10. febrúar 2024

Mikið virði falið í stöðugleika

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikið virði falið í stöðugleika

Samningsmarkmið í þeim kjaraviðræðum sem Samtök atvinnulífsins hafa átt við breiðfylkingu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði að undanförnu hefur verið að gera langtímasamninga sem skapi skilyrði fyrir minni verðbólgu og lægri vexti.

Það er áfram markmiðið og að því verður unnið, þótt viðsemjendur okkar hafi ákveðið að slíta viðræðum hjá Ríkissáttasemjara í dag.

Mikið virði er falið í þeim stöðugleika sem fylgir langtímakjarasamningum. Það er því mikilvægt að þau forsenduákvæði sem samið er um valdi því ekki að stöðugleikinn ríki einungis til skamms tíma.

Þá er mikilvægt að forsenduákvæði kjarasamninga vegi ekki að sjálfstæði Seðlabankans. Lögbundið hlutverk bankans er að halda verðbólgu við markmið og beita til þess stýrivaxtatækinu. Það er svo hlutverk aðila vinnumarkaðarins að skapa umhverfi sem stuðlar að þessu markmiði.

Þótt viðræðum sé með þessu hætt í bili, eru Samtök atvinnulífsins reiðubúin sem fyrr að halda samtalinu áfram. Markmiðið er áfram að stuðla að aukinni sátt og móta heildstæða launastefnu sem skapar skilyrði fyrir minni verðbólgu og lægri vexti. Það verður áfram verkefnið.

Samtök atvinnulífsins