1 MIN
Nýr forstöðumaður miðlunarsviðs
Sigtryggur Magnason hefur verið ráðinn forstöðumaður miðlunarsviðs Samtaka atvinnulífsins. Hann tekur við starfinu af Védísi Hervöru Árnadóttur.
Sigtryggur starfaði frá 2018-2025 sem aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar, fyrst í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, þá innviðaráðuneytinu og nú síðast í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Áður hafði Sigtryggur starfað við markaðsmál og auglýsingar, meðal annars sem sköpunarstjóri Íslensku auglýsingastofunnar. Hann hefur einnig skrifað leikrit sem sett hafa verið upp og gefin út hér heima og erlendis.
„Rödd Samtaka atvinnulífsins er gríðarlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag enda trúi ég því að öflugt atvinnulíf sé undirstaða blómlegra samfélaga,“ segir Sigtryggur. „Ég hlakka til að bætast í hóp starfsmanna SA sem vinna alla daga að því að þjónusta fyrirtækin, gæta hagsmuna þeirra og miðla staðreyndum um atvinnulífið til almennings.“
„Sigtryggur er happafengur fyrir samtökin. Reynsla hans úr fjölmiðlum, af auglýsingastofum, úr leikhúsinu og stjórnmálum mun nýtast vel enda er upplýsingamiðlun og góð samskipti við okkar haghafa lykilatriði í starfi samtakanna. Við bjóðum Sigtrygg innilega velkominn til starfa.” segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Sigtryggur Magnason, nýr forstöðumaður miðlunarsviðs.