27. október 2025

Hvatt til sértækari aðgerða

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hvatt til sértækari aðgerða

Samtök atvinnulífsins (SA) hafa skilað umsögn um frumvarp um hækkun frítekjumarks ellilífeyris, aldursviðbót og vinnslu persónuupplýsinga. Samtökin vara við að fyrirhuguð hækkun auki útgjöld ríkissjóðs, stuðli að meiri þenslu og verðbólgu sem vinnur gegn lægri vöxtum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að almennt frítekjumark ellilífeyris hækki úr 36.500 krónum í 60.000 krónur á kjörtímabilinu, með stigvaxandi hækkunum árin 2026–2028. SA bendir á að ráðstöfunartekjur eldri borgara hafi aukist mest frá aldamótum, bæði í krónum talið og hlutfallslega, og að þær kynslóðir verði almennt síður fyrir áhrifum af háum vöxtum þar sem skuldir þeirra eru minni en hjá yngri hópum.

SA hvetja stjórnvöld til að beina stuðningi fremur að þeim sem standa höllum fæti, í stað almennra aðgerða sem bæta kjör þeirra sem þegar hafa notið mestrar aukningar. „Ríkissjóður er enn rekinn með halla og með þessum breytingum er verið að leggja meiri byrðar á yngri kynslóðir til að bæta stöðu hóps sem þegar hefur notið góðs af hagvexti,“ segir í umsögninni.

SA fagna því að gert sé ráð fyrir einföldun stjórnskipulags hjá Tryggingastofnun og skipulegri söfnun gagna, en hvetja til aukins samráðs við hagaðila, einkum VIRK.

Samtök atvinnulífsins