1 MIN
Ísland á mikið inni sem vörumerki
Í morgun fór fram morgunverðarfundar í Kaldalóni, Hörpu, sem bar yfirskriftina Afl upprunans þar sem fjallað var um endanlega niðurstöðu dómstóls Evrópusambandsins í málinu gegn Iceland Foods Ltd og áhrif hennar á íslenskt atvinnulíf. Sigtryggur Magnason, forstöðumaður á miðlunarsviði SA, opnaði fundinn sem var vel sóttur af fólki úr ólíkum áttum atvinnulífsins.
Nokkrir fulltrúar aðildarsamtaka SA fóru með stutt erindi. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, minnti á að ríkið gegnir lykilhlutverki í að segja sögu landsins vel og tryggja samkeppnishæfni landsins á erlendri grundu. Sigurður Helgi Birgisson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði, þakkaði sérstaklega fyrir það í sínu erindi hvernig utanríkisráðuneytið stóð vörð í dómsmálinu um vörumerkið Iceland. Steinar Þór Ólafsson, sérfræðingur í samskiptum og miðlum hjá SFS, fór yfir sérstöðu og gæði íslensks fisks sem er fluttur út til um 90 landa og benti á að vörur frá öðrum löndum sem innihalda minni gæði falsi stundum íslenskar merkingar til að fá hærra markaðsverð.
Brynhildur Georgsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu, kynnti niðurstöðu dómstóls Evrópusambandsins um vörumerkið Iceland og útskýrði hvernig Iceland Foods hafi staðið gegn skráningu ýmissa vörumerkja, meðal annars Inspired by Iceland. Hún sagði frá því að í málaferlinu hefði þurft að sanna stöðu Íslands sem útflutningsþjóð. Enn þann dag í dag er heimilt að skrá landaheiti sem vörumerki og SA, Hugverkastofa og Íslandsstofa vinna saman að því að vakta slíkar skráningar um allan heim.
Í lok fundarins flutti Gaute Høgh, stofnandi CO/PLUS og sérfræðingur í markaðssetningu, fyrirlestur sem bar yfirskrift fundarins. Gaute lagði áherslu á mikilvægi þess að nýta uppruna vöru í markaðssetningu. Hann benti einnig á að 92% neytenda í Bandaríkjunum vilji auglýsingar sem segja góðar sögur og hvatti til þess að Ísland nýtti rætur sínar enn betur í nýsköpun og útflutningi. Hann sýndi dæmi um velheppnaða endurmörkun þjóða eins og Suður-Kóreu og Finnlands, borgum eins og Detroit og jafnvel smærri svæða eins og Langeland.
Við þökkum öllum sem mættu kærlega fyrir komuna. Hér fyrir neðan má sjá myndir frá fundinum.












