1 MIN
Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum
18 íslensk fyrirtæki hlutu á föstudag nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum við hátíðlega athöfn á Nauthóli. Viðurkenningarnar eru veittar af Stjórnvísi, Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq Iceland.
Fyrirtækin sem hlutu nafnbótina árið 2025 eru:
Alvotech, Arion banki, Eik fasteignafélag, Fossar fjárfestingarbanki, Heimar, Icelandair Group, Íslandssjóðir, Kvika banki, Orkan IS, Reiknistofa bankanna, Reitir fasteignafélag, Sjóvá, Skagi, Stefnir, VÍS, Vörður tryggingar og Ölgerðin Egill Skallagrímsson.
Markmið verkefnisins er að efla traust í viðskiptalífinu og styrkja innviði fyrirtækja með því að hvetja til skýrra vald- og ábyrgðarskipta innan stjórna og stjórnenda. Með góðum stjórnarháttum skapast grundvöllur fyrir faglega ákvarðanatöku, ábyrgari rekstur og bætt samskiptamenning innan fyrirtækja. Þannig verður stjórnarstarf bæði skilvirkara og traustara í augum almennings.
Liður í verkefninu er útgáfa og regluleg uppfærsla leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja sem finna má á Leidbeiningar.is
Fyrirtækin sem hljóta nafnbótina koma úr fjölbreyttum atvinnugreinum, m.a. fjármála- og tryggingastarfsemi, fjarskiptum, leigustarfsemi, eignaumsýslu og ferðaþjónustu. Þau eiga það sameiginlegt að vera með vel skipulagða starfshætti stjórna og framkvæmd stjórnarstarfa sem þykja til fyrirmyndar.
Viðurkenningarnar voru afhentar af Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Í inngangi sínum sagði Sigríður Margrét að viðurkenning Stjórnvísi stuðlaði að umræðum og aðgerðum sem efldu góða stjórnarhætti. „Góðir stjórnarhættir eru lykilatriði þegar kemur að fyrirtækjarekstri en eins og við vitum öll þá eru fyrirtæki landsins krafturinn sem knýr samfélagið“.



































