1 MIN
Grípa þarf fólk fyrr í veikindum
Lykilatriði er að grípa fólk snemma í veikindum sínum til að fyrirbyggja að það falli utan vinnumarkaðar. Þetta er meðal þess sem kom fram á árlegum vinnufundi SA með systursamtökum sínum á Norðurlöndunum sem fram fór í Osló í síðustu viku.
Á hinum Norðurlöndunum er til staðar skipulagt fyrir fram ákveðið ferli sem miðar að því að koma starfsmanni, í veikindaleyfi, sem fyrst aftur til starfa. Ferlið byggist á samstarfi starfsmanns, atvinnurekanda og læknis. Þessu er ekki til að dreifa á Íslandi þar sem starfsmaður getur verið utan vinnumarkaðar í veikindaleyfi svo mánuðum skiptir án nokkurs stuðnings eða meðhöndlunar.
Ef vel á að takast til þarf að vera til staðar ákveðið ferli sem byggir á góðu samstarfi milli atvinnurekanda, launþega og stjórnvalda. Þá er nauðsynlegt að tryggja samræmda og skilvirka framkvæmd í tengslum við útgáfu læknisvottorða, t.d. með nákvæmum leiðbeiningum við útgáfu læknisvottorða en læknar gegna þar lykilhlutverki. Þessu hafa Norðmenn brennt sig á þar sem veikindafjarvistir hafa verið langt um meiri en í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð þar sem veikindafjarvistir hafa náð jafnvægi eftir kórónuveirufaraldurinn.
Mikilvægt er að leggja áherslu á geðheilbrigðismál en mesta nýgengni örorku í öllum löndunum er vegna andlegra veikinda. Samstaða var um að skipulögð samtöl milli atvinnurekanda og starfsfólks og gerð svokallaðrar endurkomuáætlunar væru mikilvægasta framlag vinnumarkaðarins við að hjálpa fólki að snúa til baka úr andlegu veikindaleyfi.
Í kynningu Íslands var meðal annars farið yfir að nýgengni örorku hefur aukist um 85% frá aldamótum en fjöldi starfandi hefur á sama tíma aukist um 40%. Örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað á tímabilinu úr 6,8% af fjölda starfandi í 9%. Á sama tíma hefur langlífi aukist og hlutfall ellilífeyrisþega hækkað umtalsvert. Færri og færri standa því undir samneyslunni. Þá voru kynntar þær breytingar sem áttu sér stað á örorku- og endurhæfingarkerfinu 1. september sl. Fulltrúar systursamtaka SA voru sammála um nauðsyn þess fyrir Ísland að ráðast í frekari breytingar á umgjörð veikindaréttarins með það að markmiði að bæta heilsu og minnka brotthvarf af vinnumarkaði. Skipulagt endurkomuferli, leiðbeiningar við útgáfu læknisvottorða og veikindasjóður að norrænni fyrirmynd voru nefnd í því samhengi en atvinnurekendur greiða þar beint veikindakaup í 13-30 daga en síðan taka við greiðslur úr veikindasjóðum. Gott samstarf aðila vinnumarkaðarins, stjórnvalda og heilbrigðisstarfsfólks er lykilinn að aukinni virkni og bættri heilsu landsmanna.