp í EES-samninginn og telja því furðulegt að í áformaskjali ráðuneytisins sé fullyrt að aðgerðaleysi Íslands jafngildi samningsbroti. Þvert á móti sé óljóst hvort, hvenær og með hvaða hætti reglugerðin verði tekin upp í EES-samninginn, og því sé ótímabært að lögfesta hana að svo stöddu.

„Áður en til innleiðingar kemur þurfa að liggja fyrir skýr rök fyrir lagalegri og efnislegri nauðsyn,“ segir í umsögninni.

Samtökin vara við því að innleiðing reglugerðarinnar geti leitt til verulegs kostnaðar fyrir flugrekendur, flugvelli og eldsneytisbirgja vegna hærra eldsneytisverðs, aukinna innviða- og geymslukrafna og flóknari ferla. Samkvæmt mati stjórnvalda gæti þetta hækkað farmiðaverð um 0,9–2,4% til að byrja með, og enn meira eftir því sem hlutfall sjálfbærs eldsneytis eykst. Slíkar breytingar geti haft neikvæð áhrif á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, sérstaklega í alþjóðlegu flugumhverfi þar sem íslenskir aðilar keppi við erlenda flugrekendur sem kunna að búa við mildari reglur.

Í umsögninni er einnig bent á að matsblað frumvarpsins sé ófullnægjandi. Þar vanti greiningu á áhrifum reglugerðarinnar á verðbólgu, efnahagslíf og ferðaþjónustu, auk þess sem engar tölur liggi fyrir um áhrif á ríkissjóð. Þá sé í matskafla C viðurkennt að eldsneytisverð muni hækka, en samt svarað neitandi við spurningum um hvort reglusetningin geti takmarkað samkeppnishæfni fyrirtækja – sem sé augljós mótsögn.

Samtökin leggja áherslu á að Ísland nýti allt svigrúm sem mögulegt er innan reglugerðarinnar, með hliðsjón af sérstöðu landsins, svo sem landfræðilegum aðstæðum og mikilvægi flugs fyrir samgöngur og ferðaþjónustu. Þau krefjast þess að áður en ákvörðun verði tekin um innleiðingu fari fram heildstæð greining í nánu samráði við hagsmunaaðila og að stjórnvöld sækist eftir mögulegum undanþágum til að draga úr neikvæðum áhrifum á atvinnulífið.

„Við styðjum metnaðarfullt loftslagsstarf og alþjóðlegt samstarf, en það verður að byggja á raunhæfri greiningu og samkeppnishæfu umhverfi,“ segja samtökin. Þau hvetja stjórnvöld til að hraða vinnu við greiningar sem þurfa að liggja fyrir áður en ákvörðun verður tekin og ítreka að mat á áhrifum lagasetningar á atvinnulífið ætti að vera lögbundið.

Samtök atvinnulífsins