1 MIN
Kjarasamningar verði ekki verðbólgufóður
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að hækka meginvexti bankans um 0,5 prósentur þannig að þeir standa nú í 9,25% og hafa ekki verið hærri síðan í ársbyrjun 2010. Verðbólgan stóð hæst í 10,2% í febrúar á þessu ári en hefur síðan þá hjaðnað í 7,6% sem er í takt við væntingar bankans. Undirliggjandi verðbólga hefur hins vegar hjaðnað hægar og verðbólguvæntingar eru enn langt yfir markmiði bankans. Þá ríkir enn talsverð spenna á vinnumarkaði. Taldi nefndin því nauðsynlegt að hækka vexti í 14. sinn í röð.
Tónn nefndarinnar hefur þó mildast nokkuð frá því í vor. Lokaorð yfirlýsingar peningastefnunefndar frá því í maí voru: „Horfur eru því á að hækka þurfi vexti enn meira til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið.“ Að þessu sinni stendur hins vegar: „Vísbendingar eru um að áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram og mun peningastefnan á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“ Mætti túlka þennan viðsnúning sem svo að fram undan gæti verið frí frá frekari vaxtahækkunum.
Rétt eins og í vor telur nefndin nú „mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags“ og virðist það hafa verið sérstakt markmið nefndarinnar að koma verðbólgu í ásættanlegt horf nú þegar líða fer að endurnýjun kjarasamninga. Enda mun verðbólguþróun næstu missera ráðast að miklu leyti af niðurstöðum þeirra samninga. Nefndi seðlabankastjóri sérstaklega að það væri afar slæmt ef laun myndu hækka umfram framleiðnivöxt og verðbólgumarkmið. „Það liggur fyrir að það gerðist síðast.“ Í Peningamálum kemur enn fremur fram að horfur um framleiðni hafi versnað. Þar segir: „Nú er talið að launakostnaður á framleidda einingu hækki um tæplega 1 prósentu meira í ár en gert var ráð fyrir í maí eða 9,6%. Gangi spáin eftir verður það mesta hækkun launakostnaðar á framleidda einingu frá því á árinu 2006.“ Hækki laun umfram framleiðni má gera ráð fyrir að þær innistæðulausu launahækkanir rati út í verðlagið.
Fram kemur í Peningamálum sem gefin voru út samhliða vaxtaákvörðun nefndarinnar að hagvöxtur og einkaneysluvöxtur hafi verið minni í ársbyrjun en spáð hafði verið. Slík þróun dregur úr þörf fyrir vaxtahækkanir. Þá er tekið fram að fjárfesting, ekki síst í íbúðabyggingu, reyndist “töluvert minni” en áætlað hafði verið. Gera má fastlega ráð fyrir að fyrri vaxtahækkanir nefndarinnar hafi haft einhver áhrif hvað það varðar þó vinnuafls- og lóðaskortur skýri einnig tafir í uppbyggingu. Þá má sjá í nýrri spá bankans að gert er ráð fyrir að fjárfesting í íbúðarhúsnæði verði talsvert minni næstu misserin en gert hafði verið ráð fyrir í maíspá bankans. Veldur þetta nokkrum áhyggjum í ljósi þess hve mikil þörf er á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis um þessar mundir.
Vakin hefur verið athygli á því að mögulega hafi verið gengið of langt í vaxtalækkunum á tímabili faraldursins. Hættan er að sama skapi sú að of langt hafi verið gengið með hækkanir nú. Áhrif þeirra vaxtahækkana sem þegar hafa átt sér stað eru ekki að fullu komin fram. Þó stærsta hagstjórnarverkefnið þessi misserin sé vissulega að ná verðbólgu niður, þá mega vaxtahækkanir ekki hafa þau áhrif að fjárfesting, svo sem í íbúðauppbyggingu, leggist alveg í dvala. Síaukinn kostnaður launafólks við húsnæði er enda mikilvægur þáttur í kjaraviðræðum sem ekki má gleymast.