12. júlí 2025

Hækkun veiðigjalda skapar nýtt óvissuálag sem hefur áhrif á alla atvinnuvegi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hækkun veiðigjalda skapar nýtt óvissuálag sem hefur áhrif á alla atvinnuvegi

Samtök atvinnulífsins ítreka harða andstöðu við fyrirhugaða hækkun veiðigjalda og vara við alvarlegum afleiðingum fyrir sjávarútveg og efnahag landsins. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að gildandi lög tryggi þjóðinni nú þegar hlutdeild í afkomu greinarinnar og að skattbyrði sjávarútvegs sé nú þegar langt umfram aðrar atvinnugreinar – eða allt að 58% virkur tekjuskattur.

Samtökin telja að boðuð hækkun muni draga úr fjárfestingu, til lengri tíma skila lægri tekjum til ríkissjóðs og veikja samkeppnishæfni landsins. Þær fjárfestingar sem sjávarútvegurinn hafi lagt í undanfarin ár hafi leitt til betri afkasta, öruggari skipa og verðmætari vöru – og sú þróun sé í hættu.

„Ísland er háskattaríki og skattlagningaráformin skapa nýtt óvissuálag sem hefur áhrif á alla atvinnuvegi,“ segir í yfirlýsingunni. „ Það má öllum vera ljóst að skattlagningaráform eins og þau sem hér um ræðir munu hafa áhrif á gerð næstu kjarasamninga“.

Samtök atvinnulífsins segja allar forsendur til þess að sækja fram, fjölga störfum og ná árangri en til þess þurfi að ná samstöðu um að nýta tækifærin. Í lok yfirlýsingarinnar sem er undirrituð af Jóni Ólafi Halldórssyni, formanni SA, og Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra SA, segir: „Traust er mikilvægasti gjaldmiðillinn í öllu samstarfi og samtökin leggja áherslu að traust ríki á milli stjórnvalda og atvinnulífs.“

Samtök atvinnulífsins