Fréttir - 

22. september 2025

Meirihluti félagsmanna SA andvígur aðild Íslands að ESB

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Meirihluti félagsmanna SA andvígur aðild Íslands að ESB

Meirihluti félagsmanna Samtaka atvinnulífsins er andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu samkvæmt nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir SA. 42% eru mjög andvíg aðild og 14% frekar andvíg. 12% eru mjög hlynnt og 15% frekar hlynnt.

Andstaða við aðild er meiri á landsbyggðinni, 71%, miðað við 47% á höfuðborgarsvæðinu. Stuðningur fyrirtækja við aðild er 33% á höfuðborgarsvæðinu en 16% á landsbyggðinni.

„Það er verið að setja aðild Íslands að Evrópusambandinu á dagskrá og það er mikilvægt að við tökum faglega umræðu um kostnað og ávinning aðildar fyrir atvinnulífið,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA. „Þessar niðurstöður eru í samræmi við það sem við upplifum í samtölum við félagsmenn, Skoðanir eru skiptar innan atvinnulífsins en meirihluti okkar félagsmanna telur hagsmunum íslensks atvinnulífs betur borgið utan ESB.“

Niðurstöðurnar eru hluti af stærri könnun sem lögð var fyrir félagsmenn Samtaka atvinnulífsins og tekur á fjölmörgum þáttum sem snertir rekstur fyrirtækja á Íslandi. Frekari niðurstöður verða kynntar á Ársfundi atvinnulífsins sem haldinn er 2. október í Hörpu undir yfirskriftinni Krafturinn sem knýr samfélagið.

Samtök atvinnulífsins