03. desember 2025

Gott að móta stefnu – Verra að gleyma atvinnulífinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Gott að móta stefnu – Verra að gleyma atvinnulífinu

Samtök atvinnulífsins hafa skilað umsögn um tillögu til fyrstu heildarstefnu Íslands í varnar- og öryggismálum og fagna því að slík stefna sé nú lögð fram. Í umsögninni segir að í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu og breytts öryggisumhverfis á undanförnum árum sé brýnna en nokkru sinni að íslensk stjórnvöld marki skýra sýn um forgangsröðun í þessum mikilvæga málaflokki. SA telja þó að hlutverk atvinnulífsins sé vanmetið í tillögunni.

Áhyggjur samtakanna snúa meðal annars að auknum fjárveitingum til varnartengdra verkefna. Í nýlegum ákvörðunum NATO er gert ráð fyrir að bandalagsríki verji samtals 5% af VLF til varnar- og öryggismála, þar af 1,5% til varnartengdra verkefna sem Ísland þarf að uppfylla. SA telja að slík útgjaldaaukning sé ómöguleg nema með verulegri endurskoðun ríkisútgjalda, þar sem skattheimta sé þegar komin að þolmörkum. Þau leggja áherslu á að skýr forgangsröðun þurfi að liggja fyrir.

Í umsögninni er einnig fjallað um mikilvægi áfallaþols og almannavarna, þar sem SA telja að betur þurfi að tryggja formlega aðkomu atvinnulífsins að stefnumótun og skipulagi. Einkageirinn gegnir lykilhlutverki í nauðsynlegum innviðum, svo sem netöryggi, orku- og fjarskiptakerfum, hafna- og flugvallarekstri og matvælaöryggi. SA gagnrýna að hvorki sé sérstaklega vikið að þessum þáttum í stefnunni, né öryggishlutverki samgangna á sjó og í lofti.

Samtökin taka jákvætt í áherslu stefnunnar á nýsköpun og tækni með tvíþætt notagildi og minna á að íslensk fyrirtæki eru nú þegar leiðandi á ýmsum sviðum eins og í orkulausnum, hugbúnaði, ómönnuðum farartækjum og heilbrigðistækni. Þau hvetja stjórnvöld til að styðja markvisst við þátttöku fyrirtækja í samstarfsverkefnum og sjóðum innan NATO og Evrópu.

Að lokum ítreka SA mikilvægi einfaldra og gagnsærra reglna um rýni erlendra fjárfestinga og hvetja til endurskoðunar á stofnanaumgjörð varnarmála með það að leiðarljósi að samhæfing og skilvirkni aukist án þess að fjölga ríkisstofnunum.

Samtök atvinnulífsins